13. maí 2018 – Svolítið á móti gæsun og steggjun… Bara af því.

Viðmælendur Bergssonar og Blöndals á sunnudagsmorgnum á Rás 2 eru oftast frábærir. Í dag var talað við Hauk Gunnarsson flugkennara. Ég gat ekki annað en farið að hlæja þegar hann gagnrýndi gæsun og steggjun. Svona í ljósi gæsuninnar í Flensburg í gærkvöldi. Ég fattaði að ég er innilega sammála honum. Finnst svona uppákomur meira vandræðalegalegar en sniðugar. Eins og þegar t.d. steggurinn stendur upp á stól niður í bæ í einmitt bleiku tjullpilsi og selur kossa fyrir fimm kall. Eða þegar grínið snýst um haugafyllerí eða eitthvað hættulegt. Eða gæsin er látin ganga í gegnum miðbæinn íklædd eins og kjúklingur. Afhverju? Ef ég einhverntímann fæ að vera með puttana í gæsun, ætla ég gera þetta allt öðruvísi.

Ég bakaði pönnukökur úr afgangs vöffludeigi í morgun, bætti bara út í það haframjöli, bönunum og kanil.

Síðan fórum við í göngutúr með Vask í skóginum. Skógurinn er orðinn svo þéttur og grænn og stundum þegar sólin skín ofan í hann eða inn í hann, verður birtan ævintýralega falleg.

Ég kíkti inn í e-boksið (þar sem allt kemur frá öllum) og las bréfið frá OUH betur, svona til að átta mig á hvar ég átti að mæta í segulómskannann, hvar ég ætti að leggja bílnum o.s.frv. Ég komst að því að ég gat lagt ókeypis í bílastæðahúsinu af því að ég er sjúklingur. Þurfti bara að skrá bílinn á netinu. Svölu varð að orði að það væri aldeilis þægilegt að vera sjúklingur í Danmörku. Líklega rétt hjá henni. Þó að mér finnist biðin eftir svari vera óendanlega löng, þá var samt komið nákvæmt plan fyrir mig daginn eftir aðgerðina. Ég hef reyndar enga viðmiðun, veit ekki hvernig svona ferli fara fram í Noregi, Íslandi eða á Spáni.

Eftir kvöldmatinn ætlum við að byrja að horfa saman á Peaky blinders. Það er gott að hafa eina „saman“ seríu í gangi og við erum alltof léleg við það. Nema fréttirnar á RÚV flokkist undir seríu?

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *