Í Stokkhólmi – seinni hluti.

Þessi færsla er framhald af þeirri síðustu sem má lesa hérna.

Dagur 3

Við tókum lestina til Odenplan og gengum niður Odengatan í áttina að Stadsbiblíótekinu (ríkisbókasafninu) en með stuttri viðkomu í bókabúð vegna þess að Fúsi hnippti í mig og sagði: sjáðu. Í glugganum var bók sem kallaði á mig og bað mig um að kaupa sig. Ég fór inn án þess að hugsa mig um, tók bókina og gekk með hana að afgreiðsluborðinu. Afgreiðslukonan spurði: „Är den här gåvan och måste jag packa in den?“ Nej tack, svaraði ég og sagði að þetta væri bara gjöf handa sjálfri mér. Þá sagði hún að detta är den perfekta gåvan för dig og brosti breitt. Ég vissi það svo sem en samt gaman að hún skildi segja það. Þetta var bókin The Flame sem inniheldur ljóð, teikningar, dagbókarfærslur  og ræður eftir Leonard Cohen.

Stuttu seinna stóðum við í anddyri bókasafnisins og supum nánast hveljur því að fallegra bókasafn hef ég aldrei séð. Ferðahandbókin (sem að ég minntist á í færslunni á undan) hafði mælt með og leitt okkur þangað. Aðalsalurinn er hringlaga og inn af honum eru fræðslusalir þar sem að námsfólk og grúskarar halda til. Hver fræðigrein hefur sinn sal, þ.e.a.s. raungreinarnar hafa sinn, hjúmanistarnir sinn og sögunördarnir sinn. Mér leið pínu eins og ég væri stödd í bíómynd.

 

Svala sést til vinstri við miðju og virðir fyrir sér úrvalið.

Við mælum með heimsókn á bókasafnið og skiptir þá engu máli hvort fólk sé bókaormar eða ei, safnið er tilkomumikið og skemmtilega uppsett. 

Dagur 3 var mánudagur og Aldís því farin í vinnuna en hún vinnur hjá Johnson & Johnson. Við Fúsi og Svala röltum um Vasastan og komum við í Vasaparken sem er almenningsgarðurinn sem Astrid Lindgren bjó við hliðina á og notaði talsvert í sögunum sínum.

Við nutum haustlitanna þar og fallega veðursins, hoppuðum á trampólíni og klifruðum í klettum.

Við mældum götunar, nutum útsýnisins og stöldruðum við á kaffihúsum endrum og eins.

Við sáum byggingar sem einu sinni voru hæstu byggingar í Svíþjóð. Það var í gamla daga.

Við töldum laufblöðin.

Við leituðum að Síberíuhverfinu og fundum en mælum ekki með að fara þangað því að það er ekkert að gerast þar í oktober. Hvað sem einhver ferðahandbók segir. Það er víst ekki sannleikur á öllum blaðsíðunum þar.

Aldísi hittum við síðan á Odenplan og enn einu sinni svarf hungrið að …

Við tókum lestina frá Odenplan og yfir á Slussen því að nú lá leiðin á Fotografiska sem er stærsta ljósmyndasafn í heimi. Við mælum með því og það er það sama og með bókasafnið; það þarf ekki að vera ljósmyndaáhugamanneskja til að heillast af því.

Eftir heimsókn á Fotografiska vorum við orðin þreytt og sein á því og ekki búin að panta borð neinsstaðar. Ég hafði séð tapasstað nálægt Slussen kvöldið áður og ákváðum við að sigta á hann en hann reyndist lokaður því að Svíar í veitingarbransanum halda hvíldardaginn oft á mánudögum. Við hliðina á honum var minna álitlegur staður sem minnti á dæmigerðan taverna stað með bláköflóttum dúkum og losaralegu andrúmslofti. Aðframkomin af hungri, drógumst við nánast í andarslitrunum, síðustu metrana í gegnum dyrnar og báðum auðmjúklega um borð sem að við fengum. Við pöntuðum hina ýmsu fiskrétti, elgskjötbollur og eldaða osta og staðurinn reyndist betri en einhver búlla. Mikið betri. Fiskurinn var stórgóður. Ekki veit ég hvaða tegund af fiski ég borðaði og sama hvað ég gúgglaði og þýddi, aldrei komst ég að því sanna. Ég get ímyndað mér að bragðið hafi verið eins og af fisknum sem Jesús mettaði milljónir manna með. Andrúmsloftið var líka mjög skemmtilegt. Ég veit að ég á það til að ýkja stundum þegar kemur að svengd en það er bara það sem gerist þegar ég ferðast. Ég verð svöng og það tengist líklega því að eitt af því skemmtilega sem ég geri á ferðalögum er að borða á mismunandi stöðum og smakka.

Við mælum óhikað með Blå Dörren í nágrenni við Slussen. 

Matartips: Pantið fisk af matseðlinum þegar þið eruð í ferðalögum, líka þó að það sé „ókunnugur“ fiskur … hann klikkar sjaldnast.

Dagur 4

Við vorum orðin frekar fótafúin eftir tugi kílómetra þramm um götur og hverfi Stokkhólmar, svo að við ákváðum að taka bílinn og fara aðeins út úr borginni. Ferðahandbókin mælti meðal annars með litlum friðsælum bæ sem heitir Trosa og er sunnan við Stokkhólm. Í rigningu og sudda stefndum við þangað en með viðkomu á einu af ellefu slotum sænsku konungsfjölskyldunnar. Tullgarn höllin er opin fyrir almenningi yfir ferðamanntímann en þarna í oktober var allt harðlæst. Við fengum okkur göngutúr um enska garðinn, yfir brýr og upp á hóla og nutum haustlitanna sem voru alsráðandi.

 

 

 

Þetta er hesthúsið sem tilheyrir landareigninni. Fúsi fór inn og spurði hvort hann mætti fara á bak en var vísað í burtu þegar þeir sáu að þeir myndu eiga við ofurefli að eta hvað reiðmennsku varðar.
Annars var þetta fallegur viðkomustaður í fallegu haustveðri á leiðinni til Trosa.

Trosa er friðsæll og fallegur lítill bær samkvæmt ferðahandbókinni og var það hverju orði sannara. Listafólk og rithöfundar hafa í gegnum tíðina haldið til í bænum og á sumrin er hann mjög vinsæll ferðamannastaður. Á veturnar legst hann í dvala (minnir á Seyðisfjörð) og lífið gengur sinn vanagang. Við vorum orðin svöng (ha við?) og þrátt fyrir óteljandi kaffihús og veitingastaði í bænum voru flestir staðirnir lokaðir enda háhaust og þriðjudagur. Bakaríið var opið og þar voru fimm borð sem hægt var að sitja við og þar virtust allir vera. Ég heyrði sænsku, þýsku, frönsku, rússnesku og íslensku (í sjálfri mér) og var staðurinn þéttsetinn og rækjuréttirnir þeirra afar bragðgóðir. Svíar bjóða næstum alltaf upp á rækjur og kanilbulla hvar sem komið er. Það líkar mér vel.

Við skoðuðum sútunarhverfið og kirkjuna og lásum um þegar Rússar herjuðu á austurströnd Svíþjóðar í byrjun átjándualdar og brenndu Trosa næstum því til grunna í árásinni 1719.

 

 

Við mælum með að heimsækja þennan bæ því hann er ekstrem idyllisk (friðsæll og fallegur) eins og sagt er á dönskuHann er aðeins í 45 mínútna akstursfjarlægð frá Stokkhólmi og samkvæmt ferðahandbókinni er líka margt annað hægt að skoða á svæðinu. Ég væri alveg til í að vera á þessu svæði í nokkra daga yfir sumartímann.

Aldís var búin að vinna klukkan fjögur og við höfðum ákveðið að hittast á Östermalm og fara á barinn sem hún vinnur á um helgar og á kvöldin. Östermalm er hverfi í Stokkhólmi þar sem ríka fólkið býr og bókin Gullbúrið eftir Camilla Läbkberg gerist. Faye sem er aðalsögupersónan í bókinni keypti t.d. íbúð fyrir ofan ICA á Karlavågen. Tveimur götum frá er Bishops Arms, barinn sem Aldís vinnur á og fórum við og fengum okkur rauðvín og osta og sögðum hæ við vinnufélaga hennar.

Þetta var síðasta kvöldið okkar saman og hvað og hvar skildi nú eiga að borða? Við erum frekar óskipulögð fjölskylda hvað þetta varðar og tilhugsunin um að panta borð fram í tímann (nokkra klukkutíma) er hræðileg því að ég veit aldrei hvernig dagurinn æxlast. Eftir stuttan fjölskyldufund fyrir utan Bishops var ákveðið að koma við á Sushi  Yumi og taka sushi með okkur heim í stúdíóíbúðina. Sushið var mjög gott og fjölbreytt þegar ég var búin að skafa steikta laukinn af … hverjum dettur í hug að setja steiktan lauk á sushi???

Kvöldið fór svo í að horfa á danskan fræðsluþátt sem fjallar um samskipti og ást með sálfræði- og trúarlegu ívafi. Þátturinn heitir Gift við fyrstu sýn …

Þessir fjórir dagar í Stokkhólmi og nágrenni voru hreint út sagt æðislegir og Stokkhólmur sem borg er alveg á pari við París og Kaupmannahöfn í mínum huga. Nú á ég mér þrjár uppáhaldsborgir sem erfitt er að gera upp á milli því allar eru þær ólíkar en óhemju heillandi hver á sinn hátt.

One Response to “Í Stokkhólmi – seinni hluti.

  • Gaman að þessari frásögn, þú klikkar ekki frekar en vanalega

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *