Eftirlit númer 2.

Í þessum skrifuðu orðum er ég á leiðinni með ferjunni yfir á Fjón. Leiðin liggur í eftirlit númer tvö hjá krabbameinslæknunum á OUH (Odense.) Í þetta skipti bara til að fá svar úr blóðprufu. Eitthvað sem ég veit sjálf og hef vitað síðan kl. 13:47 á mánudaginn. Í dag er miðvikudagur. Svarið úr blóðprufunni er ellefu. Það er fínt svar.

Ég hafði voðalega lítið velt þessu eftirliti fyrir mér, þangað til ég var spurð fyrir rúmri viku síðan, hvort ég væri hrædd. Nééé svaraði ég. En nokkrum dögum seinna varð ég smá smeyk, sérstaklega þegar dánartilkynningarnar komu eins og eldur í sinu, inn á Facebook-hóp sem ég og margar aðrar kynsystur mínar erum í, allar með- eða hafa verið með eggjastokkakrabbamein.
Síðan varð ég enn smeykari um helgina þegar ég áttaði mig á að eitthvað sem er á líkamanum mínum, gæti allt eins verið nýtt krabbamein, sérstaklega þegar sársauki fylgir með! Ég varð skíthrædd, ég get svo svarið það. Um leið bölvaði ég ástandinu í heild sinni í sand og ösku, alveg orðin dauðþreytt á þessu öllu saman og fannst ég vart ná andanum. Ég róaðist ekki fyrr en svarið við blóðprufunni tikkaði inn á netið eftir hádegi á mánudaginn. Þvílíkur léttir.
Svo á eftir fæ ég líklega það svar frá krabbameinslækninum að blóðprufan væri fín.

Ég er líka að fara í segulómun (MRi) í dag, það voru kvensjúkdómalæknarnir sem pöntuðu þá myndatöku til að skoða hvort hægt verði að lappa mér saman, hvernig þá og hvenær. Svar úr henni kemur seinna og er ég nú talsvert spenntari fyrir því svari heldur en blóðprufusvarinu þar sem að það er talsvert meiri sannleikur í myndunum.
Þegar eitthvað fer að nálgast í þessu ferli, alveg sama hvort það er yfirvofandi aðgerð, lok lyfjameðferðar, eftirlit eða eitthvað, kemur svo mikil óþreyja í mig að ég á erfitt með að vera í mínum eigin líkama. Ég fæ svo mikið nóg og þolinmæðin þrýtur.
Svoleiðis líður mér núna gagnvart MRi skannanum og svarinu úr honum.

Ferjan er að leggja að… Ég kem aftur seinna og klára.

Í þessum skrifuðu orðum sit ég í sófanum heima á Møllegade og get sagt ykkur þær fréttir að krabbameinslæknirinn sagði nákvæmlega það sama og ég bjóst við; að blóðprufan væri fín. Síðan hrósaði hún hárinu á mér en það var bara vegna þess að ég var svo geðvond þegar ég lokins komst að hjá henni að hún ákvað að reyna koma mér í gott skap. Ég þurfti nefnilega að bíða í 35 mínútur og missti af ferjunni heim. Svo var blóðsykurinn í lægra lagi vegna þess að þau í MR skannanum gáfu mér lyf í lærið sem getur haft áhrif á blóðsykurinn og mér hafði farist fyrir að borða eftir að ég kom til Odense. Ekki batnaði skapið við það.
En ég var fljót að jafna mig, það þarf ekki að hrósa mér lengi til að ég taki gleði mína á ný.

Annars var þetta ágætis ferð, sérstaklega þegar það rann upp fyrir mér að ég var án fylgdarmanns í fyrsta skipti síðan allt byrjaði. Það bar enginn veskið mitt fyrir mig, enginn sem opnaði fyrir mig þunga hurðina á byggingu númer 85, enginn sem hljóp með eyðublað yfir í næstu byggingu til að fá bensínið borgað, enginn sem beið með mér neinsstaðar og enginn sem keyrði heim, með mig við hlið sér, steinsofandi í farþegasætinu. Fyrir vikið var ég mikið líkari sjálfri mér – mikið minna í hlutverki sjúklings þó svo að ég líti ekki á mig sem sjúkling lengur. Samt er mér þröngvað til að vera sjúklingur, ég er sjúklingur um leið og ég stíg inn á sjúkrahúsin því að þar heita kúnnarnir sjúklingar. Svo hvort sem mér líkar betur eða verr, þá er ég sjúklingur á meðan ég velkist um í kerfinu, enn á þremur mismunandi sjúkrahúsum og á sex mismunandi deildum. Mér líður samt ekki eins og sjúklingi og sérstaklega ekki í dag þegar ég bar sjálf blýþungt veskið mitt, opnaði sjálf túsundkílóahurðina og keyrði sjálf heim, vakandi alla leiðina.

6 Responses to “Eftirlit númer 2.

 • þórdís Þórhallsdóttir
  5 ár ago

  gangi þér vel með framhaldið þú ert svo dugleg í öllu þessu brasi mbkv Dísa

 • ásdís frænka
  5 ár ago

  dásemd að fá þessar fréttir frá þér,

 • Drífa Þöll
  5 ár ago

  Það er fyrir öllu að þér líði betur á líkama og sál. Gangi þér vel í framhaldinu!

 • Þorbjörg Guttormsdóttir
  5 ár ago

  Gangi þér vel elsku Dagný,þú stendur þig svo vel og gaman að lesa bloggið þitt

 • Sigrún
  5 ár ago

  Þú ert hetjan mín, svo ótrúlega dugleg, jákvæð og skemmtileg 🙂

 • Kolla barnapía ?
  5 ár ago

  Gangi þér áfram vel elsku Dagný. Það er gott að geta fylgst með þér og þínum. ??

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *