17. maí 2018 – Biðin á enda. Næstum því.

Aldís benti mér á í gærkvöldi að af því að ég hefði fengið geislavirkt efni í æð, ætti ég að láta mig dreyma að ég væri með ofurkrafta. Ég velti fyrir mér í smá stund hverslags ofurkraftur myndi henta mér best og komst að því að ég myndi helst vilja fljúga hratt og hátt. Og vera með alhliðaofurgáfur. Það var það sem draumur næturinnar átti að snúast um. En mig dreymdi ekkert. Nema kannski að ég væri að keyra dráttavél. Ég hefði kannski, ef ég hefði verið skynsöm, átt að óska mér læknandi ofurkrafts en síðan hvenær hef ég látið skynsemina ráða?

Ég fór á „heilsugæslustöðina“  í morgun og fékk sýklalyf því eitt sárið var komið í rugl. Þetta var ekki sami læknirinn og um daginn og þegar hún hafði sent lyfjaávísunina í apótekið, sat hún og renndi yfir skýrsluna mína, leit síðan á mig með hluttekningasvip og sagði: „sikke en historie du kommer med…“ Vantaði bara að hún bæði Guð um að vera með mér, þannig var svipurinn. Ég nennti ekki að ræða þetta og sagði bara mange tak og farvel. Fór svo niður í bæ, leysti út lyfin og keypti byrgðir af sáraumbúðum, líka til að eiga eftir næstu aðgerð, sem ég vonandi fer í.

Keypti líka þægilegan topp, náttbuxur með ágætlega slakri teygju, naglalökk, aðrar buxur með hentugri teygju og nokkuð svalar bara, sætt box undir plástrana og margt margt fleira sem óþarft er að nefna hér. Konan í náttfatabúðinni spurði hvort ég væri að kaupa mér nýtt til að sofa í. Uuu nei, ég er ekki að fara að sofa í þessu sko. Ég er ekki hundrað ára og kulvís, ekki ennþá. Ég er að fara að vera í þessum náttbuxum um miðjan dag heima hjá mér þegar svoleiðis liggur á mér. Ég komst nefnilega að því eftir aðgerðina um daginn að ég á ekki nógu góðar buxur til að vera í á skýjuðum dögum. Þegar sólin skín, er bara best að vera í kjól.

Alveg frá því að ég vaknaði í morgun hef ég verið með kunnuglega tilfinningu í maganum; næ ég á morgun eða fell ég? Sama tilfinning og þegar ég hef verið að fara í próf eða að bíða eftir niðurstöðum eftir ritgerðarskrif. Oft hef ég þurft að bíða í margar vikur. Fyrsta vikan var alltaf erfið, síðan „gleymdi“ ég þessu svolítið og daginn fyrir kom hnúturinn. Fall á fullorðinsárum jafnaðist alltaf á við dauða og djöful í mínum huga, enda lét ég það ekki gerast.

Ég er búin að vera fín alla vikuna og sáralítið þurft að bremsa hugsanirnar af. Allavega ekkert á við í síðustu viku, þar sem ég velti því oft og iðulega fyrir mér hvernig ég ætti að orða beiðni um söng í jarðarförinni minni. Er annars ekki bara best að koma sér beint að efninu? Bara: „Hæ, viltu syngja og spila í jarðaförinni minni?“ Ekkert að vera fara í kringum hlutina né tala undir rós. Það er verra held ég. Nú veltiði mörg hver ykkar því eflaust fyrir ykkur, hverjir myndu eiga að syngja í jarðaförinni minni og örugglega einhver sem giskar á Helga Björns. Svona fyrst Cohen er dáinn. En nei, ekki yrði það Helgi. Ég myndi velja það allra besta og fallegasta sem fyrir finnst á Íslandi. Og það er ekki Helgi. En nóg um það, svona sorgardramahugsanir hafa verið á undanhaldi í vikunni, sem betur fer.

Sýklalyfin eru pínu pirrandi því ég má ekki borða klukkutíma fyrir inntöku og ekki í tvo tíma á eftir. Hvaða rugl er það? Mjög óhentugt þar sem ég er síborðandi. Og óskipulögð. Og svöng. Ég er enn að drekka vel síðan í gær, drekk fullt af vatni og svolítið romm. Það bætir og kætir sagði einhver spekingur sem ég tek mikið mark á. Annars eru þessi sýklalyf óhentug akkúrat núna því líkaminn er örugglega í einhverju katabólsku ferli og má ekki við því að þurfa að fasta í þrjá tíma í einu.

Eiginlega er tilfinningin í maganum í mér verri heldur en fyrir próf. Eða hún er öðruvísi. Dýpri. Viðtalið er klukkan 10.30 á morgun. Mér finnst svolítið skrítið að vita til þess að í dag var fundað um mig og niðurstöður og plan liggja fyrir. Einhver á OUH veit núna hvort mér verði bornar góðar eða slæmar fréttir. En ég sjálf veit ekki neitt. Við fórum í skóginn í kvöld og ég fann að ég átti erfitt með að ímynda mér milliveg. Annað hvort verða niðurstöðurnar góðar og allt bara yfirstaðið innan fárra vikna eða ég lifi þetta ekki af. Tilfinningin um slæmt svar er svipuð og að horfa upp í stjörnubjartan himininn og reyna að ímynda sér hvað sé á bak við stjörnurnar. Ég fæ alltaf svakalegt óþol og get ekki hugsað um það.

Núna eru akkúrat 11 tímar í að ég verði kölluð inn, ef það er eins og áður á OUH, engin bið…

(Myndin er tekin af OUH. Mér finnst mjög flott þegar tekst að blanda gömlu og nýju saman.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *