Gellusamlokur og fiskitortillur

Kæru lesendur.

Í dag ætlar bloggið að vera matarblogg. Ekki vegna þess að því langi til að vera matarblogg, heldur vegna þess að bloggarinn er mjög upptekinn af mat þessa dagana. Meira að segja svo upptekinn að hann er orðinn gráðugur og hömlulaus og fitnar bara og fitnar. Bloggarinn er nánast orðinn kringlóttur í laginu og minnir helst á ofalinn grís sem á að slátra rétt fyrir jól og steikja síðan upp úr sinni eigin fitu og púðursykri næsta aðfangadagskvöld. Í þessu lenda langflestir í minni núverandi stöðu… þ.e.a.s. að verða svo sílspikaðir að þeir geta varla staðið upp.

Eða ekki.

Ókei, ég var að grínast. Þessu er oftar en ekki þveröfugt farið og því neyðast mínir líkar til að vera uppteknir af mat. Þó að lystin sé sama og engin. Því ætla ég að deila með ykkur tveimur uppskriftum sem hafa verið mjög svo árangursríkar fyrir mig upp á síðkastið. Ég gleypti matinn í mig, þá sjaldan.

Sú fyrri eru einfaldar samlokur sem ég sá Nigellu sjónvarpskokk gera eitt kvöldið þegar ég var fór seint að sofa. Nigella á RÚV byrjar nefnilega ekki fyrr en klukkan tíu á dönskum tíma og þá er kominn háttatími hjá mér. En um daginn var ég að slæpast og þá sá ég hana og brá mér svona svakalega í brún því ég hélt að Nigella væri þessi afríkanska sem hefur líka verið á RÚV. Sú afríkanska hlýtur þá að heita Gizella eða eitthvað álíka fyrst ég ruglaðist svona. Reyndar veit ég ekki hvort hún sé afríkönsk en einhverjar afríkanskar rætur eru í henni samkvæmt útlitinu. Þetta var sem sagt í fyrsta sinn sem ég sá Nigellu og hún var að gera samlokur. Hún sagðist hafa fundið upp á þessum samlokum eina nóttina þegar hún var andvaka og svöng og fór því framúr klukkan fjögur til að búa sér til eitthvað. Það er eins gott að ég búi ekki með henni, segi ég nú bara… Ég yrði alveg snar ef Fúsi færi bara fram úr á nóttunum og væri með læti. Þegar þátturinn var búinn og ég sagði Fúsa frá þessum samlokum, sagði hann mér að Nigella væri eiturlyfjaneytandi. Hvursu mikill vissi hann ekki en allavega að hún hefði verið viðriðin kókaín. Mér fannst einmitt eitthvað gruggugt við hana, bæði að hún væri að fara á fætur klukkan fjögur á nóttunum til að borða og svo var hún ýkt hress og allt var ýkt gott, æðislegt og svo yndislega skemmtilegt í þættinum. Og þar sem ég er alveg rosalega á móti öllum eiturlyfjum, þá ákvað ég að ég skyldi ekki horfa á fleiri þætti með Nigellu, enda eru þeir líka sýndir alltof seint á RÚV hér í Danmörku.

En samlokurnar virtust girnilegar og einfaldar og ég er nú ekki það prinsipföst að ég geti ekki fengið svo sem eina uppskrift hjá konu eins og Nigellu. Allir geta misstigið sig.

(Ni)Gellusamlokur (ég fann upp á þessu nafni)

Uppskrift: 

Mér finnst best að nota Ölandsbrauðið úr Lagkagehuset, sem er bakarí í Danmörku, því brauðið er svo bragðgott og þétt. Ég veit ekki hvort það er sænskt að uppruna, þ.e.a.s. kennt við eyjuna Öland sem liggur úti fyrir Kalmar enda skiptir ekki máli hvaðan það kemur, það er bara besta brauðið í samlokur ef maður nennir ekki að baka sjálfur. Versta brauðið er ferkantað Kaupfélagsbrauð sem endist og endist og endist og endist og…

Hráskinka. Ég nota oftast parma eða serranóskinku. Nigella notaði minnir mig parmaskinku.

Bríe.

Fíkjur. Ferskar! Ekki þurrkaðar! Og helst týndar af manni sjálfum. Ég týndi einmitt nokkur kíló núna rétt fyrir og um helgina þegar við hjónin skruppum til Suður Ítalíu eða Mezzagiorno í þrjá daga til að rúnta um Amalfiströndina svona aðallega til að endurvekja rómantíkina og kafa ofan í sögu staðarins. Við syntum saman í kristalsbláum sjónum og nutum skærrar dagsbirtunnar sem gerir allt þarna niðurfrá svo litríkt og fagurt. Þetta var unaðsleg ferð. Og ég tók fíkjurnar með heim.

Ókei ókei, svona var þetta ekki í raunveruleikanum. Í þarsíðustu færslu, í þessari sem sló öll met hvað dramatík varðar, þá sagði ég frá að Torsten þvagfæraskurðlæknir ætlaði að reyna að skipta um nýrnarstómíurnar í svæfingu í þessari viku. Það stóðst allt saman og mér var troðið inn í prógrammið síðasta fimmtudag. En eitthvað sem átti bara að taka korter, tók tvo tíma og það sem átti að gera, tókst bara öðru megin. Kemur það á óvart þegar ég á í hlut? Svarið er nei, nei og aftur nei. Og ég endaði í innlögn með þvagfærablóðeitrun (urosepsis), skotin niður með 39,9 stiga hita og kom síðan heim í gær. Í dag fórum við niður á strönd til að njóta veðursins og vindsins og á leiðinni heim var komið við í Bilka. Ég vildi ekki fara inn þar sem ég hafði gleymt að setja á mig maskara og sagði við Fúsa að það vantaði hnetusmjör, bríe og fíkjur, ferskar og alls ekki ekki þurrkaðar. Og hvað gera dæmigerðir karlmenn á leiðinni úr bílnum og inn í Bilka? Þeir tuldra: Hnetusmjör, bríe og fíkjur, hnetusmjör, bríe og fíkjur, hnetusmjör, bríe og fíkjur…

Síðan komum við heim og þá sá ég að hann hafði keypt tvö kíló af þurrkuðum fíkjum! Það voru hámark 30 metrar frá bílnum að Bilka! Þessar fíkjur voru mikilvægar fyrir mig og mína matarlyst svo hann fór aðra ferð, þessi elska. En ekki veit ég hvað ég á að gera við tvö kíló af þurrkuðum fíkjum.

Hreint smjör (ekki eitthvern blandaðan óþverra, nema þá ef það er hreint plöntu“smjör“)

Olía. Því Nigella segir að það sé gott að setja örlitla olíu saman við smjörið þegar valið er að steikja upp úr smjöri. Þá brennur ekki smjörið.

Aðferð:

Bríe-ostinum er smurt á báðar brauðsneiðarnar og magnið fer eftir smekk hvers og eins. Síðan er hráskinkan sett ofan á og aftur fer magnið eftir smekk hvers og eins. Fíkjan er skorin í sneiðar og sett ofan á skinkuna.

Samlokan er síðan steikt upp úr smjöri og olíu á pönnu og Nigella sagði að það væri mikilvægt að þrýsta henni niður reglulega. Ég gerði það til öryggis.

Seinni uppskriftina fékk ég frá Aarstiderne.dk en við Fúsi erum aðeins að reyna að einfalda okkur hversdagsleikann með því að panta mat heim. Þá fáum við uppskriftir og hráefni heim að dyrum og þurfum bara að elda matinn. Við höfum prófað Simple feast og líkaði vel og nú tókum við heimskassann frá Árstíðunum. Bæði eru með lífrænt hráefni (nema fiskurinn sem er veiddur villtur úti í sjó) og ákveðna umhverfisstefnu varðandi umbúðir. Með þessu minnkum við matarsóun, gerum eldamennskuna skemmtilegri og tryggjum hollustuna aðeins betur.

 

Fiskitortillur með rauðkáli, vorlauk og sýrðum rjóma. 

Undirbúnings og eldunartími er um það bil 25 mínútur. Uppskriftin er fyrir tvo og allt kom í einingum eða umbúðum sem ég er fyrir löngu búin að henda, svo þetta verður bara svona um það bil magn og svo verðiði bara að nota skynsemina.

Með þessari uppskrift fylgir engin mynd því það hvarflaði ekki að mér að þetta væri svona gott í öllum sínum einfaldleika og þess vegna datt mér ekki í hug að taka mynd.

Efnislisti:

Eitt lime / læm (skorið í báta)

Buena vista krydd eða bara eitthvað annað. Skiptir ekki öllu.

Svolítið gróft salt.

Þrjár matskeiðar hveiti

Þorskur án roðs, bara svona eitt flak eða eitthvað. Já, eða einhver annar fiskur. (Skerið fiskinn í ferkantaða bita.)

Einn pakki með sex litlum grófum tortillum.

1/4 af rauðkálshaus. Eða einn 1/3, þið ráðið, (skorið í fína strimla.)

Tvær lúkur af sérrýtómötum (skornir í báta.)

Einn og hálfur vorlaukur, mögulega meira, mögulega minna (skorinn fínt.)

Sýrður rjómi. Við fengum litla dós, kannski 75ml, samt ekki viss. Þið finnið út úr magninu.

Aðferð við að matreiða: 

Skolið og skerið grænmetið. Raðið því snyrtilega á fat. Munið að við borðum 85% með augunum. Blandið hveitinu, kryddinu og smá salti, gjarnan grófu, saman og veltið fiskbitunum upp úr þessu. Steikið síðan á pönnu upp úr jómfrúarolíu. Hitið tortillurnar eins og ykkur þykir best, ég geri það oftast á þurri pönnu, sérstaklega ef við erum bara tvö.

Aðferð við að borða: 

Setjið grænmeti og fisk á tortilluna, ásamt slatta af sýrðum rjóma. Kreistið síðan lime / læm yfir, brjótið saman og bítið í.

Með þessum mat er alls ekki gott að drekka gos, allavega ekki hefðbundið gos. Við Fúsi mælum með kranavatni.

Í kvöld var svo okonomiyaki með hoisinsósu, nautakjötsstrimlum og vorlauk.

Meira var það ekki í bili. Verði ykkur að góðu.

Kveðja, Dagný matarbloggari – en þó aðeins í dag.

 

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *