Blóðmör í Kristiansand

Ég lifi á blóðmör. Eingöngu vegna þess að í nágrenni sjúkrahússins í Kristiansand er engin búð. Ég hafði, af rælni, keypt blóðmör á Íslandi um daginn, ekki vegna þess að mér þyki hún sjúklega góð, heldur af því að mér datt ekkert annað í hug til að taka með heim til að gefa hundinum. Sem betur fer keypti ég blóðmör en ekki lakkrís. Ég hefði lifað skammt á honum. Ég vissi nefnilega ekki að það væri engin búð í nágrenni sjúkrahússins.

En það eru heyrúllur þarna. Sem að skýrir kannski hvers vegna engin búð er. Sjúkrahúsið er líklega staðsett uppi í sveit. 

Í kvöld ákvað ég þó að hafa aðeins fyrir matnum og fékk mér göngutúr upp á sjúkrahús til sjá hvað væri til í sjúkrahússjoppunni. Það eina sem mér leyst á var smoothies. Kvöldmaturinn samanstóð því af blóðmör og smoothies. Ég lagði mikið á mig fyrir þennan smoothies því það eru 1,3km frá íbúðinni minni og upp á sjúkrahús.

Þetta er brot af Sörland sjúkrahúsinu. 

Það er kalt hérna í Kristiansand. Þegar ég kom á fimmtudaginn var dagur að kveldi kominn og ferðalagið hafði staðið yfir í 12 tíma. Ég sótti lykilinn að íbúðinni á sjúkrahúsið og konan í afgreiðslunni útskýrði fyrir mér hvar íbúðin væri. Mér féllust hendur þegar hún sagði að það væru 1,3km að henni. Ég hafði tekið eftir brekkunum á leiðinni í leigubílnum og fann að vindkælingin var um mínus 15 stig. Taskan var 24kg. Bölvuð blóðmörin. Því stundi ég á norsku: „Ertu ekki að djóka.“ Konan var snögg að grípa í taumana og sagði: „Á ég ekki bara að hringja á drossíu* fyrir þig?“ Og það gerði hún. Ég borgaði með glöðu geði fyrir að láta skutla mér þessa 1,3km.

Þetta var á fimmtudaginn. Það er enn sama vindkælingin. Mínus 15 stig. Ég fer eins og asni í gallabuxum í vinnuna en í raun dugir ekkert annað en loðfóðraður Kraftgalli. Enda hleyp ég og hugsa alla leiðina: „Ég dey, ég dey.“

Þarna sést augljóslega hversu kalt er. 

Ég hef aldrei áður komið til Kristiansand og get varla sagts hafið komið hingað þó ég sé hérna, þar sem ég held mig við sjúkrahúsið í þessari ferð. Þetta er örugglega flottur bær en hér búa 61.536 manns. Starfsfólkið á Gjörinu er frábært. Nema ein, hún er frekar pirrandi. Hún er upprunalega frá Afríku og limalöng eftir því. Þess vegna er hún pirrandi. Ef það er eitthvað sem ég hefði viljað vera í lífinu, þá er það að vera limalöng.

Sjúklingurinn minn sefur, já ég er á næturvakt og þegar ég er búin með þessa færslu, ætla ég að fara að lesa. Ég kláraði Litla bakaríið við Strandgötu eftir Jenny Colgan í fyrradag. Þá bók mæli ég ekki með að nokkur maður lesi. Þvílíkt bull og þvílík væmni. Mér varð margsinnis flökurt. Kannski hafði upplesturinn (hljóðbók) þessi áhrif á mig því ég hef heyrt bókina lofaða í hástert af íslenskum lesendum.  Síðan kláraði ég Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi í gærkvöldi og þá bók ættu allir að lesa. Það er eitthvað við söguna. Og íslenskan og orðaforðinn er þannig að stundum flettir maður til baka bara til að lesa aftur. Í kvöld byrjaði ég á Millilending eftir Jónas Reyni Gunnarsson. Hann er Fellamaður eins og Fúsi. Hún byrjar vel og því get ég eiginlega ekki beðið með að klára þessa færslu og sækja bókina ofan í veskið mitt. Fyrst ég er að minnast á veskið mitt þá væri gaman að segja frá því að upp úr því er góð lykt samkvæmt 6 ára frænda mínum. Hann valdi að sitja með það í fanginu þegar ég fór með hann í verslunarferð í bókabúð í Keflavík. Ég hef verið að nusa upp úr því annað slagið síðan en finn enga lykt. Og ég sem hélt að ég væri lyktarnæm. Ég finn allar lyktir og fæ lyktir á heilann, sérstaklega lyktir sem ekki er gaman að fá á heilann, eins og t.d. e-kólí í pissi og gula stafýlókokka. Stafýlókokkarnir eru verstir af öllu vondu. Ég þoli þá ekki. Þegar verst lætur og ég losna ekki við lyktina sem sest hefur á heilann í mér, sprauta ég Chanel mademoiselle upp í nasirnar á mér eins og nefspreyi. Pínu óþægilegt fyrst en gulu stafýlókokkarnir hverfa sem betur fer. Mig grunar að litli frændi minn hafi fundið einhverskonar daufa blöndu af leður/tyggjó/konulykt sem honum fannst betri en sinnepslyktin sem fyllti bíl föður hans. Faðirinn vildi samt ekki meina að það hefði brotnað sinnepsglas í bílnum. Annað getur samt ekki verið.

Ég fer heim á sunnudaginn og þá hætti ég að borða blóðmör. En veðrið er ekkert skárra þar. Ísköld kæling en ég get sætt mig við hana ef ég fæ eitthvað gott að borða við heimkomu, eitthvað sem inniheldur ekki rúgmjög, glerharða fituköggla og blóð. Ég er innilega búin að fá nóg af blóði í bili.

*Drossía er leigubíll.

Þessar tvær myndir voru teknar fyrir utan íbúðina mína.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *