Símamet og -menning ásamt sláandi tölfræði.

Í dag talaði ég í símann í 198 mínútur. Það eru þrír klukkutímar og 29 mínútur. Ég talaði við sex manneskjur; fimm Íslendinga og einn Dana.
Þetta er algert met! Enda gerði ég lítið annað allan daginn. Ég rétt náði að fara í umbúðaskiptingu, setja í þvottavél, fara út með Vask, hengja upp úr vélinni, fara í bosníska blindranuddið, elda matinn og fara á fyrirlestur. Ég náði ekki einu sinni að horfa á einn The Office (US) þátt sem þó aðeins tekur tuttugu mínútur. Samt var þetta hinn ágætasti dagur, veðrið var fallegt og símtölin sallafín.

Myndin er úr Pin-up verkefni Pink Ladies hópsins okkar. Módel: Sólveig Harpa Kristjánsdóttir. Ljósmyndari: Pato Soto.

Í dag eru fjögur ár síðan Áskell pabbi dó úr lungnakrabbameini.

Svona nákvæmlega var veðrið þá. 

Ég á þrjú systkini og öll höfum við misst foreldri úr krabbameini. Tvær mæður og einn faðir auk einnar skáömmu barnanna okkar lifa nú í minningunni. Eða eru í Nangijala eins og mér finnst svo falleg hugsun eftir að ég las Bróðir minn Ljónshjarta í biðinni í vor. Færslan um það er hérna.
Eflaust fannst einhverjum þetta foreldrareikningsdæmi óskýrt hjá mér, ég skil það vel. Ég á þrjú hálfsystkini og ekkert af þeim eru alsystkini og til að auka á ruglinginn, þá eru sum af þeim ekki einu sinni systkini. Og sum af þeim eiga önnur systkini sem eru líka hálfsystkini, en eru ekki systkini mín. Þetta fjölskyldufyrirkomulag hefur hentað mér mjög vel og sérstaklega er ég þakklát fyrir að hafa fengið að deila pabba með hálfbróður mínum því að þá græddi ég auka pabba. Fúsa fjölskylda er meira eftir bókinni, þar eru systur hans alsystur hvor annarrar og Fúsi albróðir beggja. Mamma þeirra er líka góð minning og kannski eða vonandi í Nangijala. Hún dó úr krabbameini.
Ef farið væri út í tölfræðina, hvaða rugl væri þetta þá?

Í kvöld fórum við Fúsi á fyrirlestur þar sem meðalaldurinn var 71 ár og ef við Fúsi hefðum ekki verið þarna, eða ef ég hefði ekki verið þarna, hefði meðalaldurinn verið 84 ár. Fyrirlesturinn var góður en það mest áhugaverða var samt snjallsímamenningin í salnum. Fólkið var að fá svo mörg SMS, tölvupósta, skilaboð á messenger eða tilkynningar um að nú ætti viðkomandi að gera í krossgátusímaleiknum, að ég átti bara ekki til orð. Þetta eldra fólk sko, það er aldrei lognmolla í kringum það. En fáir höfðu sem sagt slökkt á símanum eða sett á hljóðlausa stillingu. Og engin sagði neitt. Kannski er eldra fólk slakara gagnvart slíku en við hin yngri sem fáum nánast einhverskonar kast ef einhver gleymir að slökkva í svona aðstæðum. Kannski vegna þess að eldra fólk er almennt slakara eða kannski vegna þess að þau heyra ekki í símanum þegar hann er í meira en 50 sentimetra fjarlægð frá eyrunum. Fúsi heyrir nú reyndar heldur ekki baun – eða ég tel hann vera með verulega skerta heyrn, þó að hinir ýmsu heyrnalæknar sem að ég hef sent hann til, segi annað. En hann heyrði þó í símtækjum eldriborgaranna og komu hnyklar í brúnirnar á honum og þarf mikið til.

Þessir gamlingjar sko.

Talandi um gamlingja; ég mæli með bókinni eftir Fredrik Backman sem heitir „Och varje morgon blir vägen hem längre och längre“. Ég fann ekki íslenska titilinn en veit að Fredrik er þýddur á íslensku og er frekar vinsæll á Íslandi held ég. Þessi bók er svo hugljúf og fallega skrifuð.

 

2 Responses to “Símamet og -menning ásamt sláandi tölfræði.

  • Margrét
    6 ár ago

    Þarf að nálgast þessa bók .Takk fyrir ábendinguna. Gangi þér áfram með það sem þú ert að gera. Knús frá mér sem verð alltaf jafn fegin að sjá pistlana þína.

  • VIGDIS SÆUNN INGOLFSDOTTIR
    6 ár ago

    Frabært að skulir einmitt vera að skrifa um þetta núna. Eg var einmitt að hugsa um það eftir að þið fóruð á miðvikudagskvöldið hvað þetta hafi verið yndislegur kvöldverður. Það var m.a annars út af því að það sást enginn sími allt kvöldið. Allir voru til staðar 🙂 Engin sms eða samtöl. Þetta er bara orðið svo sjaldgæft í dag að maður tekur eftir því. gátum bara talað saman og létum ekkert utanaðkomandi trufla okkur….enda frábær félagskapur <3

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *