Þýskt kartöflusalat í tilefni dagsins.

Dagurinn í dag, 5. maí er merkilegur í sögu daga Dana en þennan dag árið 1945 gáfust þýskar hersveitir í Hollandi, Norðvestur Þýskalandi og í Danmörku, upp. Fréttirnir bárust þó um kvöldið 4. maí: „I dette øjeblik meddeles det, at Montgomery har oplyst, at de tyske tropper i Holland, Nordvesttyskland og i Danmark har overgivet sig. Her er London. Vi gentager: Montgomery har i dette øjeblik meddelt, at de tyske tropper i Holland, Nordvesttyskland og Danmark har overgivet sig.“ 

Danmörk átti að verða frjálst kl. 8 um morguninn eftir. Þess vegna halda Danir bæði upp á 4. og 5. maí sem frelsisdaga eða befrielsesdage eins og það heitir á dönsku. Að kvöldi til 4. maí, eru ljósin slökkt í stofum landsmanna, kveikt er á kerti og það sett út í glugga. Þetta er falleg hefð finnst mér og á rætur sínar að rekja til þess að þegar fréttirnar bárust sama kvöld árið 1945, flýtti fólkið sér að rífa niður hin hötuðu myrkragluggatjöld sem notast hafði verið við í 5 ár til að myrkva bæina á kvöldin og á nóttunni. Nú mátti aftur verða ljós og það varð ljós. Fólkið kveikti ljósin og setti jafnvel kerti út í glugga til að hafa meira ljós. Þetta var mjög áhrifamikið og þannig skapaðist þessi fallega hefð.

Ég var sjálf að vinna í gærkvöldi og steingleymdi að kveikja á kerti þegar ég kom heim. En sá á Instragram að hefðinni var við haldið.

Í dag skín sólin svo sterkt að við urðum að fara inn upp úr hádegi og dunda þar til að brenna ekki. Núna sit ég í skugganum í hengisófanum mínu og blogga – eins og svo oft áður. Hengisófann keyptum við fyrir mörgum árum af nágrönnum okkar,  því þau töldu hann „búinn“ og mig minnir að við höfum borgað 500 kall fyrir hann. Ég gæti trúað að það séu orðin 7 ár síðan. Við þurftum að kaupa nýjan himinn á grindina í vor, það var víst ekki hægt að bjarga meiru með gaffateipi. Annars er allt í gúddý.

En ég ætlaði nú ekki að blogga um húsgagn. Heldur um kartöflusalat. Það hefur ekki hvarflað að okkur að fara út fyrir lóðina í dag, nánast þótt líf lægi við. Og því ekki annað í stöðunni em að finna eitthvað í skápunum sem hægt væri að búa til kvöldmat úr. Skyndilega datt mér í hug kartöflusalat sem ég lærði að gera í Vedersø haustið 1994. En þá fór ég út til Danmerkur til að komast út fyrir landsteinana og vinna í hestaleigu. Þarna höfðum við Fúsi verið saman í rúmlega 6 mánuði og ég aðeins komið til Færeyja allt mitt líf. Jú og til Vestmannaeyja og Akranes. Ferðalög voru ekki efst á dagskránni í hversdagsleikanum í kringum mig.

Ég fór sem sagt til Per sem bjó með Gaby. Per rúllaði sínar sígarettur sjálfur, var lágvaxinn og tágrannur, við vorum svipuð á þyngd en þarna var ég rétt rúmlega 50 kg. Hann útskýrði grannleikann með því að hann hafði haft hvítblæði. Hann kenndi mér að drekka volgan bjór og sagði að aðeins svoleiðis fyndi maður bragðið af bjórnum. Hann reyndi líka að kenna mér að dýfa hófunum á hestunum ofan í fötu fulla af vatni eftir hvern reiðtúr og þvo mélin vel og vandlega. Ekki það að ég hafi tileinkað mér þetta eftir heimkomu en víst er jarðvegurinn öðruvísi í Danmörku og á Íslandi og kannski nauðsyn sumstaðar. Hann tók mig einu sinni með í barnaafmæli að morgni til, mig minnir að það hafi verið mæting kl. 9:00 og allir drukku en øl með brauðinu.

Eftir að ég kom heim, vísaði ég oft til Dana; að þeir væru svona og svona, og voru þá Per og hans vinir einu Danirnir sem ég þekkti eitthvað af ráði.

Seinna meir áttaði ég mig á því að Per er bara eins og einn ákveðinn hópur af Dönum. Danir eru jafn misjafnir og þeir eru margir og langt frá allir drekka bjór kl. 9:00 í barnaafmælum.

En Per átti konuna Gabríelu sem var kölluð Gaby. Hún var þýsk, eða er, líklega er hún lifandi ennþá. Hún átti tík sem var orðin blind, heyrnalaus, með gigt, sykursýki og nánast tannlaus. Ég spurði fljótlega eftir að ég kom hvort það ætti ekki að lóga hundinum. Eftir það var vonlaust að byggja upp vináttu við Gaby. En Gaby kenndi mér að gera þýskt kartöflusalat sem ég hef ekki búið til síðan á tuttugasta áratugnum. Í kvöld verður það í matinn.

Þýskt kartöflusalat. 

Innihald:

  • 3 msk olía
  • 1 msk edik (Þetta eru hlutföllin)
  • Saltflögur og kvarnaður pipar
  • Kartöflur
  • Laukur 
  • Gúrka
  • Harðsoðin egg

Þetta er grunnuppskriftin.

Síðan bætti ég við í kvöld:

  • Grænum aspas
  • Kirsuberjatómötum
  • Klettasalati

…vegna þess að ég átti það.

Ég er alls ekki mikil kartöflusalatsmanneskja og borða majóneskartöflusalat svona um það bil einu sinni á ári þegar ég er einhversstaðar annarsstaðar að borða en heima hjá mér og ekkert annað í boði. Þetta þýska salat fannst mér gott í denn og líka í kvöld. Það er ferskt.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *