Út út út

Við komum heim í gærkvöldi eftir frábæra Íslandsferð.
Þó var eitt sem var miður gott og var að gera mig nettgeggjaða en það var vöntun á einhverri útivist að ráði. Eina útivistin í fimm daga, var inn og út úr lest, flugvél, bíl og húsi. Veðrið á suðvesturhorni Íslands var að meðaltali átta stiga hiti, sjö metrar á sekúndu og rigning. Nákvæmlega eins og hérna í Sönderborg, svo að í rauninni var ekkert að veðri – við vorum bara svo bissí! Við hittum fólk í hollum og stundum voru fjögur holl á dag. Fatnaðurinn sem var meðferðis var af skornum skammti og alls ekki vatnsheldur. Svo var líka svo dimmt. Við Fúsi vorum bæði búin að gleyma hversu dimmt getur orðið á Íslandi og slík var gleymskan að við höfum í nokkur ár sagt við Danina: „Ha, dimmt á Íslandi á veturnar? Nei alls ekki, ekkert dimmara en hérna…“ En það er bull, það er rosalega dimmt og við sváfum stundum til klukkan tíu á morgnana því að við héldum að það væri hánótt. Því fór öll möguleg útivist fyrir ofan garð og neðan.

Ég gat ekki beðið eftir að komast út í dag. Mér var orðið illt í öllum tánum, hægri ökkla, vinstri kálfa og báðum lærunum strax á jóladag. Ég hef heyrt um fólk sem fer stundum ekki út fyrir hússins dyr í marga daga yfir hátíðarnar og liggur bara í sófanum. Á því hef ég lítinn skilning.
Veðrið í Sönderborg í dag var átta stiga hiti, sjö metrar á sekúndu og mígandi rigning. Ég sagði við Fúsa að ég nennti ekki í skóginn heldur vildi ég fara á opnustu og lengstu ströndina í nágrenninu, þar sem blæs svo vel. Það er Kærneland. Sama þótt Vaskur yrði allur út í sandi sem og skórnir okkar og buxur. Enda hef ég alltaf tekið skemmtun fram yfir skít. Sem minnir mig á þegar við fluttum til Danmerkur og uppgötvuðum og upplifðum strandlífið. Það var sól dag eftir dag, eitthvað sem ég var að sjálfsögðu vön að austan en hita í þessum mæli var ég ekki vön. Ég forgangsraðaði auðvitað ströndinni (skemmtuninni) og íbúðin okkar safnaði á meðan sandi (skít) því að veðrið gat hætt að vera svona gott hvenær sem var. Þannig var þetta eiginlega í nokkur ár, ég vildi nýta góða veðrið og því var lítinn mun að sjá á ströndinni og íbúðunum sem við bjuggum í, hvað sandmagnið varðaði.

Skemmtun fyrst, skítur svo. Alltaf.

Göngutúrinn í dag var meiriháttar stórkostlegur, ferskur og ilmaði af þara og salti. Ég ætla, þegar ég fer að sofa í kvöld, að biðja æðri máttarvöld um rok og rigningu á morgun. Það er best.

 

2 Responses to “Út út út

  • Drífa Þöll
    9 mánuðir ago

    Endilega kíktu til Eyja að vetri til. Hér er eiginlega alltaf rigning og rok…þegar ég hugsa um það þá eru sumrin voða svipuð vetrinum…vertu velkomin hvenær sem er ársins! 🙂

    • Hahaha Drífa.
      Ég elska reyndar að búa í landi þar sem árstíðirnar fjórar eru greinilegar. Það eru þær ekki á Íslandi… En takk! Ég á einhvern tímann eftir að þiggja þetta heimboð <3

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *