Um sveitafélagsleikfimi, sjálfsmynd og sannleikann í svari.

Ein í krabbameinsleikfiminni segist verða hundrað ára en samt stækkar bara og stækkar æxlið í brjóstinu á henni. Auk þess var hún að hætta í núverandi lyfjameðferð vegna þess að doðatilfinningin í höndum og fótum (algeng aukaverkun) fór yfir mörkin. Þannig að núna á að reyna eitthvað annað.

Afhverju er hún svona óraunsæ? Það er andskotann ekkert víst að hún verði hundrað ára – eiginlega bara mjög ólíkt. Hún segist aldrei spyrja læknana um neitt, viti lítið um sjúkdóminn, þiggi bara meðferð og geri eins og henni er sagt. Hún segist hafa það gott. Hún er pottþétt í afneitun.

Við erum gjörólíkar. Ég spyr að öllu og hef gífurlega þörf fyrir að taka virkan þátt í minni meðhöndlun og mínu ferli og mér finnst það mjög eðlilegt þar sem ég er miðpunkturinn í þessu öllu saman. Ég veit að það kemur fyrir að ég dansi á línunni sem skilur að sjúkling og hjúkrunarfræðing (fyrir ykkur sem eruð ný, þá er ég nefnilega bæði) og mér finnst það í góðu lagi. Þegar tilveran endasteypist skyndilega á hausinn, á sjálfsmyndin það til að bíða hnekki vegna þess að persónulegu breytingarnar eru svo drastískar. Ég sem áður var svo spræk að ég þurfti ekki einu sinni að nota gleraugu og á skömmum tíma upplifði ég að ég varð nánast fangi í eigin líkama. Ég held að það sé þess vegna sem ég hef svona mikla þörf fyrir að stjórna eins miklu og ég mögulega get í kringum mig, alveg niður í minnstu smáatriði – til þess að ríghalda í mína eigin sjálfsmynd sem að er svo mikils virði fyrir mig. Kannski er ég hrædd við sjálfsmyndarkreppu. Kannski er þetta á vissan hátt eigingirni því að ég bregst svolítið við eins og mér hentar, en ef að það þetta er mín aðferð til að halda sönsum og mér líður vel með það, þá er það bara þannig. Held ég.

Aftur að brjóstakrabbameinskonunni sem er pottþétt í afneitun sem er náttúrlega alls ekki gott…

… eða hvað?

Afhverju samþykki ég ekki bara hennar aðferð til að tækla sínar eigin aðstæður? Hvað er ég að dæma það sem hún segir og hvernig hún hugsar?
Þetta er einmitt það sem fer svo í pirrurnar á mér, þegar einhver hefur neikvæðar skoðanir á minni aðferð til að takast á við mínar aðstæður. Eða þegar einhver ætlast til einhvers af mér sem ég vil ekki. Nýjasta dæmið er þegar við vorum að fara í sveitafélagsleikfimi… augnablik, var ég aldrei búin að segja ykkur að ég væri byrjuð í sveitafélagsleikfimi? Óbojóboj. Jú,ég byrjaði þar þegar krabbameinsleikfiminni á vegum sýslunnar lauk. Þá tók sveitin við og þetta er líka krabbameinsleikfimi og til allrar hamingju bara tvisvar í viku, einn klukkutíma í senn. Þetta er átta vikna prógramm og gratís. Þess vegna læt ég mig hafa þetta.

Jæja, við mættum fjórar í þessa leikfimi í gær; tvær með hár og tvær án hárs. Við án hárs vorum með leikfimishúfurnar okkar á höfðinu. Þá sagði ein með hár: takið bara af ykkur húfunar og verið berhöfðaðar, þið eruð svo sætar svoleiðis. Ég svaraði eitthvað á þá leið: Nej jeg beholder min på. Þá byrjaði hún að suða í okkur og hélt áfram að tala um hversu sætar við værum án húfanna, konan hefur aldrei séð okkur berhöfðaðar og veit því ekki hvernig við lítum út án. Þetta fór alveg svakalega í taugarnar á mér, reyndar var ég í vondu skapi fyrir og ekki batnaði það. Hún hætti ekki fyrr en hin nánast hvæsti á hana að henni væri skítkalt á höfðinu og ætlaði að vera með húfu. En sú suðandi með hárið meinti vel, mjög vel meira að segja.
Það getur verið heiglum hent að gera mér til hæfis og ég þarf sífellt að minna sjálfa mig á að sýna öðrum skilning gagnvart mínum aðstæðum. T.d. hvernig ég hefði brugðist við ef ég hefði verið „hinu megin.“ Allir meina svo vel og vilja svo vel, stundum er maður bara svo tens.

Annað dæmi:

-Hvernig líður þér Dagný?
-Bara vel, svara ég.
-Bara vel? Er það nú satt?

Kannski, kannski ekki. Ef ekki, þá gefur þetta svar skýrt til kynna að ég vil ekki ræða líðan mína. Kannski svolítið snubbótt en samt svar. Ég hef sjálf dregið svör fólks í efa, á nákvæmlega sama hátt. Og meint vel. Og ef svarið var sannleikurinn þá er það alls ekkert út í hött, því að manni getur auðveldlega liðið vel þrátt fyrir aðstæður.

-Dagný, þú mátt alveg gráta.
-Ég þarf ekki að gráta núna.
-En það er hollt að gráta.
-Það er óhollt að gráta ef ég þarf ekki gráta.

Ég veit ekki alveg hvert ég er að fara með þessu, líklega er bara best að stússast í þvotti þar sem sólin skín.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *