Fimm staðreyndir um mig

-Ég smakkaði í fyrsta skipti ferskan ananas á þessari öld. Mér hafði alltaf þótt ananas í dós hræðilega vondur og því hvarflaði  ekki að mér að kaupa alvöru ananas þegar ég sá hann í búðunum í Danmörku. Það fékkst ekki ananas í kaupfélaginu á Egilsstöðum í denn, allavega ekki svo að ég muni eftir. Ég var 27 ára og þótti ananas strax góður en samt ekki eins góður og appelsínur.

-Ég var orðin tvítug þegar ég snerti og talaði við manneskju af afrískum uppruna í fyrsta skipti. Þeldökka manneskju. Fram að því hafði ég ekki séð margar svoleiðis manneskjur. Það var svo ekki fyrr en á þessari öld, að ég talaði við og faðmaði múslima í fyrsta skipti. Það gerðist um svipað leyti og ég kynntist ananasnum.

-Ég man eftir umræðunni um Grænhöfðaeyjar og þróunaraðstoðinni þar í gamla daga. Voru ekki Íslendingar að kenna þeim að veiða fisk?
Í mörg ár hef ég orðið vör við að Danir fari til Cape Verde í frí, hef heyrt ferðasögur þaðan og séð myndir. Ég get bent á Cape Verde blindandi á landakorti. Í vetur heyrði ég um Íslendinga sem fóru til Grænhöfðaeyja og hugsaði með mér að það væri nú alveg lengst í rassgati og örugglega mannætur þar því að fiskveiðikennslan fór fyrir ofan garð og neðan en fór samt og athugaði á kortinu hvar þessar eyjar væru. Þá áttaði ég mig á að Grænhöfðaeyjar og Cape Verde væru sömu eyjarnar. Þetta var í vetur og ég var 43 ára.

-Ég horfi á Game of Thrones. Auðvitað horfi ég á Game of Thrones. Ég las fyrstu bókina á íslensku en fannst hún svo illa þýdd, einhver þýðing tengd hesti var alveg út í hróa hött, að ég ákvað að láta hinar bækurnar liggja. Þetta var líklega árið 2013 og þá var ég 38 ára.

-Ásrún Svala er flutt að heiman en tæmdi ekki herbergið sitt vegna þess að hún býr afar smátt á Nørrebro. Ég sá þennan samfesting (sjá mynd) hangandi inni í skáp hjá henni og hugsaði með mér að fyrst að hún væri flutt að heiman, væri hún orðin harðfullorðin og stór eins og mamma – ergo – ég passa því í fötin hennar (hef ekki passað í þau hingað til nema eina og eina flík.) En nei, með klofna magavöðva og rúllupulsulæri, hengdi ég hann pent aftur inn í skáp. Bara ef að hann hefði verið tveimur númerum stærri. Ég var 43 ára þegar ég áttaði mig á að börnin mín né fötin þeirra stækka ekki við að flytja að heiman.

4 Responses to “Fimm staðreyndir um mig

 • Ástrún
  5 ár ago

  Gott að heyra frá þér mín kæra

 • Dandý
  5 ár ago

  Þú ert fyndin.

 • Ásdís frænka
  5 ár ago

  He he, gott að fullornast

 • Sko ég 48 að verða 49 og er að finna út af þessu hérna hjá þér kæra Dagný þetta með að Grænhöfðaeyjar eru ‘in fact“ Cap Verde. ? Jæja betra seint en aldrei.
  Sumarkveðja
  Steina

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *