12. maí 2018 – Fórum til Flensburgar

Ég vaknaði eins og venjulega klukkan sjö en sá að það var skýjað. Ég hleypti Vaski út á klóið en skreið aftur upp í og ákvað að liggja í rúminu þangað til ský drægi frá sólu. Það gerðist um tíuleytið.

Fúsi benti mér pent á klósettsetuna sem var böðuð í morgunsólinni. Hún var fölgul. Eftir mig. Djöfulsins andskotans litaða klórhexidín eða joð eins og það hét í gamla daga. Ég sagði honum að fara að kaupa nýja klósettsetu en hann sagðist ná þessu af með scrubstone. Hann hefur ekki enn náð þessu af enda koma tímar koma ráð.

Ég hengslaðist svolítið um. Las Bróðir minn Ljónshjarta og fannst hún hvorki spennandi né sorgleg. En samt falleg og svolítið falleg hugsun að ef ég lifi þetta ekki af, þ.e.a.s. dey um aldur fram, þá fer ég bara til Nangijala. Katla og Þengill eru dauð og því bara draumur í dós að vera þar innan um öll blómin í Kirsuberjadalnum eða í Rósadalnum. Það biði mín hestur. Vonandi Hómer frá Steðja. Og Júlla með eitt folald. Og Lista-Skjóni. Geysir. Geitdals-Rauður… Og eitthvað af hryssunum hans pabba. Þarna væru líka hundar, kettir og kindur. Og romm.

Afþví að það var ekkert til í ísskápnum og engin nennti að versla, ákváðum við að renna til Flensburgar og fá okkur að borða. Gera okkur glaðan dag. Við lögðum bílnum stutt frá Norðurtorginu og því stóð valið á milli veitingastaðanna þar. Við vorum örsnögg að velja. La Tasca, sá frábæri tapasstaður varð fyrir valinu og pöntuðum við okkur níu rétti. Og bættum við. Og bættum við. Tókum svo eftirréttinn á Olli´s Weinlounge. Maður fer varla til Flensburgar fyrir minna en tvo veitingarstaði.

Við sátum úti, það var svolítið svalt svo við vöfðum um okkur teppum. Við hliðina á okkur sátu hjón og hundurinn Stína sem sá ekki sólina fyrir Svölu og sömuleiðis. Á ská fyrir aftan okkur sátu fjórir ungir menn. Skyndilega skeit fugl á einn þeirra. Beint í höfuðið á honum og niður eftir bakinu. Hellings hægðir í öllum regnbogans litum. Einmitt það sem ég hafði óttast deginum áður eða var það deginum þaráður? Maðurinn fór inn og var þar heillengi og kom tandurhreinn út aftur. Þökk sé stuttu hári og svörtum jakka.

En ég fann samt svo til með honum.

Rétt hjá okkur settist Ástrali á götuna, allavega maður sem kunni að spila á didjerdoo. Ég gef oftast götulistamönnum smá aur, því mér finnst þeir setja svip á göturnar og skemmta mér, en þarna nennti ég ómögulega að standa upp og svo fannst mér engin laglína í þessu hjá honum. Reyndar finnst mér aldrei laglína í didjeridoo og skil það blásturshljóðfæri bara alls ekki.

Rétt hjá honum voru ungar konur að gæsa eina. Þær voru í bleiku tjulli og gæsin var með rauða skikkju. Við Fúsi þrættum lengi um hvort hún væri Rauðhetta eða Súpermann. Allt í kringum þennan hóp var frekar vandræðalegt. Þær stóðu þarna og snérust í nokkra hringi, engin veitti þeim athygli, síðan skrifuðu þær með krít á gangstéttina að Rauðhetta/Súpermann væri að fara að giftast; Sie wird heiraten. Enn engin athygli. Þá fóru þær.

Þegar við komum heim, var þriðji þáttur í Eurovision löngu byrjaður. Ég hélt með Frakklandi og Eistlandi. Líka Ítalíu, Austurríki, Írlandi, Bretlandi, Spáni, Hollandi og Finnlandi minnir mig. Annars er mér nokkuð sama. Fannst boðskapurinn fínn í sigurlaginu og ekki við sjálfa söngkonuna að sakast hvernig Ísrael hagar sér, enda er hún væntanlega bara verkfæri í stóra samhenginu. Pínulítill nagli undir stórum hamri. Eða hvað veit ég.

Ég hefði kosið Frakkland ef að Eurovision  hefði skipt mig máli.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *