Leikfimisvottorð?

Í gærkvöldi var salat í matinn sem innihélt rifnar rauðbeður. Fúsi mundi ekki hvaða grænmeti þetta væri nákvæmlega og spurði því. Ég svaraði að þetta væru rauðbeður. Já alveg rétt, sagði Fúsi, en hvað heitir þá þetta sem var í gær?
Það var rauðkál, svaraði ég. En stóðst ekki mátið og bætti við: En yfirleitt kallað Rauðhetta hérna í Danmörku vegna þess að þegar kálinu er flett í sundur er það kúpt eins og hetta. Já ókei, sagði Fúsi og hélt áfram að borða.

Ég hef steingleymt að leiðrétta þetta og í guðana bænum kæru lesendur, ekki segja neitt ef Fúsi fer einhvern tímann að tala um Rauðhettu í sambandi við salöt.

Um daginn sátum við límd upp við hvort annað í sófanum að horfa á Útsvar (spurningarþáttur á RÚV) og fékk annað liðið spurningar tengdar nafninu Fúsi. Ég man bara eftir tveimur en sú fyrri var hver höfundur Fúsa Froskagleypirs væri. Í þeirri seinni áttu þau að botna fyrsta erindið í laginu Dagný eftir Sigfús. Finnst ykkur það ekki rómantískt? Við tvö að horfa og þá kemur þessi spurning…

Annars fór ég til læknis í gær, hann vildi vera viss um að það væri í lagi með mig. Ég spurði í leiðinni hvort ég gæti fengið vottorð í leikfimi. Hann spurði hvers vegna. Ég ákvað að sleppa því að segja að ég nennti ekki að mæta í þessa leikfimi, að mér finndist bara ekki gaman. Ég vildi heldur ekki segja að nokkur þarna púla svo mikið að þau svitna og það finnst mér ógeðfellt (ég er á sýklalyfjum og stundum hálfóglatt.) Svo koma þau og vilja spjalla og mér finnst ofboðslega vandræðalegt þegar ég byrja að kúgast um leið og ég reyni að halda uppi samræðum.
Nei, ég rökstuddi vottorðið bara með lágu blóðrauðagildi almennt. Lækninum fannst það nú engin afsökun, lyfti upp peysunni minni til að athuga hvort maginn væri orðinn eins og þvottabretti og sagði að ég ætti örlítið eftir í land. Þannig að hann meinti að ég hefði bara gott af að lyfta járnum en ráðlagði mér jafnframt að fara varlega og mjög rólega í lyftingarnar og alls ekki að svitna. Ég lofaði því auðveldlega.

Í dag mætti ég síðan í leikfimina, tíu mínútum of seint reyndar því ég lenti á kjaftatörn símleiðis til Reykjavíkur. En það var í lagi mín vegna. Þegar ég var búin að lyfta flestum járnunum, fór ég að gera magaæfingar því ég ætla að smella í kjólinn fyrir jólin og þá er ég ekki að tala um kjólinn sem er í sniðinu eins og kartöflusekkur. En ég var varla búin að gera fjórar magaæfingar þegar sjúkraþjálfarinn kallaði okkur saman og sagðist ætla að enda tímann á spurningaleik. Ég elska spurningaleiki! Ef leikfimin heldur svona áfram þá þarf ég ekkert vottorð.

P.s. ef ég verð eitthvað heima við á morgun, geri ég kannski spurningaleik hérna á blogginu, svo ekki fara langt.

 

 

One Response to “Leikfimisvottorð?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *