Aldís heimsótt í París.

Á síðustu dögum dönsku haustmánuðina fórum við mamma í borgarferð til Parísar til að heimsækja Aldísi þar sem hún býr í 9. hverfi, steinsnar frá Moulin Rouge. Ég hafði greint frá áhyggjum mömmu við að lenda á næst stærsta flugvelli í Evrópu í færslu sem hægt er að lesa hér. Þar kom hún fram undir dulnefni en einhvern veginn vissu allir um hvern var að ræða. Ég hafði bókað minn flugmiða eftir Icelandair fluginu svo að allt myndi nú passa saman. Mamma hafði bókað sinn miða sjálf.

Jæja, við mamma fórum í loftið sama morgun, hún frá Keflavík, ég frá Hamborg, allt var á áætlun og engar áhyggjur neinsstaðar. Allavega ekki hjá mér. Ég lenti síðan á tíma, tók lestarskutluna frá Terminali tvö yfir í Terminal eitt þar sem Icelandair vélin lendir alltaf. Aldís kom þangað og við stilltum okkur upp eins og varnarveggur hjá komuhliðinu til að missa nú ekki af mömmu.  Á skjánum sáum við vélina lenda og töskurnar koma. Síðan fórum við að heyra íslensku og spenningurinn jókst… mikið yrði nú mömmu létt við að sjá okkur standa þarna og að allt hefði gengið upp.

Síðan hættum við að heyra íslensku. En hinkruðum samt rólegar, mamma gat hafa farið á salernið til að snyrta sig og snurfusa áður en hún færi inn í elegöntu hátískuborgina. En þessi snurfusunin virtist taka ýfið langan tíma svo að við hringdum í hana.

Við: „Hæ, hvar ert þú?“

Mamma: „Ég er komin út…“

Við: „Ha, út? Sko út út?“

Mamma: „Já, það eru bílar hérna…“.

Hvernig gat hún farið fram hjá okkur? Við spurðum starfsfólk, hvort hægt væri að koma annarsstaðar úr vélinni en nei, það var ekki hægt, þetta var eini útgangurinn. Við fórum að leita. En fundum hana ekki. Þrátt fyrir mikla leit. Fundum því annan starfsmann og báðum mömmu um að lýsa umhverfinu í kringum sig: „Það er stórt L hérna“.

Starfsmaðurinn kannaðist ekki við L-ið. Því var hringt með vídeói en eitthvað stríddi tæknin okkur og myndgæðin voru með lakara móti en starfsmanninum sýndist hún vera í Terminali tvö en samt ekki alveg viss. Við tókum því lestarskutluna aftur yfir í Terminal tvö, vongóðar um að þessum örvæntingarfullu hlaupum um Charles de Caulle (CDG) völlinn væri brátt lokið. Þegar þarna var komið, vorum við búnar að leita í rúmlega klukkutíma. Og reyna að fá hjálp frá starfsfólki sem samkvæmt eðli málsins gat lítið hjálpað okkur. Mamma var líka búin að rétta starfsmanni hjá sér, símann svo að við gætum talað við hann og spurt hvar hún væri en sá starfsmaður virtist jafn týndur og hún.

Í Terminali tvö var engin mamma. Við fórum í upplýsingar og spurðumst fyrir um Icelandair vélina, hvar farþegar úr henni gætu verið og fengum það svar að Icelandair lendir ALLTAF í Terminali eitt…

… …

Þarna langaði mig pínu lítið bara að fara að gráta og í vatn líka. Það voru að verða liðnir tveir tímar síðan mamma lenti og ég var búin að týna henni fyrir alvöru. Martröðin hennar gagnvart CDG var að rætast. Og ég sat í súpunni. Þá loksins datt mér í hug, fyrst að mamma sá bíla, að spyrja hvort hún sæi leigubíl. Jú, hún gerði það nú og alveg fullt af þeim. Leigubílstjórinn var síðan beðinn um að keyra henni að Terminali 2F. Þá sagði leigubílstjórinn: „Það er ekkert Terminal 2F hérna á Orly“.

ORLY! Ekki hvarflaði að mér að hún gæti verið þar (og ekki hvarflaði að mér að Icelandair myndi fljúga á báða flugvellina í París með fimm mínútna millibili).

En þvílíkur léttir. Leigubílstjórinn á Orly fékk heimilisfangið á hótelinu okkar og var beðin um að bruna í bæinn með mömmu hið snarasta.

Þar sem þetta var í fyrsta skipti sem mamma kom til Parísar, var lítið annað í stöðunni en að sýna henni allt það sem er á póstkortunum frá París. Í ísköldu Miðevrópuveðrinu var keyrt um í túristastrætó, gengið yfir helstu brýrnar, kveikt á kertum í Sacre Coeur og Notre-Dame, farið inn í gallerí á Montmatre, farið með lest, farið með leigubílum og borðað á hinum ýmsu veitingastöðum. Eini veitingarstaðurinn sem ég get samviskulega mælt með var La Zygothéque sem er í 13th. arr. Hann er ekki einn af hundruðum á sama blettinum. Það þarf aðeins að horfa eftir honum.

 

Við bjuggum á dæmigerðu gömlu parísarhóteli í Latínuhverfinu og þegar fór að líða að heimferð, fór starfsmaðurinn í móttökunni að ýta að okkur leigubílatilboði út á flugvöll. Ég misskildi eitthvað verðið í fyrstu, fannst upphæðin gilda fyrir bílinn og var því alveg heit, en síðar kom í ljós að upphæðin var á einstaklinginn. Þá bakkaði ég og hélt mig við upprunarlega planið sem var bara lestin. Eins auðveld og ódýr og hún nú er. Mamma leyfði mér að ráða. En þegar hótelstarfsmaðurinn heyrði að við ætluðum bara að taka lestina, fórnaði hann höndum og sagði að við yrðum rændar: „beaucoup de voleurs partout, það eru þjófar út um allt í lestunum! Þeir taka ferðatöskurnar ykkar, veskin, símana, já og jakkana líka… criminels de l’enfer„. Ég sagði honum að við myndum halda fast í okkar hluti, en nei, hann tjáði okkur mjög áhyggjufullur að það væri líka mikið um ofbeldi í lestinni á leiðinni út á flugvöll. Fólk kæmi alblóðugt út úr henni, jafnvel hauslaust. Þetta var allt saman þýtt fyrir mömmu og það fóru að renna á hana tvær grímur yfir þessari ákvörðun minni um að taka lestina. Ég sagði henni engar áhyggjur að hafa, ég hefði oft tekið þessa lest, að þetta væri pís off keik og að ég hefði stjórn á þessu (ég hafði líka sagt það um komu hennar á CDG flugvöllinn sem hún svo kom ekki á þegar hún lenti). Og auðvitað tókum við lestina og auðvitað vorum við rændar. Nei, grín.

En mamma slapp samt ekki við hinn gríðarstóra CDG flugvöll því ég hafði bókað heimferðina okkar og fór hún með mér til Sönderborgar í áframhaldandi frí.

Mamma fór því níu sinnum í gegnum flugvöll í þessari ferð og sjö sinnum upp í flugvél.

Svona gekk að heimsækja Aldísi í París.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *