Hinar miklu áhyggjur dagsins.

(Færslan er skrifuð í gær, 22/5)

Enn skín sólin hér í Sönderborg og hitinn er sallafínn. Ég er bara að baka bananabrauð úr gömlum bönunum, þvo þvott og reyna að ákveða mig hvort ég eigi að fara og kaupa blóm í krukkurnar eða ekki. Ef ég geri það ekki núna í vikunni, gerist ekkert fyrr en í júlí. En ef ég geri það núna, deyja þau mögulega drottni sínum þegar ég fer til Odense. Þetta er alls engin dulin gagnrýni á eiginmanninn, þetta er bara staðreynd. Fólk getur ekki verið gott í öllu og því ósanngjarnt af mér að ætlast til að hann geti sinnt blómunum í um það bil viku. Álíka ósanngjarnt og að ætlast til þess af fiski að klifra upp í tré.

Ég er tiltölulega áhyggjulaus svona dagsdaglega en áhyggjur dagsins eru samt þær hvort ég fái eins manns stofu á OUH (Háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum) eða hvort ég þurfi að liggja með annarri. Ég nenni því ekkert. Glætan. Og finnst pínu óþægilegt að hafa enga mynd af deildinni í huganum. Ég gæti náttúrulega hringt í „tengi“ hjúkrunarfræðinginn minn og spurt. En ég vil bara ekki að sú spurning verði skráð í skýrsluna mína; „Sjúklingurinn hringdi verulega áhyggjufull í dag og spurði hvort hún fengi eins manns stofu og sitt eigið baðherbergi. Því var svarað játandi og við það hurfu áhyggjur sjúklings sem ský frá sólu…“ Öll samskipti eru skráð. Ég fór inn á skýrsluna mína í gær til að athuga hvað hefði komið út úr örveruprófi sem ég fór í og hvort ég væri á rétta sýklalyfinu. Allt í sóma þar. Skoðaði um leið OUH skýrsluna og sá þá ráðstefnulýsinguna sem haldin var 17. maí um mig. Ég þýði konference að sjálfsögðu beint, alveg eins og Stefán Bjarman gerði þegar hann þýddi Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck. Í þeirri bók eru haldnar fjölskylduráðstefnur en ekki fjölskyldufundir. 17. maí var haldin ráðstefna um mig. Myndir af mér berskjaldaðri, sýnandi bókstaflega allt, voru hengdar upp fyrir framan átta manns og einn á vídeói frá Vejle. Síðan hafa þau krufið mig og mína sögu til mergjar og komist að niðurstöðu. Pínu skrítin tilhugsun finnst mér. Ekki slæm samt.

Heimilislæknirinn minn spurði um daginn hvort ég fengi tímann til að líða. Ég svaraði því játandi, að ég bara læsi og læsi og dundaði… „Ó Guð minn almáttugur, ekki lesa!“ hrópaði hún nánast upp yfir sig. Þá hélt hún að ég væri að lesa sjúkraskýrslurnar og væri sígúgglandi. Ég gúggla ekkert að ráði. Núna í maí er ég bara búin að lesa Hrafninn eftir Vilborgu Davíðs, Heiðaharm eftir Gunnar Gunnarsson, Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren, Birting eftir Voltaire, sjúkraskýsluna mína þrisvar og nú Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck. Minn uppáhaldslestur eru sögulegar skáldsögur.

Ég hef nefnilega hugsað mér að fara í gegnum þetta á dágóðum skammti af rósemi og rommi, skynsemi (eins og hægt er), ásamt dassi af bröndurum. Segi ég núna … Ekki á hörkunni, hnefanum né sem nagli. Naglar eru gerðir til þess að láta berja sig, stundum bogna þeir, þá er þeir barnir til baka og síðan barðir inn aftur. Þeir sitja að eilífu fastir í spítu þangað til og ef einhverjum þóknast að draga þá út. Þá er þeim annað hvort hent eða þeir aftur barðir inn í spítu. Ég samsvara mér ekki við nagla. Engan veginn.

Ég pantaði mér skósíðan kjól í gær svona til að gera eitthvað að viti. Ég er að undirbúa heimkomuna sjáiði til. Svona eins og karlmaður myndi gera. Karlmaður myndi gera eitthvað. Karlmaður væri löngu búinn að hringja til OUH og spyrjast fyrir um þessar stofur. Þeir eru nefnilega aðgerðamiðaðri (sjóðheitt orð af Google translate) en við konurnar sem látum einstöku sinnum tilfinningarnar hlaupa með okkur í gönur. Hvort er betra, veit ég ekki, en það myndi henta mér betur að vera praktísk núna. Er annars einhver lesandi minn að vinna á OUH, veit þetta og getur sent mér einkaskilaboð? Svona til að ég hætti að hugsa um þetta og fundið mér nýtt áhyggjuefni af praktískum toga.

Örsjaldan nennir Vaskur ekki þessum myndatökum og þá er heppilegt að hann sé með gott skott. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *