Drykkur án uppskriftar

Sumarið 2012 átti ég afmæli sem og önnur sumur. Þetta sumar gaf ég sjálfri mér blandara í afmælisgjöf. Ég fann heimild fyrir því á Instagram. Ég hafði tekið vinnutörn í Bodø og örugglega löngu ákveðið að verðlauna sjálfa mig fyrir það með þessum blandara.

 

Blandarann hef ég notað alveg heilan helling en þó í skorpum. Nú er skorpa.

Ég kíki stundum á netið og finn uppskriftir af drykkjum en nota þær sjaldnast. Aðallega vegna þess að ég á aldrei allt sem er í uppskriftunum. Eiginlega nota ég bara allt gott úr ísskápnum og af bekknum. Jafnvel úr skápunum líka. Um daginn setti ég gamalt brauð útí sem var orðið glerhart. Það geri ég ekki aftur. Kaffikorg mæli ég heldur ekki með né hakkafgöngum. Og alls ekki kjúklingi. Um daginn gerði ég einn grænan eftir að hafa googlað á netinu. Notaði ekki neitt af því sem ég fann því ekkert passaði við það sem ég átti. Ég átti ferskt spínat, gúrku, engifer, epli, basililkum, ólífuolíu, sódavatn með sítrónu og svartan pipar og svo man ég ekki meir en hann var mjög góður.

Í dag gerði ég þennan.

Í honum er slatti af hreinu skyri, poki af frosnum bláberjum, smá gúrka, smá spínat, smá vatn, banani, gamall eplabiti, stórt engiferstykki hálf lúka af haframjöli og svo man ég ekki meir. En aftur – mjög góður. Ég gleymdi að geyma gúrku eða spínat til að skreyta með og notaðist því við blóm úr garðinum. Stilkurinn er loðinn og því veit ég ekki hvort það sé eitrað og megi alls ekki komast í snertingu við matvæli. Þannig að það má segja að ég lifi á brúninni. Ég valdi þetta blóm því það óx í hæð sem þar sem öruggt er að Vaskur hefur ekki pissað.

Síðan takið þið eflaust eftir að ég nota stálrör í staðinn fyrir plaströr eða papparör. Papparörin verða oft svo uppleyst og leiðinleg. Plaströr eru bönnuð. Stálrörin endast vonandi um aldur og ævi.

Eiginlega má segja að ástæða gerð þessa drykkjar, hafi verið meðvituð nýting úr ísskápnum / og sárt hungur. Mjög sárt.

Ég gerði stóran skammt handa stórri konu eða 168cm hárri konu. Mér. En þar sem ég þarf ekki mikið því ég geri svo lítið, geymdi ég meira en helminginn í skyrdalli þangað til seinna. Þessir 1kg skyrdallar eru tær snilld til að geyma allskonar matvæli í. Stundum set ég pasta eða spaghettirétti í þá eða súpur eða salöt eða bara hvað sem mér dettur í hug og hef oft farið með í vinnuna. Sem sagt fínustu nestisbox. Og já, þeir þola uppþvottavél.

Til njóta drykkjarins sem allra mest, er best að setjast út í skugga og lesa Birting.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *