Fæstir velja sér stéttina.

Lokaorð Austurgluggans 6. desember 2018.

Það er mannlegt hlutskipti að þrá einn daginn af alhug, bíða annars með skelfingu. Er því hver dagur ávallt öðrum líkur, en um leið öllum hinum ólíkur. Jafnvel sá dagur er rennur upp yfir lifendur samtímis, er engum tveim þeirra hinn sami. Svo margt er sinnið, svo misjafnt kjörum skipt.

Textinn er úr bók Gunnar Gunnarssonar; Svartfugl, sem að ég var að lesa núna á dögunum í skammdeginu í Danmörku. Undanfarið hefur veðrið verið hráslagarlegt; rigning, vindur og kæling allt niður í mínus fjórar gráður. Það truflar mig reyndar ekki, ég klæði mig í ull frá toppi til táar og í góða úlpu yfir þegar ég fer út til að viðra Fúsa og hundinn og við njótum útiverunnar.
Í morgun fór ég út í sveit til vinkonu minnar til að borða með henni morgunmat. Á leiðinni keyrði ég fram hjá fjórum risavöxnum og snögghærðum hrossum á beit úti á túni og hugsaði ég með mér að það væri alltof kalt fyrir svona hross að standa úti í slíkri kælingu. Ef að það hefðu verið íslenskir loðinbarðar, hefði ég ekki lyft augabrúnunum upp undir hársrætur. Ég sá ekki hvort þeir höfðu aðgang að skjóli en ég vona það. Það er bara almennt alltof kalt til að menn og málleysingjar séu ílla klæddir úti á þessum árstíma og það á eftir að verða kaldara.

Í nýútkominni bók, Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur, svaf aðalpersóna bókarinnar, Björg á bakvið öskutunnur, aðeins með skjóllítið teppi yfir sér. Hún var krókloppin að innan sem utan, vafrandi alein um götur Reykjavíkur, í gauðrifnum og götóttum fötum, 49 ára gömul.
Strax í móðurkviði sköpuðust skjóllausar aðstæður fyrir Björgu þar sem móðirin hefur af einhverjum ástæðum verið illa í stakk búin til að ganga með barn og áfengið flæddi því um naflastrenginn og í viðkvæmt fóstrið. Björg fæddist árið 1959 og strax á barnsaldri átti hún erfitt uppdráttar og þegar hún síendurtekið hrasaði og datt, var engin til að grípa hana og allra síst kerfið. Á þessum tíma, fyrir aðeins 30-40 árum síðan, voru vandamál og ljótir atburðir alltof oft þaggaðir niður.

Sem betur fer er tíðin önnur í dag og úrræðin fleiri. En samt sem áður er kjörunum enn mjög misskipt og af einhverjum völdum á alltof margt fólk samastað á götunni.
Þegar við göngum fram hjá sofandi „hrúgu“ á kaldri stétt, liggur líklega ein „Björg“ þar undir sem hefur dottið í lífinu og ekki verið gripin. Manneskja með sögu, sem þráir hlýju, kærleik og jafnvel börnin sín. Manneskja sem á sér von um betra líf, því að köld og skjóllaus stéttin er svefnstaður sem að fæstir velja sér.

Svo margt er sinnið skrifaði Gunnar. Hugsanir fólks og tilfinningar eru misjafnar eins og þær eru margar og því getur manneskjan sem býr í góðu skjóli þráð morgundaginn af alhug því hún hlakkar til hans og allra þeirra alsnægta sem honum fylgja, á meðan önnur manneskja þráir að lifa nóttina af og að upplifa morgundaginn, þrátt fyrir að eiga ekki neitt og engan að. Bækur eins og Manneskjusaga, sem að segja sögur fólks, minna okkur oft á að staldra við og að vera þakklát fyrir það sem að við höfum, en gætum við gert meira? Gott samfélag byggir sig varla sjálft.

3 Responses to “Fæstir velja sér stéttina.

 • Ásdís frænka
  5 ár ago

  enn og aftur elsku Dagný frænka, þú ert dásemd,

 • Falleg skrif. ? Þessi bók er komin á listann yfir bækur að lesa 2019. ?

 • Fanney Ingadóttir
  5 ár ago

  Þú ættir að skrifa bók, kannski hefur þú gert það…en ég er sammála þér og vona að ég megi staldra oftar við og finna þakklæti, bæði í eigin lífi og sem áhorfandi í annarra. Gangi ykkur vel!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *