NÓTTIN

Ég ligg í rúminu, nýbúin að loka bókinni og slökkva ljósið og finn þá hitann breiða úr sér eins og risastórt teppi, hann kemur nær og nær að ofan, neðar og neðar, umlykur mig byrjar að kitla á mér fæturnar ég sparka frá mér fer að klóra mér á bakinu ég vil það ekki ANDAR FRAMAN Í MIG ÉG SNÝ MÉR Á HINA HLIÐINA ÓSKA ÞESS AÐ KODDINN SÉ SNJÓBOLTI AÐ SÆNGURVERIÐ SÉ SNJÓDYNGJA AÐ RÚMIÐ SÉ SNJÓSKAFL ÉG ÝTI SÆNGUNUM LENGRA FRÁ MÉR ÞVÍ AÐ ÞÆR ERU BRENNANDI SÓLIR ÉG LEGGST Á BAKIÐ Í VÍTRÚVÍSKA STELLINGU ÞAÐ ER BETRA ÉG FINN HVERNIG ÉG SEKK OFAN Í RÚMIÐ ER ÉG AÐ ÞYNGJAST OF HRATT??? ER ÉG AÐ ÞYNGJAST AKKÚRAT ÞARNA SEM ÉG LIGG? ER ÞAÐ HORMÓNATENGT? ER ÉG AÐ MISSA STJÓRNINA Á MÍNU EIGIN HOLDAFARI? ÞAÐ YRÐI AGALEGT ÞVÍ ÉG ER AGALAUS GUÐ MINN GÓÐUR, ÞESSU ÁTTI ÉG EKKI VON Á EKKI FREKAR EN Á SVO MÖRGU ÖÐRU, ALLT ÓVÆNT SÖKKAR NÆSTUM ÞVÍ ALLT – ALLT OF MARGT EINS OG MEÐ BÝFLUGURNAR EKKI BJÓST ÉG VIÐ FYRIR 10 ÁRUM AÐ ÞÆR YRÐU OF FÁAR Í DAG ÉG ELSKA BÝFLUGUR REYNDAR ELSKA ÉG FLEST SKORDÝR ÞÓ ÉG VILJI EKKI HALDA Á ÞEIM ÞAÐ ER ALVEG HÆGT AÐ ELSKA ÁN ÞESS AÐ HALDA Á, ÉG ELSKA FÚSA OG MÖMMU OG PABBA EN HELD ALDREI Á ÞEIM, HALDIÐ ÞIÐ Á ÞVÍ SEM ÞIÐ ELSKIÐ? UNGABÖRN, HVOLPAR OG KETTLINGAR ERU EKKI INNI Í ÞESSARI SPURNINGU …  ÉG HÆTTI AÐ HALDA Á STELPUNUM MÍNUM ÞEGAR ÞÆR LÆRÐU AÐ GANGA ÉG VAR AÐ PASSA BAKIÐ ÞÓ AÐ EKKERT HAFI VERIÐ AÐ BAKINU Í ÞÁ DAGA (EKKI HELDUR NÚNA) ENDA STANDA ÞÆR VEL Á EIGIN FÓTUM Í DAG GUÐI SÉ LOF FYRIR ÞAÐ EÐA NEI GUÐ KOM LÍKLEGA LÍTIÐ NÁLÆGT ÞVÍ ÞETTA ERU BARA ÞÆR SJÁLFAR SEM ERU MEÐ GÓÐAR FÆTUR SEM GOTT ER AÐ STANDA Í, EITTHVAÐ ANNAÐ EN HROSSAFLUGUR!!! AFHVERJU ERU ÞÆR MEÐ ÞESSAR ROSALEGA LÖNGU LAPPIR EN STANDA ALDREI Í ÞÆR? ÞÆR FLÖGRA BARA INNAN Á RÚÐUM EÐA HAMAST Í LJÓSAPERUM MEÐ LAPPIRNAR LAFANDI OG RYKVEFINA HANGANDI Í ÞEIM, ÞEIM VÆRI NÆR AÐ STANDA ÉG MYNDI GERA ÞAÐ EF ÉG VÆRI MEÐ SVONA LANGAR LAPPIR ÉG MYNDI SÝNA ÖLLUM HEIMINUM ÞÆR STANDANDI EINS OG STYTTA LEYFANDI FÓLKI AÐ TAKA MYNDIR AF MÉR GEGN GJALDI OG ÉG YRÐI EFNUÐ OG MYNDI KAUPA MÉR LOFTRÆSTIKERFI Í ALLT HÚSIÐ svo að það væri ekki svona heitt í því þegar hitabylgjurnar ríða yfir Evrópu og steikja öll blómin mín í garðinum og láta alla íbúa vera í allsherjar sauna, hvort sem þeim vilja eða ekki. Hafiði faðmast í sauna? Já? Þá vitiði hvernig það er að faðmast í Danmörku núna, kinnarnar klístrast saman en það er í lagi, við erum öll í sama kyndikofanum og það er gott …

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *