Spurningagetraun 1X2

Spurningaleikurinn í leikfiminni sem ég skrifaði um í síðustu færslu, var í formi 1X2 getrauna. Ef svarið var 1, áttum við að fara í hnébeygjustöðu. Ef svarið var X, áttum við að fara í plankastöðu á höndunum og ef svarið var 2, áttum við að standa á tám og teygja okkur eins langt til himins og mögulegt var. Þó voru takmarkanir á þeim teygjum því við vorum innandyra og það er þak á leikfimissalnum.

Í tilefni aðventunar ætla ég að bjóða ykkur upp að spreyta ykkur líka og ef þið eruð spurningaleikjasjúklingar eins og ég, er ykkur velkomið að svara í athugasemdarmöguleikanum hérna neðst í færslunni. Talandi um þann möguleika; af öllum möguleikum fyrir kveðjur, skilaboð og athugasemdir, þá finnst mér skemmtilegast að fá slíkar beint á bloggið, vegna þess að það er eini staðurinn þar sem þær varðveitast að eilífu.

Ég var neydd til að skifta út þremur spurningum því það væri ósanngjarnt að spyrja Íslendinga að því hvar og hvenær fyrsti aðventukransinn var hengdur upp í Danmörku. En það var árið 1915 í Aabenraa kirkju. Eða hver hefði leikið Oluf Sand í The julekalander. Nei slíkar spurningar eru ekki sanngjarnar fyrir Íslending sem aldrei hefur búið í Danmörku.

En hefjum þá leikinn.

1. Hver fann upp flettaða jólahjartað, þetta rauða og hvíta? 

1 Charles Dickens
X Astrid Lindgren
2 Hans Christian Andersen

2. Hvernig hefst jólaguðspjallið?

1 Um nótt eina í stórhríð, stóð Jesús með klakahrím í skeggi og horfði til himins…
X En það bar til um þessar mundir…
2 Nótt eina í Betlehem, lá kona nokkur fáklædd og sveitt…

3. Frá hvaða landi er sú rómantíska hefð, að kyssast undir mistilteini?

1 Englandi
X Þýskalandi
2 Bandaríkjunum

4. Við Íslendingar borðum kleinur allan ársins hring en það gera Danir ekki og tengja þær við jólin. Þannig að spurningin meikar sens og er: hvaða jólabakkelse er elst?

1 Kleinan
X Gyðingakakan
3 Piparkakan

5. Þann 13. desember er Heilögu Lúsíudagurinn haldinn hátíðlegur í Svíþjóð með söng og (skrúð)göngu. Aldís var einu sinni Lúsía sem þýðir að hún gekk fremst með logandi kertakrans á höfðinu. Við Fúsi urðum hrærð. 
Heilaga Lúsía var verndardýrðlingur fyrir: 

1 Heyrnaskerta
X Sjónskerta
2 Mállausa

6. Hvað hét jólasveinninn upphaflega? 

1 Heilagur Knútur
X Heilagur Júlíus
2 Heilagur Nikulás

7.  Þetta hafði ég ekki hugmynd um en hvað er Lametta?

1 Jólaskraut
X Spænskur jólaréttur
2 Danska Grýla

8. Hvað þýðir orðið Engill?

1 Fljúgandi barn
X Sendiboði
2 Barn Guðs

9. Hverjir kenndu Dönum að drekka jólaglögg?

1 Svíarnir
X Þjóðverjarnir
2 Englendingarnir

10. Hvurslags landsmaður var sá sem sendi fyrsta jólakortið árið 1843?

1 Frakki
X Englendingur
2 Þjóðverji

11. Hvaðan kemur aðventukransinn upphaflega? 

1 Þýskalandi
X Danmörku
2 Prússlandi

12. Nasistar áttu í mestu vandræðum með jólin og reyndu að breyta og aðlaga þeim að sinni hugmyndafræði. Hvað af eftirtöldu er rétt?

1 Þeir reyndu að banna stjörnuna á toppi jólatrésins og leyfðu hakakrossinn í hennar stað.
X Þeir reyndu að banna þýska jólasveininn sem heitir Heilagur Nikulás og vildu í staðinn hafa Óðinn úr Norrænu goðafræðinni.
2 Þeir vildu að fólk stæði þráðbeint með annan handlegginn þráðbeinan á ská út í loftið þegar jólalög og sálmar væru sungnir.

13. Það hafa verið ljós á jólatrénu í næstum 400 ár en hver var sá fyrsti til að setja rafmagnsljós á jólatréð?

1  Grover Cleveland, nemandi Thomas Edison
X Gilbert Greenbean, frændi Thomas Edison
2 Edward Hibberd Johnson, vinur Thomas Edison

8 Responses to “Spurningagetraun 1X2

 • Sesselja
  6 ár ago

  Ég er bæði búin með Crossfit í hádeginu og yogatíma í kvöld svo ég get bara ekki tekið þátt í þessu ?

 • Ásdís
  6 ár ago

  Uss uss, gat svarað einni spurningu

 • Drífa Þöll
  6 ár ago

  Omg…þetta er erfitt og ég stóðst freistinguna að gúggla allt sem ég vissi ekki (sem var eiginlega allt) En hér eru svörin:
  1. 2
  2. X
  3. 2
  4. 3 😉
  5. X
  6. 2
  7. 2
  8. X
  9. X
  10. 1
  11. 2
  12. 1
  13. 1
  Þar sem þetta er næstum allt gisk þá hlakka ég til að sjá rétt svör. Það væri gaman að geta slegið um sig með svona vitneskju 🙂

 • Ég þakka þátttökuna í spurningagetrauninni minni. Allt ætlaði um koll að keyra, kerfið hrundi og færri komust að en vildu.
  Sárafáar kvartanir bárumst um að getraunin hefði verið erfið, en síðan hvenær á allt að vera auðvelt? 😉

  Svörin koma hér:
  1. H.C. Andersen flettaði fyrsta jólahjartað í gulu og grænu árið 1860.
  2. Jólaguðspjallið hefst: Og það bar til um þessar mundir…
  3. Englendingar byrjuðu að kyssast undir mistilteini.
  4. Kleinur eru elsta jólabakkelsið.
  5. Heilaga Lúsía er verndardýrðlingur fyrir sjónskerta.
  6. Jólasveinninn hét upphaflega Heilagur Nikulaus og var að mig minnir munkur.
  7. Lametta er jólaskraut.
  8. Engill er sendiboði
  9. Svíar kenndu Dönum að drekka jólaglögg eins og það er drukkið hérna. (Ég hélt að það væri þýskt.)
  10. Englendingur bjó til og sendi fyrsta jólakortið.
  11. Aðventukransinn kemur frá Þýskalandi.
  12. Nasistar vildu Óðinn í stað jólasveinsins.
  13. Sá fyrsti til að setja rafmagnsljós á jólatréð var vinur Edisons, Edward Hibberd Johnson. (Grover Cleveland var forseti USA.)

 • Ingunn Eiríks
  6 ár ago

  Sko nú er ég bara að vinna mig í gegn um blogg síðustu daga og giskaði á allt og stóð mig rosalega illa en Jón Ingi stóð sig verr svo ég tel mig bara hafa unnið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *