Sumt fólk er bara alltof langt í burtu. Stundum veldur fjarlægðin krömpum í bæði hjartanu og þörmunum. Andardrátturinn verður órólegur og allt verður grátt. Samt gerir maður ósköp lítið til að minnka þessa tilfinningu, t.d. með að taka upp símann og hringja. Eða skella sér oftar til ískalda skersins með öllu fallega fólkinu. Neibb, best að halda bara áfram að finnast fjarlægðin yfirþyrmandi.

Og best að halda áfram að pirrast yfir öllum grúbbuboðunum og síðutillögunum á facebook. Hvernig dettur ykkur í hug, kæru vinir mínir, að ég vilji vera með í grúbbu um skraut á skó??? Og hvað þá vinna skraut á skó??? Ég afþakka, þá er mér boðið aftur, ég afþakka það líka og þá er mér bara boðið enn aftur. Og líka að vera með í dýraleik, star warsleik og halloweenleik. Einnig hefur mér verið boðið að vinna sjónvarp og utanlandsferðir til Tunis eða e-ð álíka… En samt sem áður er ég rosalega þakklát fyrir að það sé munað eftir mér og að mér sé boðið að vera með! Finnst hrikalegt að vera skilin eftir útundan á 35 ára aldri!

Mér finnst alveg fínt að vera boðið að vera með og gerast aðdáendi ýmislegra handverksíðna… þótt mér finnist 90% af þessu alveg hrikalega ljótt og myndi aldrei kaupa mér, gefa einhverjum eða ganga með þetta sjálf. Þessvegna afþakka ég bara án þess að verða pirrípí. Og ber áfram mikla virðingu fyrir öllu þessu handverksfólki sem þrælar með blöðrur og sigg á puttunum við að gera allt þetta ljóta dót. Og nú vil ég minna á, til að særa sem fæsta, að mér finnst alveg 10% rosa flott og geng með eitt stykki (Sæja design) sem fer mér svakalega vel 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *