Flótti í hamingjuna

Nánast vikulega birtast fyrirspurnir á Facebook frá Íslendingum sem íhuga alvarlega að flytja til Danmerkur með fjölskylduna sína. Spurningarnar eru ekki frá þeim sem eru að fara í nám, heldur frá þeim sem eru að velta fyrir sér möguleikunum í lífinu sínu af því það er eitthvað sem er ekki að ganga upp. Sem er einkennilegt í ljósi þess að á Íslandi lifir fólk lengst, fæst börn deyja og fólkið er hamingjusamast.

Afhverju þá að vera að spá í einhverju öðru sem er ekki eins gott? Kannski af því að það er svo auðvelt að flytja til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar.
Það eina sem Norðurlandabúi þarf að gera sem innflytjandi inn í annað Norðuland, er að tilkynna bæjarskrifstofunni komu sína og í staðinn fær innflytjandinn kennitölu. Að sjálfsögðu þurfa íslenskir innflytjendur að finna sér húsnæði og framfleyta sér sjálfir. En kennitöluna fá þeir og með henni, frá degi eitt, sömu réttindi og aðrir landsmenn nema þeir mega ekki kjósa í þingkosningum. Iss piss, þetta er nú ekki mikið mál … 

Eða?

Að flytja til annars lands er reyndar heilmikið mál og fórn. Það kostar peninga, tíma, vinnu og fjarlægðin á milli fjölskyldu og vina eykst til muna. Það er fórnin.

Margir flytja án þess að hafa vinnu í nýja landinu og ætla sér að freista gjæfunnar. Stundum fer annar fullorðni aðillinn á undan til að vera búin að skoða aðstæður og reyna að fá vinnu. Því langflestir Íslendingar vilja vinna, enda vinnusamt fólk upp til hópa. Langflestar manneskjur vilja geta séð fyrir sér sjálfar. Fæstar vilja vera upp á aðra komnar. Ég þekki enga sem langar að vera upp á sósjalinn komin.

Flutningur til annars lands getur verið erfiður, því að atvinnu og húsnæðisleit í nýju landi, aðlögun barna og fullorðinna að nýju tungumáli og menningu er síður en svo eitthvert „iss piss, þetta er ekkert mál“ dæmi. Þetta er HEILMKIÐ MÁL.
Það vita allir, líka þeir sem spyrja á Facebook og íhuga alvarlega að flytja frá Íslandi til Danmerkur, en hvers vegna gera þeir það ef að það er svona mikið mál?
Algengasta skýringin er sú að þeir eru að gefast upp á Íslandi. Stundum sjá þeir ekki fram úr skuldafeninu, stundum upplifa þeir að heilbrigðiskerfið sé ekki að sinna þeim og stundum hangir hversdagsleikinn á Íslandi bara engan veginn saman. Ástæðurnar geta verið margvíslegar en allar eiga þær það sameiginlegt að það er verið að flýja eitthvað sem virkar ekki og því á að freista gæfunnar á nýjum slóðum.

Árið er 2019 og næstum því vikulega birtast þessar fyrirspurnir á Facebook. Mér finnst líklegt að það sama sé uppi á teningnum í Noregi og Svíþjóð.

Árið er 2019 og fólk flýr frá Íslandi til hinna Norðurlandanna í leit að hamingjunni og velferðinni.
Það leggur á sig ómælda vinnu og fórn í von um betra líf fyrir sig og fjölskylduna sína.

Árið er 2019 og Albanir flýja landið sitt sem er eitt það fátækasta í Evrópu, í þeirri von og trú um að hamingjuna og velferðina sé að finna á Íslandi þar sem að hamingjusamasta þjóð í heimi býr.

Lifum heil.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *