Lífið í Stavanger.
Allt í einu, þar sem ég sit á næturvaktinni datt mér í hug að gera færslu um hversdagsleikann hérna í Stavanger. Eins áhugaverður og hann nú er.
Eftir rúmlega sólarhringsstopp heima í Sönderborg, flaug ég til Stavanger kvöldið 18. janúar og beint á næturvakt. Stundum tek ég flugrútuna til sjúkrahússins eða til híbýlisins, stundum leigubíl. Síðast tók ég leigubíl. Þegar ég tek leigubíl, vonast ég alltaf eftir einhverjum almennilegum því ekki er þetta beinlínis ókeypis ferð. Þegar ég kom að leigubílaröðinni, vinkaði fremsti bíll mér og bauð mig hjartanlega velkomna til Stavanger… ma’am (bílstjórinn var útlendingur, meiri útlendingur en ég). Við mér blasti sendiferðarbíll. Mig langaði ekkert inn í sendiferðarbíl. Bílstjórinn sá greinilega svipinn á mér og byrjaði að skælbrosa, lofaði mér skemmtilegum túr, tók töskuna af mér, setti hana inn í bíl og nánast ýtti mér inn. Ég veit að maður hefur rétt á að velja sér bíl, en þarna nennti ég ekki að standa í einhverju ströggli. Alla leiðina var bílstjórinn yfir sig glaður og talaði mest um bílinn sem honum var greinilega annt um.
Mætti á næturvakt kl. 23.00 og var sett beint í einangrun. Sem rifjaði upp fyrir mér mína fyrstu ferð til Stavanger fyrir rúmlega tveimur árum, þegar ég var í einangrun langa helgi og sá varla nokkurn mann allan tímann, nema náttúrulega sjúklinginn. Ég kunni leiðina á klósettið og að kaffivélinni. Einangrunin hérna á þessu Gjöri er staðsetningarlega séð fyrir utan sjálfa deildina.
Þetta einangrunartímabil var mikið betra, kannski vegna þess að ég þekki deildina orðið svo vel og sjúklingurinn var friðsamlegur. Ég var höfð í einangrun frá fimmtudagskvöldi fram á þriðjudagsmorgun. Þá loksins gaf sjúklingurinn upp öndina. Á þessu tímabili gerðist mest lítið, ég fór í örfáa göngutúra og sníkti einu sinni kvöldmat úti í Sandnes. Ég heklaði ekki og horfði ekki á sjónvarpið. Fór ekki í verslunarmiðstöðina sem er við hliðina á íbúðinni þó bæði H&M og Lindex séu þar. *Allir sem þekkja mig vel, vita að ég er gríðarlegur aðdáendi þessarra tveggja búða, jú og Primark líka. Elska að strauja VISA kreditkortið þar.* (Allir sem þekkja mig vel, vita að þetta frá stjörnu til stjörnu var allt saman helber lýgi og vel það). En svona eru dagarnir; sofa, borða, vinna.
Á fimmtudaginn síðasta átti ég frí eða svona tæknilega séð. Glaðvaknaði kl. 6.00. Ég sem ætlaði að sofa út. Fékk SMS þar sem ég sat og borðaði morgunmat og planlagði í huganum þennan frídag, þar sem spurt var hvort ég gæti tekið næturvakt. Þess vegna bara tæknilegur frídagur, þ.e.a.s. á pappírum. Ég slaufaði fyrirhugaðri miðbæjarferð og mögulegu kvöldmatarsníki úti í Sandnes. Í staðinn gekk ég um með maska í andlitinu og hlustaði á bók. Allan daginn. Nú er ég aftur að bulla. Auðvitað gengur maður ekki um með maska í andlitinu allan daginn. En þar sem ég nú samt sem áður stóð og reyndi að lagfæra á mér andlitið sem var komið þokkalega úr skorðum eftir einangrunina, var dyrabjöllunni hringt. Tvisvar. Mér datt strax í hug húsvörðurinn (sem ætti að vera með lykil), því ég hafði kvartað yfir ónýtum ljósaperum og svalahurð sem ekki var hægt að loka almennilega. En nei, þá var það nýr sambýlingur (það eru þrjú herbergi í íbúðinni). Og aldrei hef ég augum litið svona lítinn hjúkrunarfræðing. Hún er af erlendu bergi brotinn (meira en ég) og agnar smá. Í vegabréfinu hennar stóð 153 cm. Já, ég krafði hana um skilríki áður en ég hleypti henni inn, því mér leyst ekkert á hana. Svona dökk á húð og hár. Svo eru líka skýrar reglur um að sækja lykil sem gengur að íbúðinni í lyklabox, einmitt til þess að dingla ekki, einmitt vegna þess að það eru miklar líkur á að hinir séu sofandi eftir næturvakt. Óskrifaða reglan er að maður lætur eins lítið fyrir sér fara eins og hægt er. Og það hefði ekki átt að vera vandamál fyrir nýja sambýlinginn, því fyrir utan að vera svona lágvaxinn, er hún svo nett og fíngerð að glætan að hún sé meira en 40kg. Ég þurfti að hnerra en þorði því ekki fyrir mitt litla líf. Ökklarnir á henni eru eins og ökklar á kjúklingi.
En hún lét ekki fara fyrir sér í samræmi við líkamsbyggingu. Eftir að ég hafði lokið mér af fyrir framan spegilinn, settist ég í sófann í flennistórri stofunni sem er samliggjandi við eldhúsið (þetta er hin margumtalaða Penthouse íbúð) og fór að blogga. Stofan og eldhúsið er svo stórt að það þarf ekkert að tala saman þó maður sé í sama rými. Sambýlingurinn fór að raða í ísskápinn og segir: „Ég á 3 og hálfs árs gamla dóttur sem ég sakna mikið“. Ég svaraði að ég skildi hana vel, ég ætti nefnilega 5 ára gamlan hund sem ég saknaði mikið. Síðan talaði hún um matinn sem hún hafði tekið með frá Danmörku. Og allt í einu segir hún: „Ég stundaði þríþraut einu sinni“. Jáhá, svaraði ég sem veit varla hvað þríþraut er. „Já, og nú stunda ég dans“, sagði hún. Svo mumlaði hún eitthvað um sund. Og spurði svo hvort við borðuðum morgunmat saman í þessari íbúð. Ég svaraði, kannski heldur ákveðið: „Nei, það gerum við ekki“. Síðan fór hún að vinna. Daginn eftir, þegar ég kem fram eftir að hafa sofið eftir næturvaktina, situr hún við eldhúsborðið í klæðskerastellingu (líklega af því að hún er svo nett) og tilkynnir mér með det samme að hún hafi verið úti að hlaupa og hljóp langt. Ég velti fyrir mér, hvort ég virkilega lyti út fyrir að hafa áhuga á slíkum fréttum. Eiginlega er ég ekkert spes í smáspjalli (smalltalk) og hef aldrei verið. Ég sé ekki tilganginn með að spyrja út í t.d. þetta hlaup hennar ef ég hef engan áhuga á því. Því var svarið bara: „Jáhá…“, sem er örugglega mjög dónalegt að mati einhverra.
Að geta þagað með öðru fólki er einn sá kostur í fari fólks sem ég met hvað mest.
En sambýlingurinn minn hélt áfram að segja mér staðreyndir og fréttir af sjálfri sér… ég setti á sjálfvirka svörun þar sem ég gef frá mér hljóð (mmm) með ca 5 sekúndna millibili. Það virtist virka. Og á meðan hún talaði fór ég að rifja upp gamla samstarfskonu af sama bergi og þessi. Hún er líka afar lágvaxinn og með ökkla á við kjúklingaökkla. Og hún sagði manni fréttir af sjálfri sér alveg óumbeðin. Stærsta og eftirminnilegasta fréttin sem hún sagði var á mánudegi eftir jólahlaðborð. Þið vitið hvernig dönsku jólahlaðborðin eru, maturinn er óætur og allir drekka sig haugafulla til að láta sér þykja maturinn góður. Síðan jappla þeir (Danirnir) á kálpulsu með grænkálsídýfu og spyrja síðan útlendinga eins og mig hversu mikið kál sé í kálpulsu. Og ég svara, alveg græn: „Tja svona ca 70%…“. Og þá fá Danirnir hláturskast því það er ekki arða af káli í kálpulsu. Allavega, þarna á mánudeginum kl. 07:15 (ég get svo svarið það, vorum nýmættar) stóðum við inn á skrifstofu; þessi útlenska, ég og þrjár aðrar. Allar úr ólíkri átt og alls ekki hópur sem fer á trúnó. Og það var farið að ræða jólahlaðborðið og þessi útlenska segir: „Já guð, ég var svo blekuð þegar ég kom heim en samt svo hress og rosalega „tilbúin“ að ég burstaði ekki einu sinni tennurnar, heldur stökk beint upp í rúm til Jens sem var líka alveg „tilbúin“. Og vitiði hvað? Þegar hann sprautaði úr honum, fann ég að ég varð ólétt og nú er ég ólétt. Ég veit það, ég finn það“.
Þessar tvær sem eru af sama bergi brotnar, eru ættleiddar og aldnar upp í Danmörku.
Síðan á fimmtudaginn hefur vinnan mín verið svona: næturvakt, kvöldvakt, dagvakt, næturvakt og nú næturvakt. Pínu stutt á milli vakta og líklega umburðarlyndið eftir því. Svona mér til varnar.
Það er fínt að vera laus úr einangrun. Mér leiðist þessi einangrunarklæðnaður alveg óskaplega. Reyndar er hann ágætlega hlýr sem er ágætt, því stundum er svo kalt á næturvöktunum að ég er án alls gríns í 4-5 lögum að ofan og með teppi. Sumir setja handklæði um hálsinn en mér finnst það nú ekki töff.
Vinnufélögunum finnst ég tala fína norsku sem svolítið spaugilegt því ég tala ekki norsku. Ég tala bara eitthvað bland, einhverja skandinavísku og framburðurinn algerlega heimatilbúinn. Þeim finnst allavega mjög auðvelt að skilja mig, auðveldara en Danina og það veitir mér vellíðan því ég er enn bitur út í Dani fyrir að hafa einokað verslunina á Íslandi í gamla daga. Og fyrir að hafa unnið okkur í fótbolta 14-2 árið 1967 og aftur eitthvað svipað árið 2001. Já eða bara fyrir að vinna okkur alltaf í fótbolta.
Áður fyrr, fyrir átta árum síðan, þegar ég var að byrja að fara til Noregs í vinnuferðir, tók ég út fyrir að svara símanum eða hringja. Núna finnst mér það ekkert mál. Og er meira að segja orðin svo örugg í símanum að ég get tekið selfie á meðan ég tala. Þarna er ég að hringja í tæknideildina og krefjast meiri hita á stofunni minni.