…fyrir þér ber ég fána.

Fúsi fór í vinnuna í morgun kl. 8, Jacob fór í skólann kl. 10, Svala er á kvöldvakt og ég er í fríi. Svala og Jacob skutust til að versla fyrir mig því von er á vinkonu í heimsókn. Bara ósköp venjulegur dagur. Ég bara að snurfusa húsið að innan og gera gestaherbergið klárt.

Við hliðina á lóðinni okkar er stórt bílastæði sem tilheyrir læknahúsinu sem er ská á móti. Íbúðirnar í nágrenninu nýta sér líka þessi bílastæði. Stundum er einhver að dytta að bílnum sínum og setur tónlistina í botn. Pínu pirrandi til lengdar en ég hef látið mig hafa það. Ég skil það nefnilega því mér hefur alltaf fundist gaman að þrífa bíl að innan og hlusta á góða tónlist. Það tilheyrir. Stelpurnar gera þetta líka og einu sinni kom nágranninn, sá þýski, alveg galinn yfir en hann náði þeim ekki. Þær voru nefnilega akkúrat búnar, settust inn í bílinn og keyrðu hlæjandi í burtu. Hann var hoppandi. Þið þekkið hann mörg í gegnum mig. Þið vitið hversu mikið hann getur hoppað ef honum mislíkar eitthvað.

Í dag er búinn að vera bíll á stóra bílastæðinu með niðurskrúfaðar rúðurnar og danska tónlist í botni. Ég var nokkuð viss um að þetta væri iðnaðarmaður sem væri eitthvað að græja í nágrenninu og vildi hlusta á tónlist. Af því að ég sá glitta í sendiferðarbíl. Ég þarf mikið súrefni svona dagsdaglega, meira en margir, því ég stend oft í erjum við fólk útaf opnum og lokuðum gluggum. Því er stofuglugginn iðulega opinn. Og í dag berst tónlistin inn og truflar mína hlustun á Rás 2. Ég var orðin frekar pirruð og farin að velta fyrir mér að fara út og krefjast lækkunar. Ég meina, það eru oft góð viðtöl á Rás 2 sem ég hef gott af að hlusta á. Svo þarf ég að hlusta á fréttir í dag því ég veit eiginlega ekkert hvað er að gerast í heiminum. Hef ekki fylgst með að ráði síðan 19. apríl.

Síðan fór ég út með ruslið, það var í fyrsta skipti sem ég fór út í dag. Klukkan var yfir hádegi. Tónlistin var enn hærri og ég hugsaði með mér: „Það eru engir smá hátalarar sem gaurinn er með í bílnum!“

Þangað til ég hlustaði betur og mundi allt í einu eftir 1. maí. Baráttudegi verkalýðsins. Í tilefni hans eru ALLTAF tónleikar í almenningsgarðinum hinum meginn við götuna okkar. Árviss viðburður í öll þessi 10 ár sem við höfum búið á Möllegade.

Ég snarhætti við að fara og lækka í græjunum því þetta eru mikilvægir tónleikar í tilefni mikilvægs dags.

Árið 1923 var fyrsta kröfugangan á Íslandi um bætt kjör verkamanna. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar en þó ekki allt. Enn þarf að berjast fyrir bættum kjörum.

Árið 1937 birtist Maístjarnan eftir Halldór Laxness í æskulýðsblaði. Mér finnst Maístjarnan ofboðslega fallegt ljóð og lag.

En í kvöld líkur vetri, sérhvers vinnandi manns og á morgun skín Maísól, það er Maísólin hans. Það er Maísólin okkar, okkar einingabands, fyrir þér ber ég fána, þessa framtíðarlands. Svo fallegt.

Árið 1970 tóku Rauðsokkuhreyfingin þátt í 1. maí kröfugöngu og er upphaf hennar miðað við þennan atburð. Við eigum Rauðsokkunum ansi mikið að þakka. Takk.

Árið 1979 fékk Grænland heimastjórn. Einhver tímann langar mig að vinna á Grænlandi en hef ekki enn fundið tíma. Ef ég ætti eina ósk, myndi ég óska mér að árið væri 15 mánuðir.

Árið 2011 var Osama bin Laden felldur. Um það er ekki mikið að segja.

Rétt áðan var lagið um storkinn, síðan Johnny B. Goode, nú er lagið um hvalinn Valborgu. Ég er búin að slökkva á Rás 2 og sætta mig við tónleikana inn um stofugluggann í boði verkalýðsins. Ég væri samt mest til í að heyra Maístjörnuna og held bara að ég syngi hana sjálf.

Áfram verkamenn, einn af mörgum máttarstólpum hvers samfélags.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *