23. oktober – Skógarferð sem strýkur

 

 

 

 

 

Við vorum komin út í skóg fyrir klukkan tíu í morgun, Vaskur og ég. Það var tólf stiga hiti og tólf metra vindur á sekúndu. Einn og einn dropi féll af himnum ofan. Laufblöðin féllu líka af trjánum. Tíu laufblöð á móti einum ringingardropa, það hentar mér vel því fátt er frábærara á þriðjudagsmorgnum en að fá haustlauf framan í sig.

Við fórum að bökkunum eins og ég kalla þá, man ekki hvort það er danska eða íslenska, allavega þar sem skógurinn endar og fjaran byrjar. Kannski ætti ég að kalla þetta kanta? Fúsi gerir það. Allt í lagi, þegar staðið er á kantinum, er um 50 metra þverhnípi niður í fjöru þar sem hæðst er. Fúsi segir að það sé ekki svo hátt, kannski í mesta lagi 20 metrar en ég vil meina að það sé hærra. Ef ég ímynda mér 33 manneskjur sem eru um 150cm á hæð ofan á hvor annarri, langsum, þá finnst mér mín hæðartilfinning meika sens.

Annars skiptir hæðin ekki máli, ég sest þarna oft og læt fæturnar dingla fram af og horfi ofan í fjöru og á sjóinn. Í dag var mildur öldugangur þar sem öldurnar runnu svo mjúklega fram og til baka yfir stóru steinana. Það virtist sem þær væru að strjúka þeim og þar sem ég sat og horfði á þetta, endurupplifði ég svo sterkt þegar Camilla svæfingarhjúkrunarfræðingur strauk mér síðastliðinn fimmtudag.

Camilla þessi er áttunda Camillan sem kemur fyrir í blogginu og er því Camilla hin áttunda. Á níunda áratugnum voru danskar stúlkur nær eingöngu skírðar Camilla. Þetta var fyrir tíma sónarapparatsins og því vissu foreldrar ekki kynið fyrr en við fæðingu. Ef þeir höfðu óskað sér stúlku og verið búnir að ákveða Camillunafnið en það birtist strákur, þá var hann skírður Camil.
Camil Olsen, Hansen, Nielsen og Jensen eru því afar algeng karlmannsnöfn í Danmörku.

Já það var svo ótrúlega þægilegt þegar Camilla strauk mér. Ég þurfti nefnilega aðeins að skreppa á skurðstofuna út af öðrum nýrnarleggnum (sem lá skyndilega á gólfinu kvöldið áður) og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera þar umkringd englum í mannsmynd. Hversvegna? Jú vegna þess að allt ferlið með nýrnarleggina hefur verið svolítið upp og niður og ég tala nú ekki um sársaukafullt í meira lagi í fjórum skiptum af sjö. Ég hef grátbeðið um deyfingu en ekki fengið. Röntgendeildin í Odense segir að þetta sé ekki deyfingarvert. Á fimmtudaginn var ég í Sönderborg og ég man ekki eftir að hafa þurft að biðja um própófól, það vildu bara allir gefa mér það. Og súfenta. Sagði ég nei takk? Nei, ég sagði já takk. Síðan lagðist ég á magann og svæfingin dældi lyfjunum í mig í litlum skömmtum þannig að ég varð ofurölvi og alveg pottþétt mjög skemmtileg. Camilla talaði allan tímann og reyndi að gefa mér heklaða mús sem hafði svo hræðilega litasamsetningu að hefði ég ekki fengið ógleðislyf áður en ég lagðist á magann, hefði ég kastað upp og niður á gólf. Ég afþakkaði músina og vona að engum hafi sárnað. Ég vona líka að Camilla hafi ekki heklað hana sjálf. Svæfingin gefur víst börnunum mýs og ég held að mér hafi staðið hún til boða því að ég var/er „innanhússjúklingur.“ Annars man ég sáralítið eftir þessu öllu saman, sem betur fer, því annars myndi ég líklega þjást af mórölskum timburmönnum næstu vikurnar.

Hvert er ég að fara með þessu? Jú, strokunum. Ég man að ég hugsaði að ég elskaði Camillu fyrir að strjúka svona á mér handlegginn og höndina, það var svo þægilegt og hreinlega gott. Mér hefur áður verið strokið svona, þá á vangann þegar var verið að svæfa mig um miðja nótt. Ég elskaði það líka þá. Og ég held að ég elski þetta vegna þess að þegar einhver strýkur mér á þennan hátt, þá fæ ég á tilfinninguna að ég sé ekki bara hlutur á bekk á röntgendeild í Odense, sem þarf að bora gat í, heldur er ég manneskja sem fólki er ekki sama um.

Hvernig öldurnar struku steinunum í morgun, minntu mig því mjög á strokurnar hennar Camillu.

Síðan stóðum við Vaskur upp og héldum aftur inn í skóginn og heim á leið.

 

 

 

 

 

 

Myndirnar eru teknar á símann.

5 Responses to “23. oktober – Skógarferð sem strýkur

 • Margret
  6 ár ago

  Þær eru fallegar skógarmyndirnar þínar . Vantaði bara mynd af Vaski sem átti ekki síður góða stund innan um sveppi og fallin lauf. Vona að þér fari nú að batna og eigir góðan vetur í vændum með Fúsa og Vaski. Og síðast en ekki síst: takk fyrir frábæru pistlana þína . Knús héðan frá Íslandi .?

 • Kristjana Júníusdóttir
  6 ár ago

  Indislegt að lesa það sem þú skrifar.
  Gangi þér sem allra best
  Kveðja Kristjana

 • Ásdís
  6 ár ago

  Yndisleg þessir pistlar þínir og myndirnar ,vá, takk elsku Dagný,

 • Heiða
  6 ár ago

  Falleg lesning og myndirnar vekja upp góðar minningar.

 • Margrét Lukka Brynjarsdóttir
  6 ár ago

  Þú ert svo einlæg í skrifum. Knús frá Íslandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *