16. maí 2018 – Jáeindaskanninn og tölvusneiðmyndatakan.

Við lögðum af stað til OUH korter í sjö í morgun. Ég átti tíma klukkan níu og enn einu sinni var ég alveg hissa á hvað allt gengur smurt í þessu heilbrigðiskerfi. Allt er svo vel merkt, engin bið og svo bara bamm; ligg ég á bekk og er að fá í mig geislavirkt efni. Þar lá ég í hálftíma, grafkjurr á meðan efnið dreifði sér um líkamann minn. Síðan var mér vísað inn í biðstofu þar sem fyrir sat fólk í væntanlega svipaðri aðstöðu og ég. Nema allir voru vel yfir 70tugt, nema ég. Ég var lang yngst. Mér var sagt að drekka tvö glös af vatni og pissa síðan eftir 20 mínútur. Ég gluggaði í tískublað með öðru auganu og með hinu fylgdist ég með hvernig hinir fylgdust með klukkunni. Reglulega stóð einhver upp til að pissa – eftir nákvæmlega 20 mínútur. Ég gerði það líka því mér er svo mikið í mun að fylgja öllum reglum til að fá sem nákvæmastu niðurstöðu.

Hjúkrunarfræðingurinn sem sprautaði geislavirka efninu í mig á afmæli sama dag og ég. Það var það eina sem við töluðum um þessa stuttu stund sem hún var hjá mér. Eða töluðum… það væri réttara að segja „dásömuðum,“ því báðar vorum við sammála um að fallegri afmælisdagur væri ekki til. Prófa þú lesandi góður að segja annar ágúst upphátt. Eða annan ágúst. Heyrðirðu hvursu fallega þessi dagsetning hljómar? Auk þess er alltaf gott veður á þessum degi, allavega fyrir sunnan 59. breiddargráðu.

Mér fannst mikið auðveldara að fara í skannan í dag en á mánudaginn en þetta var Jáeinda/tölvusneiðmyndaskanni. Þessi var aðeins stærri en segulómskanninn inni í og ég skoðaði hann vel áður en ég lagðist. Þannig að ég sá hversu breiður hann var. Og langur. Fyrst voru teknar tölvusneiðmyndir, síðan jáeindamyndir. Ég hafði augun opin og var laus við allar ofskynjanir og veruleikafyrringu.  Nema þegar skuggaefninu var dælt í mig, þá var ég 100 prósent viss um að ég hefði pissað í buxurnar. Þrátt fyrir að geislafræðingurinn hefði varað mig við þessari fölsku tilfinningu.

Fúsi keyrði síðan heim og ég horfði á gulu repjuakrana þjóta á móti okkur.

Annars var ég að spá í að naglalakka upp á nýtt í dag. Eða kannski ætti ég að gera það á morgun svo að það sé alveg splunkunýtt á föstudaginn. Allavega ætla ég að fara eins fín og ég get í þetta viðtal. Ekki samt í samkvæmisfatnaði, ekki misskilja mig, heldur eins fín og tilefninu hæfir. Sama hvað svarið og planið verður og ef ég skildi missa kúlið úr höndunum á mér, er algjör óþarfi að lýta út eins og niðursetningur.

Síðan hvarlaði að mér að  henda 2017 blómunum og setja 2018 blóm í staðinn en hætti við þegar ég sá að það býr litrík og falleg könguló í þeim. Finnst hart að gera hana heimilislausa með hégómanum einum saman. Nógur er hann fyrir, sko hégóminn.

Geislafræðingurinn á OUH sagði við mig áður en ég fór heima að ég ætti að drekka vel í dag til að losa mig sem fyrst við þessi efni.

Hún tók það sérstaklega fram að það þarf ekki að vera vatn og því sótti ég Prosecco flösku útí skúr og ætlaði að opna hana en þá var hún of heit. Það er svo heitt úti að skúrinn hitnar líka. Þarf eitthvað að fara endurskoða hvar ég geymi guðaveigarnar. Ég setti flöskuna í frystinn og ætla að hafa hana þar í hálftíma. Glætan að ég gleymi henni.

Lag dagsins er China in Your Hand með T´Pau, bara af því að ég heyrði það í útvarpinu um daginn og það minnti mig á barnaskólaárin mín og mér hefur alltaf fundist það gott. Enda komst það á Konur syngja playlistann minn á Spotify.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *