Föstudagskvöld og tíminn líður.

Svala er í þessum skrifuðu orðum að halda upp á 21. árs afmælið sitt. Okkur finnst það afskaplega gaman og róandi. Reyndar bauð hún bara sjö vinum sínum en ekki 17 eins og oft áður, jafnvel stundum 27. Þau virðast vera að fullorðnast. Hún bauð upp á mínitapas í forrétt og síðan sóttum við pizzur fyrir þau niður í bæ. Hún ætlaði upphaflega að hafa stórt tapas en ég þvertók fyrir það, vitandi að það yrði ég sem græjaði það. Hún vinnandi til 15:30, afmælið byrjaði klukkan 18 og Danir koma ekki of seint. Þess vegna enduðum við á pizzum. Góðum pizzum. Núna eru þau í bjórkeilu beint fyrir utan stofugluggann okkar.

(Þessi mynd var tekin 18:10, það væri annað uppi í tengingum ef ég tæki mynd núna 23:30. Svala er þriðja frá hægri.)

Ég hef komist að því að iðjuleysi er auðveldasta leiðin að iðrum jarðar – þar sem eldarnir brenna. Því fór ég í fyrradag og keypti fulla innkaupakerru af blómum. Fór síðan á fyrirlestur hjá kynlífsfræðingi. Í gær setti ég öll blómin í potta, raðaði og puntaði. Í dag hef ég verið að undirbúa afmæli heimasætunnar. Hún á afmæli 4. júní en heldur upp á það í dag, því hún er að fara á stefnumót við vinkonu sína á Bali á sunnudaginn. Talandi um Bali. Nú er World animal protection með átak í gangi í von um að ferðamenn á Bali verði meðvitaðri um aðstæður og meðferð á villtu dýrum í ferðamannaiðnaðinum þar. Svona til að gera langt og mikilvægt málefni stutt, þá er mjög góð þumalputtaregla að láta öll villt dýr í friði. Ekki taka selfie með villtu dýri, hvorki öpum né stórum kattadýrum. Ekki fóðra né ríða né synda með villtu dýri. T.d. fílum og höfrungum. Vegna þess að það er ekki hægt að temja villt dýr nema með ofbeldi. Þessi dýr þjást á allan mögulegan hátt. Flest fólk sem fer á fílabak eða syndir með höfrungum, elskar dýr en veit ekki við hverslags aðstæður þessi dýr búa. Af því að það er ekki hægt að vita allt.

Annars var Fúsi að koma inn hjá mér nýju áhyggjuefni. Hvað ef það verður múslimi sem svæfir mig eða sker mig upp? Það er ramadan akkúrat núna og fram yfir mánaðarmót. Og sólin svo hátt á lofti. Hvað ef músliminn verður sjúklega svangur, blóðsykurinn fellur, hann bilast í skapinu (eins og ég þegar ég er svöng) og missir stjórn á sér? Hvað ef hann verður að svæfa mig og gleymir að halda mér sofandi og ég vakna bara í miðri aðgerð? Eða ef hann fjarlægir úr mér þvagblöðruna fyrir mistök. Ó, þetta er mikið stærra áhyggjuefni en hvort ég komi til með að liggja ein eða með annarri á stofu. Svei mér þá ef Inger Støjberg, pólitíkusinn sem er oggólítið á móti múslímum, hefur ekki bara rétt fyrir sér, þegar hún vill krefjast þess að allir múslimar fari í frí á ramadan. Því þeir valda nefnilega svo mörgum slysum í vinnunni vegna hungurs. Reyndar er ekkert af þessum slysum skjalfest en þau eru þarna samt segir Inger…

Um daginn virti Fúsi fyrir sér magann á mér, nú með fjögur ör og síðan ræddum við um komandi ör. Þeir hafa talað um að skera mig lóðrétt og ef útlitið er ekki nógu gott, þá stækka þeir skurðinn svo að hann verður frá lífbeini og upp að brjóstbeini. Það er all langur skurður skal ég segja ykkur ef til hans kemur. Fúsi sagði að þá yrði ég hrikalega töff. Bara eins og kona að koma heim úr bardaga. Sem rist hefur verið á hol, saumað sig saman sjálf, beislað hestinn og riðið heim – berbakt.

Ég hugsa að ég fái mér húðflúr einhversstaðar á öxlina. Íslenska fánann og texta í kring: I’m a viking woman from Iceland. Huh. 

Annars hafa margir verið að impra á nektarmyndinni sem Sjálfstæðisflokkurinn hætti við að nota. Margir gefa í skyn að þeim dauðlangi til að sjá hana en biðja ekki beint. En hvað geri ég ekki fyrir lesendur mína, auðvitað birti ég hana, eins og ég hef svo oft gert áður.

Í alvörunni, við hverju bjuggust þið? Varla að ég hefði verið með alvöru nektarmynd á glámbekk fyrir stjórnmálaflokka landsins…? Allavega, ef ég þarf ekki að fara í lyfjameðferð eftir aðgerðina 30/5 skal ég snúa mér hinsegin á næsta fjalli. Ef ég verð með myndavél.

Annars var ég að birta allar færslurnar sem ég hef skrifað á undanförnum tveimur síðustu vikum og ekki birt áður. Þær eru bara inn á alrun.com og merktar eftir dagsetningum. Ég ætla ekki að pósta þeim á Facebook.

3 Responses to “Föstudagskvöld og tíminn líður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *