Jólin 2018
Mig langaði til að impra örlítið á jólunum í ár. Bara örsnöggt.
Ferðalagið hófst á Þorláksmessu, við tókum lestina frá Flensburg til Hamburgar og þið vitið flest hvernig þetta er, maður stígur upp í lest, út úr lest, finnur næstu lest og stígur inn í hana. Allt svo sjálfsagt og hversdagslegt þannig séð. Eitthvað sem við bara gerum án þess að spá mikið í því sem við gerum. Nema hvað þegar ég kom út úr lestinni á Hauptbahnhof (aðalbrautarstöðinni) í Hamburg, greip mig svo sterk frelsistilfinning að mig langaði til að fara að skæla. Ég stóð og andaði að mér köldu brautarstöðvarloftinu og aldrei á ævi minni hefur mér liðið svona vel á járnbrautarstöð. Aldrei.
Þetta var fyrsta ferðalagið síðan í apríl eða í næstum átta mánuði.
Ég naut þess líka að vera á flugvellinum í Hamburg, líka þótt Fúsi yrði pínu pirraður á að ég finndi fyrir gegndarlausu hungri og yrði að fá mér að borða á leiðinni út að hliði og það glumdi í hátölurunum: Lokaútkall í vélina til Íslands… bla bla bla… Hann varð eitthvað stressaður en ég sagði, blessaður vertu, þau eru ekki farin að kalla upp nöfnin okkar ennþá.
Síðan komum við að hliðinu og það var allt opið og við fórum í gegn og þá lokaðist það. Ég naut þess líka óvenjumikið þegar vélin fór í loftið og ég þrýstist í sætisbakið. Það er og verður alltaf uppáhalds hlutinn í flugferðum. Á Þorláksmessu var það meiriháttar.
Í þessari Íslandsferð varð okkar ástkæra Austurland að lúta í lægra haldi fyrir suðvestur horninu, því tíminn var naumur. Við ætluðum bara að stoppa í örfáa daga og heimsækja þrjá kaupstaði; Keflavík, Kópavog og Hafnarfjörð.
Við gistum í Svítunni í Keflavík og nú hugsiði örugglega öll með ykkur – Já gisti hún hjá Lille bror? Nei, þó svo að íbúðin hans Magga sé líka svíta þá er Svítan í Keflavík íbúðagisting og gistiheimili og er þetta í annað sinn sem við gistum þar. Og vá hvað það er þægilegt. Alveg niður í miðbæ, stutt frá Magga bróðir, stutt frá flugvellinum og örugglega stutt frá sundlaug.
Aldís kom líka heim til Íslands og því hreiðruðum við þrjú um okkur í Svítunni (linkur á nafninu.)
Mamma og Snotra komu að austan og pabbi kom að norðan. Elva Rakel systir og Aron komu úr Kópavoginum og öll sameinuðumst við í íbúðinni hans Magga lille bror á aðfangadagskvöld. Ég verð nú að viðurkenna að ég lét allt matarstúss og tilheyrandi ábyrgð í hendurnar á öðrum og einu kröfurnar sem ég gerði voru að ég myndi ekki svelta í hel. Sem var harla ólíklegt.
Eins og vinnumaurahersing, fluttum við okkur öll yfir til Elvu Rakelar í Kópavogi á jóladag, þar sem hún galdraði fram ilmandi* hangikjöt á meðan pabbi bjó til dýrindis salat sem heitir Allt sem til er í Bónus a la Sæsi spes.
*Hún er víst enn að ná ilminum úr íbúðinni fimm dögum seinna. Mér finnst það ekkert fyndið. Alls ekki…
Aftari röð f.v. Mamma, Viktor, ég, Fúsi, Lille bror, pabbi, Aron, Elva Rakel litla systir.
Fremri röð f.v. Aldís, Snotra (í fanginu á Aldísi) og Daníel.
Maggi skrifaði m.a. á sitt Facebook einhvern tímann eftir miðnætti á Aðfangadagskvöld: „Hef ekki hugmynd um hvernig tókst að halda jólin heima hjá mér með öllu þessu fólki… Vísu allt mjög gott fólk (takk fyrir að taka það fram Maggi.) En þetta reddaðist allt saman með nettu kæruleysi, ótrúlegum hæfileikum og útsjónarsemi. Fann t.d. ekki könnu undir gos þannig að ég skar ofan af 2l flösku, setti jólapappír á hana og bræddi svo brúnirnar með eldi til að fá mýkt í hönnunina…“
Þegar allt kemur til alls er það nefnilega ekki goskannan sem á að innihalda jólaölið sem skiptir máli, heldur félagsskapurinn.
Ég fékk æðislegar jólagjafir og alveg heilan helling. T.d. fékk ég:
- Hið heilaga orð eftir Sigríði Hagalín (er að verða hálfnuð og hún er rosalega góð)
- Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason
- Svo gaf ég sjálfri mér Ungfrú Ísland eftir Auði Övu þegar ég var stödd í Pennanum í Leifsstöð.
- Kærleikskúluna 2018
- Hálsfesti
- Ilmolíulampa. Við heimkomu setti ég strax vatn og ilmolíu í hann og stillti honum út í stofuglugga og kveikti á. Stuttu seinna var bankað og Fúsi og Vaskur varðhundur fóru til dyra. Það var einhver maður sem sagðist hafa farið húsavillt. Eftir aðra stutta stund var aftur bankað og aftur sama sagan nema annar maður að fara húsavillt. Kvöldið eftir endurtók sagan sig; það var bankað, Fúsi og Vaskur fóru til dyra og sá sem bankaði sagðist hafa farið húsavillt. Eftir sjötta bankið fór ég að sjá mynstur í bankinu. Ilmolíulampinn skiptir nefnilega litum og í hvert sinn þegar rauði liturinn lýsti, var bankað. Ég færði lampann úr glugganum.
- Hunang
- Miða á balletsýningu (Svanavatnið)
- Ilmkerti
- G.J. sófateppi frá vinnunni hans Fúsa. Allt sem vinnan hans Fúsa gefur honum er okkar beggja.
Jólin okkar í ár einkenndust á að þiggja veitingar hjá öðrum og hitta fólk. Stundum sama fólkið aftur og aftur og stundum nýtt fólk. Annar í jólum var t.d. svona: Furugrund-Hraunkambur-Suðursalir-Heiðarbraut.
Þriðji í jólum var svona: Heiðarbraut-Krydd (veitingarstaður)-Pallett (Kaffihús)-Heiðarbraut-Thai veitingarstaður í Keflavík sem ég man ekki hvað heitir-Heiðarbraut.
Þetta voru góð jól þar sem systkini mín fengu að njóta sín* sem gestgjafar og maginn á mér var fylltur hvað eftir annað eins og áramótakalkúnn.
*Þetta eru mín orð og mín upplifun að systkini mín hafi notið sín sem gestgjafar. Allavega fannst mér æðislegt að vera gestur hjá þeim, borða hreindýrasteik og spila við fjölskylduna.
Ég þurfti að klippa af höfðinu á Fúsa til að koma hundinum fyrir á myndinni.
Ef ég tel rétt þá hittum við 27 ættingja og vini. Já ég tel Snotru hundinn hennar mömmu með því að hún er af holdi og blóði eins og aðrir og alveg óhemju gáfuð.
Ferðalagið var alveg passlega langt og þegar fjórði í jólum rann upp var ég farin að þrá að komast aftur heim. Enda var ég eins og kornabarn í fluginu og í lestinni, hélt tæpast haus og svaf bara.
Kæra fjölskylda, vinir og lesendur. Takk fyrir jólin.
Ég skelli hló yfir lendingunni af banninu og rauða lampanum
Helvítis Síminn breytir orðunum það átti að standa þarna setningunni og bankinu