Haltur leiðir blindann.

(Þessi færsla var skrifuð í lok oktober en ekki birt fyrr en núna.)

Já haltur leiðir blindann…

Svoleiðis var það þegar við Fúsi vorum bæði í veikindaleyfi um daginn. Ég í löngu, hann í stuttu. Það var verið að laga eitthvað í hnénu á honum, ekki spyrja mig nánar út í það, ég veit sama og ekkert um hné.

Eiginlega verð ég að segja ykkar frá því þegar hann fór heim af sjúkrahúsinu. Aðgerðin var gerð í gegnum dagdeild, þ.e.a.s. hann fór heim samdægurs og bjóst hann við því að geta komið sjálfur út í bíl þegar ég myndi sækja hann. Stuttu áður en ég lagði af stað, hringdi hann þó og sagðist ekki mega labba sjálfur út á bílastæði. Ég þurfti sem sagt að fara inn og sækja hann. Og þið hefðuð átt að sjá þegar við hjónin trilluðum út af sjúkrahúsinu. Ég með klút um höfuðið sem er greinilegt lyfjameðferðarmerki, ýtandi honum í hjólastól! Hjón á besta aldri.

Ég gat ekki annað en hlegið.

Við vorum svo saman í veikindarleyfi en þegar líða fór á vikuna, var ég orðin hundleið á fábreytninni og skipulagði óvissuferð fyrir hnésjúklinginn. Á fimmtudeginum átti hann að standa, ágætlega vel tilhafður og snyrtilegur, tilbúinn klukkan 11:30. Við lögðum síðan af stað og út á hraðbrautina. Fúsi var alveg að springa úr spenningi. Það lá við að hann hossaði sér í framsætinu við hliðina á mér. Við fórum út af hraðbrautinni við Søgaardog það gerði ég viljandi til að villa um fyrir Fúsa því á hringtorginu þar, er bæði hægt að fara til Flensburgar og Aabenraa. Fúsi var svo spenntur að það ískraði í honum og þar sem ég get verið pínu kvikindi í mér, fór ég í þrjá hringi í hringtorginu. Og skemmti mér konunglega, eiginlega hló ég og hló og hló. Fúsi líka, minnir mig. Ég get svo svarið það, mér finnst alltaf jafn fyndið að fara hring eftir hring í hringtorgi – þegar ég keyri.

Leiðin lá til Aabenraa í hádegismat hjá Krabbameinsfélaginu. Þau voru með opið hús allan daginn og ýmsar uppákomur tilheyrandi því. Ég hafði valið hádegismatinn og fyrirlestur hjá presti um sorg og margvísleg afbrigði hennar.

Uppákoma þessi var beintengd krabbameinsvikunni sem haldin er ár hvert í Danmörku í viku 43 (22.-28. oktober í ár.) Í heila viku snýst allt um krabbamein og öllu því tengdu til þess að fræða almenning og safna peningum. Í ár söfnuðust 2.626.054.466,40 ISK. eða 141.895.200 DKR. Ég lá beinlínis ekki yfir þessu sjónvarpsefni í ár, sumt er einfaldlega of óþægilegt. Mér varð þó á, kvöldið áður en óvissuferðin átti að vera, að verða litið á sjónvarpið. Það var kveikt á svæðisfréttunum og þar var kona, um það bil allavega tuttugu árum eldri en ég, í viðtali. Hún er/var líka með krabbamein í eggjastokk og það var nokkuð langt komið þegar það uppgötvaðist. Líklega á fjórða plús stigi þó hún hafi ekki nefnt neitt stig. Ég geri bara ráð fyrir því samkvæmt lýsingunum. Mitt var á þriðja plús stigi. Svo endar hún viðtalið á að segja að níu af tíu hennar líkum fái bakslag, þ.e.a.s. fái krabbamein aftur. Ég greip fjarstýringuna og skipti yfir á barnatímann á RÚV. Vá hvað mér brá. Og vá hvað ég náði ekki að hugsa rökrétt í nokkra klukkutíma – eða réttara sagt, í næstum tvo daga. Níu af tíu? Hvers vegna hefur enginn sagt mér það? Ég fór að söngla bút úr laginu hennar Anne Linnet – ekki spyrja mig afhverju þetta lag, það bara kom:

Jeg ved at al min sidste tid skal leves,
jeg ved at tiden tæller hjertets slag,
at alt det vi har grædt igennnem livet
det svinder på en forårsdag
.

Ég fór síðan að fara aftur yfir jarðarförina mína sem ég skipulagði ágætlega í vor en ég kláraði ekki.

Ef ég gæti nokkurn veginn valið dánartíma, myndi ég vilja deyja að vori til. Þá eru svo mörg falleg blóm úti í náttúrunni sem hægt væri að skreyta kistuna og kirkjuna með. Já, eða að hausti til og nota haustlauf í skreytingarnar. Sjáið þið fyrir ykkur kirkjuganginn þakinn gulum, appelsínugulum, rauðum, ryðrauðum, ryðappelsínugulum og brúnum laufum? Eins laufum og sjást á myndunum frá þessari færslu? Það yrði stórkostlegt á að líta. Kistan yrði líka skreytt með haustlaufum og greinum, eða greinum með áföstum haustlaufum.
Ef ég færi að vori til, myndi ég velja bjartar raddir til að syngja, en ef það yrði að hausti til, yrðu þær dimmraddaðri. Allt yrði í þema; vor- eða haustþema. Við nánari umhugsun myndi ég reyndar velja haustið, það er dramatískara. Það yrði að vera þungbúinn dramatískur haustdagur.

Bensínstöðva- og Bilkablómvendir yrðu vinsamlegast afþakkaðir, sem og hefðbundnir keyptir og rándýrir kransar.

Hvar var ég annars áður en ég fór að skrifa um jarðarförina? Jú, við fórum á fyrirlestur hjá Krabbameinsfélaginu um sorg og margvísleg afbrigði hennar.
Ég tengdi ekki við allt á þessum fyrirlestri, síður en svo, en samt við eitthvað. T.d. við að vakna upp eftir saklausa aðgerð í Aabenraa 8. maí, þar sem þeir höfðu bara lokað mér aftur og sent mig í ferli þar sem ég var allt í einu orðinn krabbameinssjúklingur. Það er ákveðin sorg yfir því skal ég segja ykkur þó svo að ég ætti eftir að fara í aðra aðgerð þar sem allt yrði rannsakað. Niðurstöðurnar úr þeirri aðgerð komu mér ekki á óvart. Því upplifði ég ekki beinlínis sorg við fréttirnar um að þetta væri illkynja mein á ákveðnu stigi og að ég væri að fara í lyfjameðferð.
Ég hef ekki verið mikill gúgglari í þessu öllu saman, en ég væri alvarlega sjón- og heyrnaskert og ólæs ef að tölfræðin hvað varðar bakslag og þessháttar, færi algjörlega fram hjá mér. Þó svo að mínar aðstæður séu ekki þær sömu né alveg eins og konunnar í svæðissjónvarpinu. En samt getur tölfræðilegri vitneskju fylgt sorg þó svo að hún vari ekki lengi. Það er auðvelt að láta hugsanir (og vitneskju) hlaupa með okkur í gönur í þessum aðstæðum og það er í lagi að það gerist, svo lengi sem að við dveljum ekki of lengi í gönunum. Enda engin ástæða til ef marka má þá félaga Charlie og Snoopy þar sem Charlie segir: Einn daginn deyjum við öll Snoopy.
Það er rétt, en alla hina dagana gerum við það ekki,
svarar Snoopy.

3 Responses to “Haltur leiðir blindann.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *