Allt um blóm og vasa.

-Ég ætlaði að henda í eina færslu núna með morgunkaffinu en ég næ því líklega ekki því ég þarf aðeins að vinna heima, þ.e.a.s. vinna skrifstofuvinnu og síðan er ég að fara á förðunarnámskeið í Óðinsvéum eftir hádegi. Já og svo þarf ég að brjóta saman þvott.

Svona hljómaði hluti af status sem ég setti út á Facebook í gærmorgun og einhverjir fóru að hlæja. Ég skildi ekki afhverju því ég hafði, þá sjaldan, verið afskaplega einlæg og var ekki að reyna að vera fyndin. Vildi bara segja takk.

Í gærkvöldi bárust mér skilaboð frá góðri vinkonu:

Vinkonan: Fór Fúsi líka á förðunarnámskeið?

Ég: Já og nei, hann beið fyrir utan.

Vinkonan: Ég er ekki að kaupa þetta með förðunarnámskeiðið.

Ég: Hahahah ekki mamma heldur.

Í gær fór ég í alvörunni á förðunarnámskeið hjá Look good, feel better sem er námskeið ætlað fólki í lyfjameðferð sem missir hárið, bæði á höfðinu og í andlitinu. Þetta námskeið á sér 31 árs gamla sögu frá Bandaríkjunum og er nú í 26 löndum. Krabbameinsfélagið styrkir þetta ásamt mörgum öðrum fyrirtækjum og síðan gefa snyrtivörufyrirtæki eða merki, vörur til að nota á námskeiðinu sem við síðan megum eiga. Hver og einn einstaklingur fær tösku fulla af allskonar fíniríi. Í lok námskeiðsins var sagt: „Og svo er ein af ykkur gasalega heppin því það liggur póstkort í töskunni hennar… Hver er sú heppna?“ Ég var sú heppna og augnabliks hugsanabull greip mig. Ég hafði pottþétt unnið ferð til Seychellerne eða Galapagoseyjanna. Datt bara ekkert annað í hug því ég er með svo svakalega útþrá að ég hef sjaldan upplifað annað eins. Það liggur við að ég sé tilbúin til að spreða öllum peningnum sem ég græddi á því að fá krabbamein, í einhverja frábæra ferð þar sem ég gæti leigt mér einkastrendur án annars fólks. En nei, á svipstundu rústaði förðunarfræðingurinn þessum draumi mínum; ég hafði unnið blómvönd. Og allar hinar sögðu: „Vááá, en æðislegt, en dásamlegt, nej hvor fint, hvor dejligt, en yndislegt, en unaðslegur vöndur, sikker en skøn buket“ og stundu og dæstu um leið. Ég leit á vöndinn og hugsaði með mér: „enn einn bleiki kaupfélagsvöndurinn en skítt með það, það er vasi með,“ svo ég stundi líka og dæsti þeim til samlætis og sagði um leið: „Nej, hvor er jeg bare heppin og hvor er den bare yndislegur.“ Þangað til förðunarfræðingurinn tók vöndinn upp úr vasanum og rétti mér hann rennandi blautan að neðan og spurði hvort ég gæti farið með hann svona.

Ég hunskaðist út með míglekandi blómvöndinn.

Þetta fór fram á Háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum og ég þurfti að koma við á kvensjúkdómadeildinni til að ná í efnivið til að skipta á nýrnarstómunum og hitti Marianne sem er ein af frábæru hjúkrunarfræðingunum þar. Ég sá mér leik á borði, sagði eins og var, að ég hefði unnið þennan vönd en spurði hvort deildin hefði ekki gaman af að hafa svona bleikan vönd standandi í móttökunni? Marianne hélt nú ekki. „Þú átt að njóta hans sjálf, hann nærir í þér sálina“ sagði hún grafalvarleg. Ég mótmælti og sagði að ég væri komin með upp í háls af blómvöndum. „Nej du, blomster er så livsbekræftende.“ Ég reyndi að malda í móinn: „veistu Marianne, einstaka daga hefur heimilið mitt lítið út eins og mín eigin jarðarför hafi verið daginn áður.“ Marianne fórnaði höndum og sagði að svona mætti ég alls ekki hugsa, blóm væru tákn um líf og myndu bæta og kæta allt. Ég sagði henni að þau væru líka tákn um dauða og maður sæi aldrei eins mikið af blómum og í jarðarförum og nefndi sem dæmi Óðinsvéum þessa dagana sem er þakin blómum vegna andláts Kim Larsens (blessuð sé minning hans). Hún sagði að það væri vegna þess að það hefði verið líf. „Já einmitt, og nú væri lífið dáið og því öll þessi blóm… Auk þess lifðu svona vendir mjög stutt, þeir visna og deyja og það er fand’me niðurdrepandi“ sagði ég og taldi mig hafa unnið. En nei aldeilis ekki, Marianne horði fast í augun á mér og endurtók að sálin í mér gæti ekki án vandarins verið, hann væri svo nærandi  og bætandi að ég þyrfti varla að borða á meðan vöndurinn lifði.

Jesús minn, það þýddi ekkert að þræta við hana, konan virtist alveg ga ga og mögulega meðlimur í einhverskonar söfnuði. Við fórum því heim með vöndinn.

Þegar heim var komið, eyddi ég löngum tíma í að finna hentugan vasa sem er reyndar ekki til á heimilinu, því endaði vöndurinn í skyrdalli og það er ekki smekklegt.

Þegar veikindin hófust, átti ég fjóra vasa; Pólska vasann, Omaggio og tvo glæra. Um mitt sumar fékk annar glæri vasinn glerveiki og það þurfti að henda honum. Hinn glæri varð úti um miðjan ágúst, varð ógeðslegur og endaði síðan í ruslinu. Því voru bara Pólski vasinn og Omaggio eftir og báðir óhentugir undir staðlaða kaupfélagsvendi.

Stuttu áður en Svala flaug til Mexikó um miðjan september fékk hún vasa í afmælisgjöf frá vinkonunum. Þetta var síðbúin afmælisgjöf því það tekur fjóra mánuði að afgreiða þessa týpu af vösum þar sem enginn einn er eins og tenging hönnuðar og framleiðanda er svo flókin að það er ekki fyrir hvíta konu eins og mig að skilja. En Svala veitti mér leyfi til að nota vasann að vild. Takk fyrir það kæra dóttir. Ég hefði notað hann ef stúturinn á honum væri ekki jafnþröngur og rass á hana sem aldrei hefur verpt eggi og mun aldrei gera það. Svo bleiki förðunarnámskeiðsvöndurinn var settur í skyrdall.

Það má vera að einhverjum finnist ég helst til hreinskilin og mögulega vanþakklát, þegar ég segi að mér verði pínu óglatt þegar ég fæ þessa stöðluðu vendi í hendurnar. Þeir eru ALLTAF fjólubláir, bleikir eða appelsínugulir. Og það er alltaf alltof mikið grænt í kringum þá, einhversskonar grænn krans. Ég hreinlega þoli þá ekki og þá er ekki fræðilegur möguleiki á að þeir næri í mér sálina. Það er meiri næring í heilum Bingókúlupoka.

Og svo á ég ekki vasa undir þá.

Pólski vasinn (lengst til hægri) er bara ætlaður undir dauðar plöntur held ég. Ég hef bara einu sinni sett vatn í hann þessi 16 ár sem ég hef átt hann og það var þegar það voru orðnar of margar dauðar flugur ofan í honum og það þýddi ekki að hvolfa honum og hristann. Síðan fyllti ég hann einu sinni af rósavíni minnir mig og matarklúbburinn drakk listugt úr honum heilt kvöld, öll nema Fúsi. Vasinn var keyptur í Szczecin í Póllandi ásamt tveimur kössum af Prins pólói sem ekki er til lengur.

Omaggio lekur. Fúsi límdi hann ekki nógu vel saman.

Þið spyrjið ykkur mörg hver, afhverju ég bara kaupi ekki vasa næst þegar ég fer í búð. Ég get ekki bara keypt vasa, ég þarf að finna rétta vasann eða hann þarf að finna mig. Eins og Omaggio gerði. Hann fann mig og nuddaði sér upp við mig þangað til ég fór að elska hann. Að kaupa blómavasa er eitt af því erfiðasta sem keypt er, það er svo margt sem þarf að huga að. Svo ótrúlega margt.

En ekki misskilja mig, almennt elska ég blóm – sem eru úti í náttúrunni. T.d. í vegköntum, ofan í skurðum eða utan í lækjarbörðum. Ég  þig alveg blóm – ef gefandinn hefur tínt þau sjálfur og þau passa í vasann hennar Svölu. Ég elska samt margt annað meira. Ef þið endilega viljið gefa mér gjafir vegna aðstæðna…

Ég hefði átt að fara með bleika förðunarnámskeiðsvöndinn að heimili Kim Larsens í gær og leggja hann í blómahafið þar. Ég vissi bara ekki hvar hann bjó. Í staðinn enda ég færsluna á einu af mínum uppáhaldslögum með honum. Það hefði kannski verið meira við hæfi að hafa það Om lidt en nú er ég víst búin að söngla það nóg síðan á sunnudaginn segir Fúsi. Þess vegna þetta.

 

 

7 Responses to “Allt um blóm og vasa.

 • Ég gjörsamlega elska þetta lag? og er sammála með blómin

 • *Ha ha ha eg á svo ótrúlega margar góðar minningar um Omaggio vasann, þau snöppin björguðu mér oft í Kína þegar lífið var ekki alveg eins og maður vildi alltaf….
  *Lagið er eitt af mörgum góðum!
  *Og ekki minnast á þessa bensínstöðva blómvendi! Styrmir minn sér nú engan mun á þeim og blómum út í vegarkanti og kom heim um daginn með alveg svakalega bláar litaðar rósir handa mér, þær voru alveg hreint agalegar….
  Puss o kram frá Gautaborg

  • Hahaha já Omaggio er einstakur 😉
   Fúsi hefur ekki hugmynd um hvað ég er að tala um þegar blóm eru annars vegar. Ef ég bið hann um að fara út í garð og sækja eitt blóm í lítinn vasa, gæti hann komið inn með gras… 😉 Kannski eru þeir svipaðir, Styrmir og hann?

 • Stella ÖS
  6 ár ago

  æj hvað ég kann að meta hreinskilni þína Dagný 😉 <3

 • Margrét
  6 ár ago

  Eg segi nu bara að þú ert fædd undir happastj?rnu frú min góð.! Heppnin felst í því að þú fæddist ekki sem danadrottning . Gasaslega fær manneskjan mikið af blómum! Hef stundum haft áhyggjur af því að hún eigi ekki boðlega vasa fyrir alla þessa GRÍÐARLEGU blómvendi. Þú ert allavega á grænni greinmeð þessa þrjá þína vasa? Hugheilar kveðjur til ykkar Fúsa ,með þakklæti fyrir pistlana þína. Þú ert svo sannarlega gleðigjafi okkar sem fá að fylgjast með þér. Takk fyrir .

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *