Að heiman í Sönderborg og heim í Hérað.

Hefjum ferðasöguna heima í Sönderborg í lok febrúar.

Það var þannig að það gekk ílla að komast að heiman vegna éljagangs. Fjögurra tíma seinkun á flugi sem aldrei nokkurn tíma er seinkun á. Þetta kom eins og þruma úr heiðskýru lofti, þ.e.a.s. seinkunin. Og flugið mitt til Bergen fyrir bí. Í sárabætur fengu við farþegar snakk, súkkulaði  og kaffi eins og við gátum í okkur látið.

Þann 6. mars eða sjö dögum seinna, var ég að sporðrenna síðasta súkkulaðinu. Súkkulaðimagnið sem ég setti í veskið mitt voru miklar sárabætur að mínu mati. Þegar til Kastrup var komið þurfti ég að fara beint í Transfer deildina og fá annað flug til Bergen. Allt gekk upp og renndi ég loks í hlað á Haukeland sjúkrahúsinu um miðnætti.

Á miðvikudaginn, daginn áður ég átti að fljúga heim frá Bergen, fór ég að skoða flugmiðann minn og sá mér til svolítillar skelfingar að einungis var 40 mínútna stopp í Osló og ég var ekki að fara heim til Sönderborgar heldur heim á Hérað. 40 mínútna stopp er alveg nóg á sumrin en ekki alltaf á veturna þegar það þarf að afísa hverja einustu vél með tilheyrandi bið á brautinni. Auk þess er ekkert stress að missa af vél á leið heim til Sönderborgar vegna þess að SAS reddar því bara og ég þarf ekkert að hafa fyrir neinu. En að missa af vél heim til Íslands sem myndi valda því að ég myndi líka missa af vél heim á Hérað yrði bara hörmung og heimsendir fyrir mig á allan hátt.

Á fimmtudaginn var brottfarardagur. Ég hafði verið á næturvakt og fór því ósofin og eldhress í flug og allt var á áætlun. Flugið var eiginlega of stutt til að sofna eitthvað af viti, svo ég hugsaði mér gott til glóðarinnar í næsta fluglegg, Osló – Keflavík. Icelandair var afísuð og fór svo í loftið. Ég hallaði sætinu aftur sem og augunum og byrjaði að láta mig dreyma. Þá blotnaði ég. Alveg rennblotnaði. Alveg frá nára og niður að hnjám. Það lak svo niður leggina á mér og ofan í skóna. Konan við hliðina á mér opnaði nefnilega sódavatnsflösku. Sódavatnið var kalt og ég bað um teppi. Því var ég glaðvakandi þegar flugfreyjan kom með vagninn og bauð okkur konunni að kaupa páskaegg nr. 3 með mögulegum ferðavinning í. Við keyptum báðar páskaegg. Hún gleypti sitt í einum munnbita og ég veit að þið hugsið með ykkur að núna ég sé að ýkja, en þetta er dagsatt, þið hefðuð átt að sjá það. Ég á ekki eftir að geta borðað páskaegg í nokkrar vikur. Ég stakk mínu bara í veskið mitt. Og gaf svo litla bróðir „flugskultueinkabílstjóra“ eggið og sagði að ef hann ynni, yrði hann að heimsækja mig.

Við hliðið mitt á Leifstöð beið Fúsi og þegar við komum auga á hvort annað, féllumst við í faðma, ég lyfti hægri löppinni upp í vínkil og við kysstumst. Fólk horfði á okkur og velti fyrir sér í hverju fötlun mín væri fólgin, fyrst hann mætti koma alla leið upp að hliði til að taka á móti mér. En hann hafði bara flogið frá Kastrup og lent örlítið á undan mér. Fólkið gat náttúrulega ekki vitað það.

Síðan fórum við í loftið í Reykjavík í bongóblíðu, ég orðin framlægri en liggjandi lerki eftir góða lægð og var staðráðin í að láta ekkert trufla mig við að sofna. En nei, þá byrjaði Fúsi að raula gamalt Eurovisionlag: „Ég á líf, ég á líf. Yfir erfiðleika svíf – í vél frá Air Iceland connect…“ Ég sofna ekki við Eurovisionlög.

Þegar við vorum að nálgast Fellabæ city, tilkynnti flugstjórinn um seinkun á lendingu vegna éljagangs. Og við byrjuðum að sveima yfir Héraðinu. Ég ákvað að reyna að sofa á meðan, ekki vegna þess að ég væri eitthvað þreytt – búin að vaka í um 28 tíma, enda þoli ég svona vökur mjög vel, heldur vegna þess að slíkar vökur valda hrukkum. Nei, þá vildi Fúsi taka mynd. Það var dimmt í vélinni og til að taka mynd, þurfti að kveikja bæði lesljósin og setja okkur í vissar stellingar. Í alvöru Fúsi? Ég sem ætlaði að sofa… Já, hann suðaði og suðaði þar til ég gaf mig. Myndin var tekin. Hann fékk bara að taka eina.

Ég fór að heiman í Sönderborg í éljagangi með tilheyrandi seinkun og kom heim í Héraðið í éljagang með tilheyrandi seinkun. Spes.

Mér var ískalt þegar ég fór að sofa og krafðist þess af Fúsa að við svæfum í skeið. Alla nóttina.

Í nótt ákváðum við að sofa ekki saman. Sem var ákveðið svekkelsi. Ég hafði jú ekki séð hann síðan í lok febrúar. Á leiðinni út í Eiða í glaðasólskini án Fúsa datt mér því í hug þessi bútur úr laginu Skýjaborgin.

Foldin er fögur og sólin skín. 

Ég vona að þú sért ánægð núna ástin mín. 

Ég veit að ég kem til með að sakna þín. 

Síðan horfði ég á Gettu betur og klippti hundinn hennar mömmu. Ef Jón í Gilsárteigi hefði ekki verið með bókina Afdalabarn í láni, hefði ég lesið hana í stað þess að horfa á Gettu betur. Þegar ég fór að sofa, var mér aftur kalt og sendi Fúsa mynd og skilaboð.

Hér ligg ég alen. 

Ísköld og einmana. 

Fætur mínir kaldir. 

Fingur mínir frosnir. 

Hjarta mitt brostið. 

Fljótið að okkur skilur. 

Því úti er bylur. 

Hann svaraði: „Jú jú.“

Ég varð örg og taldi hann heppinn að vera ekki nálægt mér þarna… Ég hefði grýtt honum útum gluggann. Á jarðhæð.

En svo kom svar.

Þótt Fljótið sé breitt og kalt, 

og vindur hvass sem stálið kalt. 

Þá slær hjartað mitt í takt við þitt. 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *