Fjöldi samfélagsmiðla á sólarhringnum – Fjöldi mínútna í sólarhringnum

Afi: Hagaði skólinn sér vel í dag?
Nói litli: Það gerir hann næstum aldrei, kennarinn lét okkur skrifa stíl um hvað við vildum verða þegar við verðum stór.
Afi: Hvað skrifaðir þú?
Nói: Ég skrifaði að ég vildi einbeita mér fyrst að því að vera lítill.
Afi: Þetta er mjög gott svar.
Nói: Já er það ekki? Ég vil nefnilega frekar vera gamall en fullorðinn. Allir fullorðnir eru fúlir – það eru bara börn og gamlir sem hlæja.
Afi: Skrifaðir þú það?
Nói: Já.
Afi: Hvað sagði kennarinn?
Nói: Að ég hefði ekki skilið verkefnið.
Afi: Og hverju svaraðir þú?
Nói: Ég sagði að hann hefði ekki skilið svarið.

Þetta var lausleg þýðing upp úr bókinni Och varje morgon blir vägen hem längre och längre (2017) eftir Fredrik Backman.

Þann 17. nóvember 2017 hætti ég á Snapchat og hef ekki séð eftir því. Ástæðuna rakti ég í færslu sem hægt er að lesa hér. Ég var stödd í Bergen og á leiðinni upp á Ulriken (fjall) þegar tók ég endanlega ákvörðun og þvílíkur léttir sem það var á svo margan hátt. Ég hef ekki saknað Snapchat síðan að neinu ráði.

Í gær fór ég í göngutúr með Vask niður á strönd. Þegar ég kom heim, sagði ég við Fúsa að þetta hefði verið fallegasti göngutúrinn í lífi mínu. Þú segir það alltaf, svaraði hann. En nú meinti ég það, þetta var fallegasti og besti göngutúr lífs míns. Sjórinn var hreinn, sandurinn var hreinn, fjaran var hrein og loftið líka. Það voru sárafáir á ferli, aðallega fuglar og einstaka furðuverur. Þar á meðal var einn hlaupari á miðjum aldri. Hann var með heyrnatól í eyrunum og hann horfði bara beint fram fyrir sig og leit stöku sinnum á klukkuna. Líklega átt að vera kominn heim fyrir ákveðinn tíma. Ég fann svo til með honum því hann var að missa af öllu – hann virtist hvorki sjá né heyra í sólarlaginu. Kannski var honum alveg sama. Ég hefði hlaupið á eftir honum, pikkað í öxlina á honum og sagt: Hey vinur, þú ert að missa af öllu, ef ég væri ekki með læknisvottorð upp á að mega ekki hlaupa of hratt. Ég verð allavega alltaf mjög þakklát ef einhver pikkar í öxlina á mér ef ég er að missa af einhverju mjög mikilvægu. Ég gekk áfram og út að Klintinghoved, settist þar í fjöruna upp við stóran stein og fygldist með sólinni setjast. Þarna er aldrei nokkur mannvera og því friðurinn algjer – þarna er því engin sjón- né hljóðmengun.


Vaskur horfði líka á sólina setjast og þegar hún var sest fórum við aðeins að skoða steina, ég hélt í augnablik að ég hefði fundið raf en ég held að þetta hafi bara verið venjulegur steinn. Vaskur hefur nákvæmlega jafnmikinn áhuga á steinum og ég, sem er reyndar ekki mjög mikill áhugi en samt nógur til að horfa á og skoða steinana í fjörunni. Vaskur hefur reyndar nánast nákvæmlega sömu áhugamál og ég, eða réttara sagt; honum finnst allt sem að ég geri vera áhugavert. Nafnið Skuggi hefði hæft honum vel því hann víkur varla frá mér. Hann fylgist náið með öllu sem gerist á heimilinu, hann fylgist með mér mála mig, hengja upp þvottinn og þegar ég fer á klósettið. Hann rannsakar allt sem kemur inn fyrir dyrnar, skoðar með miklum áhuga ofan í alla poka og töskur, ásamt því að taka virkan þátt á sinn hátt í heimilisstörfunum. Um daginn tók ég til í sokkaskúffunni og við spjölluðum allan tímann. Hann hlustar á mig og kemur reglulega og faðmar mig á sinn hátt (þá þrýstir hann enninu fast upp að mér.) Það er eiginlega bara tvennt við mig sem honum mislíkar, annað er þegar ég fer í burtu frá honum og hitt er að honum sárnar ef ég horfi meira á skjáinn á símanum en á hann. Þannig að honum líkar ekkert sérstaklega við símann ef ég er bara að hanga í honum að óþörfu. Vaskur skiptir mig alveg rosalega miklu máli, ég hreinlega dýrka hundinn og það er mjög góð tilfinning að finna fyrir þessari einlægu athygli og áhuga frá honum. Þótt hann sé bara hundur.

Í gærkvöldi, stuttu eftir að við Vaskur komum heim úr göngutúrnum, fór ég í fótboltakjólinn minn (sem ég nota einungis þegar ég horfi á fótboltaleiki, ég hef notað hann einu sinni,) setti á mig svarta hárkollu og fór með fjaðrir í hendinni upp í stofu þar sem Fúsi flatmagaði á sófanum og spurði hann hvort ég ætti að vera með fjaðrir eða ekki?
Í afmælinu um næstu helgi? Vertu með fjaðrir, það er flottara, svaraði hann. Við erum að fara í fertugsafmæli um næstu helgi og það er ekki þema, en honum fannst samt alveg eðlilegt að ég færi í fótboltakjólnum, með svarta hárkollu og fjaðrir í venjulegt fertugsafmæli…

(Þarna sést fótboltakjóllinn, hann er skósíður)

En nei, múnderingin var ekki undirbúningur fyrir komandi afmæli heldur fyrir Instagram-myndatöku. Markmiðið er/var að nýta allar hárkollurnar mínar á meðan á skallaástandinu stendur og birta myndir af mér með þær á Instagram – svona upp á grínið. Í gærkvöldi dreif ég í því að taka mynd af sjöttu hárkollunni en þær eru níu talsins minnir mig.

Ég ætla nefnilega að hætta að nota Instagram daglega. Ég ætla að fjarlægja appið úr símanum mínum og ef mér langar til að setja út mynd, þá sæki ég appið, set út myndina, kíki á skilaboð og svara þeim og fjarlægi svo appið aftur samdægurs úr símanum. Þetta ætla ég að gera af svipaðri ástæðu og ég hætti á Snapchat. Samkvæmt upplýsingum í Skjátímanum (Screen Time) í símanum mínum, er ég að meðaltali 32 mínútur á Instagram á dag; horfandi á Instastory, spjallandi á spjallsvæðinu og skoðandi myndir. Oft er ég að þessu þegar ég er að bíða einhversstaðar eða bara þegar ég hangi með kaffibolla í annarra og símann í hinni. Vaski leiðist einmitt akkúrat þessi hegðun mín, hann rekur trýnið í mig ef ég týnist í símanum – og ég er orðin pakksödd… fyrir löngu. Ég finn að 95% af því sem ég sé, er ekki að metta neitt samfélagsmiðlahungur hjá mér, sem er eiginlega horfið – nema so67 instagrammarinn, ég fæ ekki „leið“ á honum og myndunum hans frá Kholmsk á eyjunni Sakhalin sem er í Okhotskhafi. Reyndar er ég ekki orðin leið á fólkinu á Instagram heldur er ég orðin leið á sjálfri mér fyrir að eyða tímanum í að skoða og horfa á nánast það sama aftur og aftur. Í staðinn gæti ég lesið fleiri bækur þar sem ég er með yfir 60.000 bækur í símanum mínum. Eða horft á Landann á RÚV ef ég verð fyrir því hræðilega óhappi að missa af honum. Eða horft út í loftið – það er nefnilega frábært og mjög slakandi.

Mér datt þetta í hug þegar Svala hringdi frá Guatemala með nýjustu fréttir fyrir nokkrum vikum síðan; hún var byrjuð að borða sveppi og var hætt á Instagram. Dætur mínar eru oftar en ekki mínar fyrirmyndir. Og ég reyni að vera ágætis fyrirmynd þeirra.

Ég fjarlægði líka Facebook úr símanum mínum um daginn því ég var að eyða álíka tíma þar og á Instagram, já það má segja að ég hafi farið hamförum og eini samfélagsmiðillinn sem lifði af þessa símahamfarahreingerningu var Messenger. Það eru nefnilega aðeins einhversskonar ofurhetjumanneskjur sem geta tæklað fleiri en tvo og alveg upp í sex samfélagsmiðla OG sinnt öllu öðru sem þær þurfa og langar til að sinna. Ég er ekki ofurhetjumanneskja og tel mig því aðeins geta valdið tveimur samfélagsmiðlum sem eru Messenger og Facebook (FB er þó bara í tölvunni.)
Þegar þessu var lokið, fór ég á bókasafnið og sótti mér bókina Positiv psykologi – positiv pædagogik og þaðan á fyrirlestur með Özlem Cekic um að byggja brýr. Ég bara nenni nefnilega ekki þessu hangsi lengur.
Þegar Fúsi kom heim í dag og spurði mig hvernig göngutúrinn okkar Vasks niður á höfn hafði verið, svaraði ég að þetta hefði verið besti göngutúr lífs okkar. Það sagðirðu líka í gær… og hinn og hinn og hinn, sagði hann.

Nói litli: Mér leiðist tónmennt í skólanum.
Afi: Það er í lagi NóiNói. Fólk eins og við erum með öðruvísi tónlist í okkur. (Afi kallaði Nóa oft NóaNóa því að hann elskaði hann svo mikið að það var ekki nóg að segja nafnið hans einu sinni.)
Nói: Og við þurfum alltaf að vera að skrifa stíla! Einu sinni vildi kennarinn að við skrifuðum um það sem okkur finnst skipta máli í lífinu.
Afi: Og hvað skrifaðir þú?
Nói: Félagsskapur.
Afi: Þetta er besta svar sem ég hef heyrt.
Nói: Já en kennarinn sagði að svarið mitt ætti að vera lengra.
Afi: Og hvað gerðirðu þá?
Nói: Ég skrifaði: Félagsskapur. Og ís.
Afi hugsaði sig lengi um og spurði svo: Hvernig ís?
Nói hlær. Það er gott að einhver skilur.

Þetta var einnig lausleg þýðing upp úr bókinni Och varje morgon blir vägen hem längre och längre (2017) eftir Fredrik Backman.

 

 

 

 

 

 

One Response to “Fjöldi samfélagsmiðla á sólarhringnum – Fjöldi mínútna í sólarhringnum

  • Þín er sárt saknað á Snapchat. Þú varst eini snapparinn sem ég mátti alls ekki missa af og lang skemmtilegust. En ég virði það algjörlega og skil vel að þú hafir hætt. Kannski ég taki þig til fyrirmyndar og hætti á snappi, Instagram og Twitter 🙂 Miklir tímaþjófar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *