Róman- og erótíkin í grámygluðum hversdagsleikanum.

Samband, sambúð, hjónaband, hjónabúð. Kannski er ekkert til sem heitir hjónabúð. Ég gæti gúgglað en ætla ekki að gera það því að ég er ekki stafrænn fíkill (digital junkie) og get með léttu móti skrifað eina færslu án þess að vera nettengd. Vá, það er aldeilis að ég tek stórt upp í mig í dag. Mér datt þetta bara í hug rétt í þessu, það er að segja, skrifa ótengd Internetinu og á eftir að sjá það gerast. Hver er í ósköpunum er ótengdur í dag? Enginn, nema kannski skálaverðir í sjálfboðavinnu í afar afskekktum skálum, umluktum fallegum fjallahring sem hleypir hvorki 3G né 4G í gegn né yfir sig,  en þeir eru væntanlega ekki við skálavörslu í dag, 29. oktober, svo að það er líklegast enginn ótengdur akkúrat í dag. Gangi mér því vel. Ég læt ykkur vita hvort þetta tekst í gegnum þessa færslu.

***

Færslan byrjaði öðruvísi en ætlunin var. Ég ætlaði að skrifa um samlíf fólks og þar á meðal okkar Fúsa. En fór út í ótengingu og lýsti því yfir að ég væri ekki stafrænn fíkill. Sem er bull og vitleysa. Ég er ekkert frábrugðin ykkur hinum. Þvert á móti. Samt berst ég hatramri stanslausri innri baráttu við hendurnar mínar  og huga því ég vil ekki vera svona háð og undirgefin öllum óþarfanum á Internetinu. Ég set símann inn í skáp, læt hann liggja í veskinu mínu ásamt því að setja hinar og þessar reglur. Það má ekki vera í símanum á meðan borðað er, á meðan talað er við fólk, á meðan horft er á sjónvarpið… Það má bara gera eitt í einu. Ég æfi mig í að vera ekki í símanum á meðan ég bíð einhversstaðar. Það er í lagi að horfa út í loftið eða fletta blaði.

***

Ég er búin að skrifa tvisvar í færsluna hingað til að ég sé ekki fíkill. Er það ekki helst of djúpt í árina tekið? Þá er ég að tala um að nota orðið fíkill eða junkie? Fíkn er grafalvarlegur sjúkdómur, því megum við ekki gleyma og því finnst mér eiginlega vanvirðing við þá sem þjást af þeim sjúkdómi að kalla mig stafrænan fíkil. Þetta er ekki fíkn, þetta er bara arfaslæmur ávani. Er það ekki? Mér dettur í hug þegar við vorum oft að hrekkja hvort annað á Facebook fyrir nokkrum árum og kölluðum það í byrjun facerape eða andlitsnauðgun. Það var mjög ósmekklegt enda áttuðu flestir hrekkjalómar sig á ósómanum og fóru að tala um feishrekk í staðinn. Niðurstaðan er því sú að ég er með slæman stafrænann ávana….

***

Ég er ekki enn búin að gúggla neitt á meðan ég skrifa þessa færslu en venjulega er ég mjög ötul við það því íslensk málfræði og stafsetning er ekki mín sterka hlið og því þarf ég iðulega aðstoð. Ég læt það samt ekki hindra mig í að blogga.
Í síðustu tveimur setningum hefur orðið ekki komið fyrir þrisvar sinnum. Það er of mikið því orðið ekki leiðir af sér neikvæðni. Svala heitin tengdamamma sagði þetta við mig þegar stelpurnar voru litlar, það er að segja að ég ætti að forðast að segja ekki við þær. T.d. ekki fikta í öllu, heldur frekar að segja: „Leyfum sjúklega flotta Iitala vasanum hennar ömmu að standa á borðinu með límmiðanum á.“ Svala heitin hafði lært þetta á námskeiði sem Sambýli A og B (áður Vonarland) hélt fyrir starfmenn sína. Ég var minnt á þessa speki um daginn í nýja leikfimisfélagsskapnum mínum sem hægt er að lesa um hér. Og þetta er góð speki finnst mér. (Þetta með Ittala var grín.) (Hefði ég átt eða þurft að gúggla hvernig Itala er stafað?)

***

Er kannski kominn tími til að ég komi mér að efninu? Ég ætlaði að skrifa um samlífs fólks, t.d. fólks eins og okkur Fúsa sem erum gift og höngum saman alla daga. Þetta var ekki svona, það er ekkert langt síðan ég gerði það sem mig langaði til og hann gerði það sem hann langaði til sem gerði það að verkum að við vorum ekkert alltaf saman. En núna erum við alltaf saman. Förum fátt, fjötruð við heimilið okkar og lóðina í kringum það. Bundin niður í bókstaflegri merkinu. Bundin niður með sílikonslöngum frá Convatec. Ó þetta hljómar ílla… og dramatískt.
Við verðum að sætta okkur við að ferðalögin verða að bíða. Líka þessi afar stuttu yfir í næstu sýslu. Við prófuðum aðeins um daginn og komumst að þeirri niðurstöðu að heima er best – um ókomna tíð.

***

Reyndar þekki ég konu, jafnöldru mína, sem er svo flug-, sjó-, bíl- og brúarhrædd að hún fer aðeins tilneydd af eyjunni okkar Als. Eiginlega bara ef líf og limir liggja við. Ég held að hún sé alveg sátt við það og nýtur í staðinn þess sem eyjan hefur upp á að bjóða. Það er nefnilega akkúrat það sem ég hef verið að gera til að halda geðheilsunni og styrkja hjónabandið eins og hægt er.
Að finna nýjar leiðir til að lifa af einhæfislífið og nöturlegan hversdagsleikann. Undanfarið höfum við farið meðal annars á tvenna tónleika, í heimsóknir, fengið heimsóknir, farið í bíó og í verslunarferð. Reyndar var verslunarferðin hugdetta sem mátti missa sín. Þetta var önnur verslunarferðin í okkar hjúskapartíð. Sú fyrri var til Glascow árið 1999. Það hafa alltaf hellst yfir mig líkamlegir kvillar þegar kemur að búðarrápi, þannig að ekki veit ég hvernig það hvarflaði að mér í núverandi ástandi að fara alla leiðina til Neumünster í Þýskalandi til þess að versla. En á móti kemur, nú þekki ég betur mín mörk. Best er bara að vera á eyjunni Als.

***

Allavega, í byrjun september fannst mér vera kominn einhver saggi í hjónabandið og þá voru góð ráð dýr. Það eru nefnilega margir þættir hjónabandsins í biðstöðu og ekkert við því að gera en það er ekki þar með sagt að við eigum bara að stara á vegginn beint á móti og bíða eftir að eitthvað gerist. Ég tók því til minna ráða og ákvað að hleypa örlitlum skammti af erótík inn á heimilið. Aldís var farin til Stokkhólms og Svala til Mexíkó. Húsið var okkar og hundurinn í bælinu sínu.

***

Á sama tíma var haustdagskrá sjónvarpins að byrja og ég sagði við Fúsa að nú skildum við hætta þessum fyrirsjálegheitum með því að horfa iðulega á HBO eða Netflix og hleypa gamni og gamani inn í líf okkar og horfa á gamla góða sjónvarpið í staðinn. Láta danska og íslenska ríkissjónvarpið koma okkur verulega á óvart og krydda tilveruna. Ég bjó því til prógram. Við hjónin hefjum vikuna á hita upp með Landanum og jurtate-i austan af Héraði. Á mánudagskvöldum heldur upphitunin áfram því þá er danski gamanþátturinn Klovn á dagskránni ásamt sama te-inu. Þessi tvö kvöld eru yfirdrifin nóg í upphitun og því skellur þriðjudagurinn á með allri sinni róman- og erótík.
Nú veit ég að þeir lesendur sem búa eða hafa búið í Danmörku reka upp stór augu og hvá: „Á þriðjudegi? En lillekone kvöldið er á miðvikudögum? Það er ekkert hægt að breyta því…“ Þetta myndu allavega Danirnir segja. Þið hin sem eruð ekki mikið inn í danskri menningu vissuð þetta kannski ekki? Það er að segja að Danir láti vel að hvort öðrum að mestu leyti bara á miðvikudagskvöldum? Nei, mér fannst þetta alveg stórundarlegt í byrjun en fljótlega öðlaðist ég skilning og sá skynsemina í þessu.
En núna er lífið okkar Fúsa ekki alveg eftir bókinni og því leifðum við okkur að breyta til. Við færðum róman- og erótíkina yfir á þriðjudagskvöld. Því þá er erótíski þátturinn Bændur leita að ástinni í danska ríkissjónvarpinu. Þá er ekkert te með, heldur lífrænt popp af fínustu gerð.

***

Þættirnir Bændur leita að ástinni eru nokkurskonar úrtökuþættir þar sem sex bændur taka þátt. Hver bóndi velur fimm konur út frá tugi ástarbréfa sem honum hafa borist. Síðan þarf hann að senda eina af þessum fimm heim í hverri viku. Þegar það eru þrjár eftir, flytja þær heim til hans. Bændurnir eru misjafnir eins og þeir eru margir en allir eiga það sameiginlegt að lengjast eftir ástinni og félagsskapnum sem henni fylgir. Þetta eru menn sem vinna mikið og eiga mörg áhugamál og hafa ekki tíma fyrir Tinder né annað slíkt. Einn er ekkill, annar er svo feiminn að hann roðnar alveg niður í tær. Svo er það Martin sem talar svo mikla suður jósku* að konurnar skilja hann eiginlega ekki. En við Fúsi skiljum hann alveg. Það er fyrir mestu. Við skiljum nefnilega okkar eigin mállýsku.

***

Í gegnum árin hafa þessir þættir oft verið skrautlegir. T.d. þegar Swinger-Ole sem var kúabóndi, tilkynnti konunum það að hann væri virkur meðlimur í swingerklúbb**. Síðan gat hann ekki valið á milli þeirra nema sofa hjá þeim fyrst. Þessir bændur sko. Sko, þessir dönsku bændur sko.

***

Í kvöld er mánudagskvöld og því bíðum við Fúsi spennt eftir morgundeginum. Það eru bara tvær konur eftir hjá hverjum bónda. Þátturinn hefur verið auglýstur grimmt undanfarið og þar er sýnt að ekkillinn sem er á sjötugsaldri er kominn með eina ofan í árabát og þar liggja þau og rugga sér lágrétt á meðan hin konan bíður og vonar á bakkanum. Ekkilinn er einnig alveg í öngum sínum, hann veit ekki hvort hann á að velja Helle eða Kirsten, því hann er jafnskotinn í þeim báðum.

***

Lengi lifi ástin.

***

*Samkvæmt mállýskufræðingum við Kaupmannahafnarháskóla, eru 32 mállýskur í Danmörku. En þetta er eitthvað sem er og verður þrætt um að eilífu. Hver hefur sína eigin skilgreiningu á hvað sé sjálfstæð mállýska og ekki. T.d. er sagt að á eyjunni Als, sem við búum á, séu 14 mállýskur. Það tekur um það bil þrjú korter að keyra frá nyrsta punkti til þess syðsta og 20 mínútur að keyra þvert yfir. Þannig að þið sjáið það að eyjan er ekki stór þótt hún líti út eins og mjög hættuleg grameðla séð úr lofti.

** Swingerklúbbur er klúbbur þar sem pör hittast og skiptast á mökum í smá stund til að stunda kynlíf með öðrum.

***Myndin er fengin af netinu og er erótísk.

2 Responses to “Róman- og erótíkin í grámygluðum hversdagsleikanum.

  • Margrét
    6 ár ago

    Ha,ha, ha! Takk fyrir þetta innlegg. Ég sé fram á að við Gústi þurfum að fara að skipuleggja hjá okkur. Gæti verið að það sé einum of seint eftir nærri 60ára sambúð? Best að líta á þáttinn með dönsku bændunum í kvöld ???

    • Hahaha nei ekkert er of seint og voðalega heldur Gústi sér vel… ef hann er búinn að vera í sambúð í 60 ár! Er hann þá virkilega að nálgast áttrætt? Við sjáum hann reglulega á RÚV og okkur finnst hann vera sprækur sem lækur. Reyndar getur maður verið það þótt maður sé á áttræðisaldrinum 😉

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *