14. maí 2018 – Vampíra í segulómun.

Gærkvöldið fór öðruvísi en búist var við. Eftir þrjá tíma með geysilega og skyndilega magaverki – á mínum mælikvarða, hringdi ég á læknavaktina sem vildi að ég kæmi undireins. Ég var komin til Aabenraa kl. 21:40 og það var búið að leggja mig inn á FAM (bráðamóttökuna) tæplega klukkutíma seinna því maginn í mér virtist steindauður. Engin hljóð, ekkert. Ég spurði hvort það væri nú ekki heldur djúpt í árina tekið…? Sko að vera lögð inn. Róa sig fólk, sagði ég nú bara. Allavega, þessi innlögn varð ekki nema um tveir tímar og orsökin mögulega en fis på tvers eins og maður segir á sænsku.

Ofan í þetta, sprakk æð í auganu í mér í gærkvöldi og það blæddi vel inn á. Ég var eins og vampíra. Fúsi var sáttur, hann hefur alltaf haft gaman af vampírubíómyndum og kallaði mig litlu vampíruna sína. Læknirinn spurði hvað komið hefði fyrir augað, ég svaraði að ekkert hefði komið fyrir, þetta gerðist bara. Tuðaði svo vel og lengi yfir því að ég hefði lagst inn fullkomnlega heilbrigð (mitt mat) þann 8. maí og núna 13. maí, væri líkaminn minn í rúst. Hann margbaðst afsökunar og sagði: „svona er þetta stundum, um leið og við byrjum að pota í fólk, þá gerist eitthvað.“

Sem ég lá þarna og beið eftir niðurstöðum úr blóðprufunum og að læknirinn sem var sænskur, kæmi aftur, fór ég að hugsa um hverslags aragrúi af útlendingum væri alltaf í kringum mig. Og þetta er í fyrsta skipti sem ég velti þessu fyrir mér, í öll þessi ár sem ég hef staðið inn á stofum sjúkrahúsanna. Bara við það að vinna á sjúkrahúsi eða að leggjast inn á sjúkrahús, eru miklar líkur á að vinna með eða vera meðhöndlaður af: Þjóðverja, Norðmanni, Pólverja, Tékka, Svía, Ungverja, Austurríkismanni, Króata, Bosníumanneskju, Spánverja, Indverja, Írana, Írlendingi, Íslendingi, Kúrda, Rússa, Sádí-araba, Færeying, Frakka, Dana, Súdana, Líbana eða Letta. Eða einhverjum öðrum útlendingi. Og öll tölum við sama tungumálið og engin spáir í þjóðerni, trú né hjúskaparstöðu. Við erum í sama bás, sama hvað.

Á leiðinni heim spurði ég Fúsa hvort ég hefði kannski verið einum of dramatísk. Ég meina, ég endaði í innlögn! Honum fannst ekki. Hann stendur líka alltaf við bakið á mér, sama hvað. Án alls vafa, var ég með verki og ofan í þá; líklega skíthrædd við ilius eða eitthvað annað vesen ofan í allt annað. Ég bara meikaði það ekki, svo að ég sletti svolítið. Nei, óneitanlega veltir maður þessu fyrir sér þar sem læknavaktin er ekki notuð nema í ýtrustu neyð og vill maður ekki vera gellan sem tekur pláss á biðstofunni að óþörfu. Hér í Danmörku er herferð í gangi sem snýst um að gera fólk meðvitað um hvenær það hringir í læknavaktina og hvort það sé nauðsynlegt. Þeir nota allskonar sniðug slagorð eins og t.d. Ætti Olla með ofsakvíðakastið að þurfa bíða vegna eyrnamergsins hans Eyvindar? Við erum vinsamlegast beðin um að nota læknavaktina skynsamlega . Plástrum með þessum slagorðum er dreift til fólks niður í miðbæ og í verslunarmiðstöðvum. Þessi herferð er tilkomin vegna þess að á hverjum einasta degi hringir fjöldi fólks í læknavaktina með „vandamál“ sem geta beðið þangað til heimilislæknirinn opnar daginn eftir. Heimilislæknirinn á alltaf bráðatíma ef þörf krefur. Allar þessar óþarfa hringirnar tefja þjónustu við þá sem virkilega á þurfa að halda.

Í dag fórum við til OUH (sjá mynd) í segulómskannann (MR). Við biðum í fjórar mínútur, ég náði ekki að lesa utan á forsíðuna á tískublaði sem lá þarna. Síðan var ég kölluð inn á íslensku. Ekkert smá indælt.

Ég hef aldrei sjálf verið segulómskönnuð áður en hef farið með sjúkling og Ástarsögulækninum í þessháttar skanna. Eins og lesa má í þessari þriggja ára gömlu færslu hér.  Síðan hef ég ekki séð Ástarsögulækninn. Eins og hann kom nú oft fyrir í blogginu mínu á tímabili. Já og á meðan ég man, hann er hálfur Portúgali. Hann fékk viðurnefnið Ástarsögulæknirinn árið 2011 þegar ég var á Vöknum því mér fannst hann vera eins og gaurinn á forsíðum Rauðu seríanna. Þessara sem fjalla um dökkhærða myndarlega lækninn með tvær ljóshærðar í takinu.

Allavega, íslenski geislafræðingurinn fræddi mig og undirbjó mig eins og vel og hún gat. Sagði mér að liggja kjurr og anda rólega. Spurði svo: „ertu með innilokunarkennd?“ Og mig minnir að ég hafi svarað: „Ha nei, ég er alveg cool sko.“

„Viltu tónlist í eyrun?“

Ég svaraði því játandi og að ég vildi Leonard Cohen. Hann var ekki til en ég þáði samt tónlistina. Síðan fékk ég eyrnatappa og traktorsheyrnahlífar og þá var allt tilbúið. Þau byrjuðu að skanna og brautin sem ég lá á, rann inn í skannann. Ég var með opin augun en Jesús Pétur, ég fékk sjokk. Mér fannst ég vera að fara á ógnarhraða inn í örmjótt rör. Ég flýtti mér að loka augunum og þorði ekki fyrir mitt litla líf að opna þau aftur. Brautin fór fram og aftur en aðallega fram og því fór ég ofboðslega langt inn í rörið. Fleiri tugi metra. Ég var ekkert hrædd þannig séð. Vissi að ég kæmi til baka fyrir rest. Treysti á íslenska geislafræðinginn sem ég skírði samstundis Evu (Sönderborgarar vita hversvegna). Hún heitir Helga, Dóra frænka sagði mér það, en heldur samt áfram að heita Eva hjá mér. Ekki viljandi, ég ruglast bara. Ég hélt áfram að hafa augun klemd vel aftur og það var svarta myrkur. Tónlistin var blanda af Bylgjupoppi og Sinatra. Þegar lögin voru of leiðinleg söng ég Cohen, ekki upphátt,heldur inn í mér. 

Ring the bells that still can ring
Forget your perfect offering
There is a crack in everything
That’s how the light gets in.
Eftir tæpan hálftíma í skannanum var mér rennt út og „vakin“. Þau hafa örugglega haldið að ég væri steinsofandi, svo mikið var ég að einbeita mér að önduninni og að opna ekki augun.
Kvöldinu eyddum við svo hjá Dóru frænku og Ómari og skoðuðum Eiðabókina hans Ómars. Það var mjög skemmtilegt og fræðandi, trúið mér.
Á leiðinni til Odense, hlustuðum við meðal annars á Carla Bruni, þá frábæru söngkonu sem er gift Sarkozy fyrrum forseta Frakklands.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *