Síðustu 10 dagar og næstu 12.

Lag dagsins var þetta vegna þess að þegar ég loksins hafði mig upp í eldhús klukkan 7:40 í morgun og kveikti á tölvunni, sá ég myndband af Jóhönnu Seljan syngja One moment in time í útgáfugleðinni sem Kristborg Bóel hélt í tilefni nýútkominnar bókar sinnar 261 dagur. Ég hlakka til að lesa þessa bók og hefði mikið viljað vera með í teitinu þar sem gleðin virtist ráða ríkjum með söng, leik og upplestri. Já og freyðivíni. Bloggfeisbúkkarsíðuna hennar Krissu finniði hér. Og ef ykkur líkar við síðuna hennar og bloggið, smellið þá kannski svo sem einu læki á síðuna. Okkur bloggurum þykir alltaf svo vænt um það nefnilega.

Þetta var auglýsing dagsins.

Ég var í um klukkutíma niðri í kjallara í morgun, ráfaði stefnulaust á milli svefnherbergisins og baðherbergisins, fór í föt, fór úr þeim, fór í önnur, fann skó við þau, skipti aftur um föt, fann aðra skó, skipti um skartgripi og ég veit ekki hvað og hvað. Það eina sem ég vissi, var að ég ætlaði ekki að líta út eins og niðursetningur í viðtalinu í dag á Háskólasjúkrahúsinu í Odense eða OUH eins og við segjum í daglegu tali. Né einhver gella dregin upp úr drullupolli. Fúsi kom tvisvar á stigapallinn og spurði hvað ég væri eiginlega að gera. Hann fékk sama svarið í bæði skiptin… þetta sem ég skrifaði hérna rétt fyrir ofan.

Ég valdi fínasta toppinn minn, að sjálfsögðu MAISVANHVIT, svartar, víðar pilsbuxur með slakri teygju í mittinu, svarta sandala, uppáhalds úrið mitt sem ég fékk í 40tugs afmælisgjöf, Anni Lu-armband sem að stelpurnar gáfu mér í afmælisgjöf eitt árið og Alrúnarhálsfestina. Hún hlaut að vera lukkugripur og með einhverja ofurkrafta. Allir skartgripirnir eru reyndar lukkugripir held ég. Ég naglalakkaði mig í gær, vandaði förðunina, setti á mig ilmvatn. Já, ég ætlaði að vera fín.

Stiklum á stóru og leyfum öllum að vera með. Það hentar mér ekki að vera að pukrast úti í horni. Þið hafið hvort eð er fengið að vera með mér í flestu í gegnum tíðina.

Þann 8. maí átti ég að fara í legnámsaðgerð í Aabenraa, einföld vélmennaaðgerð og ekkert mál. Nema hvað, þeir finna eitthvað „óvænt“ fyrir utan legið, senda sýni af því til OUH, fá svar og skilaboð um að gera ekki meira og loka mér aftur. Krabbameinsteymið á OUH vildi taka við mér. Um miðjan dag kom læknirinn inn til mín til að segja mér frá aðgerðinni og hvað hefði fundist og heimurinn hrundi eiginlega svolítið mikið. Hann sagðist þá þegar vera búin að senda mig til OUH í kerfinu.

Um kvöldið fór ég heim með legið mitt inn í mér og fimm göt á maganum. Daginn eftir var hringt í mig frá OUH og þá var strax komið plan. Mánudaginn 14. maí var segulómmyndataka (MR), miðvikudaginn 16. maí var jáeindaskanni og tölvusneiðmyndataka (PET/CT) og í dag 18. maí, var viðtal sem innihélt svör og og áframhaldandi plan. Allt saman á OUH.

Eftir að ég hafði strílað mig upp, sat ég við tölvuna, svaraði skilaboðum næturinnar og renndi yfir Facebook, þar sem ég sá Jóhönnu syngja svo fallega að ég eiginlega fékk smá tár. Heilinn í mér var líka eins og þyrluspaði og hjartað á harðaspretti. Það þurfti ekki mikið til. Síðan lögðum við af stað rétt upp úr átta. Ég keyrði eins og venjulega til Odense og Fúsi heim.  Þannig höfum við haft þetta. Þar sem við brunuðum eftir hraðbrautinni í fallegu veðri með skærgulu repjuakrana sitthvoru megin við bílinn, velti ég því fyrir hvort ég ætti að þora að segja Fúsa frá einum skilaboðunum sem mér höfðu borist þá um nóttina á Messenger. Ég ákvað að láta til skarar skríða, taldi í mig kjark og kastaði sprengjunni. Og hún sprakk. Ég get svo svarið það.

„Gafstu Sjálfstæðisflokknum virkilega leyfi til að nota nektarmynd af þér og vinkonu þinni í blað fyrir kosningarnar???“ hrópaði Sigfús Jónsson frá Fellabæ City upp yfir sig.

Ég fór í feikna vörn: „Heldurðu virkilega að þeir eigi eftir að hala inn atkvæði út á okkur? Tvær svona hálfgamlar konur?“ Ég hafði nefnilega ekki staðist freistinguna um örlitla athygli á þessum verstu tímum, örlitla upplyftingu. Hvaða ógn er svo sem af „litlum landsbyggðarflokki?“ Sama í hvaða lit. Og hvað veit ég? Ég hef um allt aðra hluti að hugsa núna en sveitastjórnakosningarnar á Íslandi. Vil bara minna fólk á að kjósa ekki líkama okkar vinkvennanna, heldur eftir ykkar eigin sannfæringu.

Við Fúsi rifumst heiftarlega um þetta frá Graasten, þar sem sumarbústaður konungsfjölskyldunnar er og alla leið að Kolding sem einu sinni tilheyrði Þýskalandi. Þar á milli eru um 80 km. Hann vildi að ég skrifaði manninum aftur og dregði leyfið mitt fyrir myndbirtingunni til baka. Ég átti bara að segja að ég hefði verið í annarlegu hugarástandi þegar ég sagði já. Glætan! Þetta er svo frábær nektarmynd að hún ætti að prýða strætóa um allt Ísland.

Viðtalið í OUH í dag, gekk þannig séð vel. Svörin úr skönnunum voru góð, ég er alveg hrein allsstaðar nema í kviðarholinu. Enn sem komið er, er ekki hægt að segja hvort það sé Borderline tumor (æxli á mörkum góðkynja og íllkynja) eða íllkynja krabbamein. Ef það er það fyrrnefnda, er bara gerð aðgerð og „hreinsun.“ Ef það er það síðarnefnda, stækkar aðgerðin og lyfjameðferð fylgir í kjölfarið. En horfurnar eru góðar segja þeir. Aðgerðin verður gerð 30. maí. 12 daga bið, allt út af kristinni trú. Stóri bænardagurinn, Uppstigningardagur og Hvítasunnan… allir þessir dagar ýta öllu á undan sér. Ég spurði Fúsa hvað hefði verið að gerast í lífi Jesú á Hvítasunnunni því ég man svo lítið úr þessari sögu. Hann sagði að hann hefði skipt um föt þessa helgi. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Núna í kvöld, til að bæta fyrir sprengjuna sem ég kastaði í morgun, bruggaði ég te handa okkur Fúsa og gaf honum bláber vætt í vodka. Með marsipani. Frá Anthoni Berg. Svona svo að þið haldið ekki að ég sé að halda að honum áfenginu. Nei Guð, ég sé alveg um að drekka fyrir tvo. Eins og ein vinkona mín orðaði það svo rétt í dag; við dílum við öll erfið verkefni með aðstoð alkóhóls. Sko ég og hún, ekki ég og Fúsi. Við dílum öðruvísi við erfið verkefni.
(Svona ef þið skilduð vera alveg bit á mér, þá er ég að ýkja. Ég gæti að sjálfsögðu mikillar hófsemi í kringum áfengi.)

Um kvöldamatarleytið kallaði ég á Fúsa og tilkynnti myndatöku. Hann var ekki alveg á því þar sem hann var enn svekktur út í mig fyrir að hafa selt sálu mína Sjálfstæðisflokknum, að hans mati. Ég lofaði honum öllu fögru í kvöld. Svona eins og við konur eigum til að gera.

Alla dagana, frá því að ég kom heim þann 8. maí, hef ég bloggað á hverjum á hverjum en ekki birt. Hver færsla hefur fengið sitt lag, eitthvað sem ég hef hlustað á þann daginn. Ég á eftir að liggja aðeins á þeim færslum, til að melta þær. Kannski koma þær, kannski ekki. Biðin var klikkaðslega erfið í síðustu viku en skárri þessa vikuna. Ég er bókstaflega búin að ráfa um allan tilfinningaskalann, húsið, lóðina og skóginn og hafa það slæmt og gott. Það er búið að vera allskonar vesen á mér og þetta hefur verið einn sá skrítnasti mánuður lífs míns.

16 Responses to “Síðustu 10 dagar og næstu 12.

 • Hanna Dóra Magnúsdóttir
  2 ár ago

  Knús elsku skvís. Þetta fer allt vel.
  Þú hefur húmor og hann fleytir langt. ?

 • Sigríður Þórstína Sigurðardóttir
  2 ár ago

  Æ hvað það er gott að sjá að húmorinn hjá þér er enn til staðar. Það hefur líka verið erfitt að bíða eftir svari úr þessum rannsóknum þínum hérna á Íslandi, þetta fer allt vel, en sjálfsstæðisflokksins ok við skrifum það á allt stressið þú hefur væntanlega ætlað að setja það á einhvern annan : )

  • Hahaha, ég hætti líklega aldrei að reyna að vera fyndin 😉 Jú, ég hef verið undir miklu andlegu álagi og þess vegna varð mér á að „styrkja“ sjálfstæðisflokkinn. Ég hef ekki verið með sjálfri mér… 😉

 • Elsku frænka, humorinn hefur þú svo sannarlega. Kæmpe Knus frá klakanum og við tökum þetta með jákvæðninni og allt fer vel?

 • Elsku frænka, humorinn hefur þú svo sannarlega. Kæmpe Knus frá klakanum og við tökum þetta með jákvæðninni og allt fer vel?

 • Elísa Eðv.
  2 ár ago

  Æ en leiðinlegt að þú þurfir að standa í svona veseni. En hef auðvitað fulla trú á að allt fari vel! Gangi þér sem allra best <3

 • Þórunn Birna
  2 ár ago

  Gangi þér vel elskuleg! <3

 • UNNUR SIGURLAUG ARADOTTIR
  2 ár ago

  Þú massar þetta eins og þér einni er lagið elsku Dagný mín og með þinn dásamlega húmor kemstu langt 🙂
  Þetta með myndina…. rándýrt ;-)) … en væri örugglega gaman að sjá hana ;-)) <3

 • Tinna Bessadóttir
  2 ár ago

  Gangi þér vel elsku Dagný mín, ef einhver rúllar þessu up þá ert það þú.
  Mesta áhyggjuefnið í þessari færslu er hinsvegar stuðningurinn við Sjálfstæðisflokkinn, ég vona bara að þú hafir fengið góða summu fyrir myndirnar og það sjáist ekki í andlit…. Allt annað má sjást.

 • Halldóra S.
  2 ár ago

  Æji þetta voru ömurlegar fréttir…. En gott að þetta uppgötvaðist (óvart) og gott að þetta virðist staðbundið. Baráttukveðjur….!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *