Í Kaupmannahöfn þriðja í aðventu.

Á þriðja í aðventu fór ég til Kaupmannahafnar. Aldís kom frá Stokkhólmi og þar með vorum við mæðgur sameinaðar í sjötta sinn á þessu ári sem að mér finnst vel af sér vikið miðað við búsetu og að Svala var í annarri heimsálfu fyrstu þrjá mánuði ársins.

Þegar ég kom með lestinni á laugardeginum tóku stelpurnar á móti mér og fórum við beint á hótel á Vesterbro, tékkuðum okkur inn og leigðum hjól, svo að við Aldís ættum einhvern séns í rakettuna (Svölu) á breiðgötum Kaupmannahafnar. Aldís hafði komið kvöldið áður og gist hjá systir sinni á Sølvgade. Mér finnst götunafnið Sølvgade/Silfurgata svo fallegt að ég nota hvert tækifæri til að koma því að.

Seinan hádegismat snæddum við á Tommis Burger Joint sem er íslenskur hamborgarastaður í Kødbyen. Veggieborgararnir þar eru alveg sambærilegir við aðra góða hamborgarastaði í landinu þrátt fyrir að staðurinn sjálfur sé svolítið búllulegur.

Eftir hamborgarana lá leiðin í Tívolí á hápunkt helgarinnar. Við áttum miða á Snædrottninguna eftir H.C. Andersen; ballettsýningu í tónleikasal Tívolísins. Kosturinn við að fara á viðburð í þessum sal, er að aðgangur í Tívolíið er innifalinn og það er svo skemmtilegt að labba um garðinn í ljósadýrðinni og fara svo á sýningu. Sýningin var stórfengleg, tónlistin sem Oh Land samdi var frábær, búningarnir sem hin konunglega háting, Margrethe Danadrotting hannaði voru fallegir og fjölbreyttir, sviðsmyndin skemmtileg og dansinn svo fagur að tárinn runnu. Þetta var hreint út sagt, frábær upplifun. Og ekki skemmdi fyrir að eftir sýninguna fórum við aftur út í Tívolígarðinn í staðinn fyrir beint út á götu.

Í haust vorum við í líka í Tívolí, þá Halloweentívolí og ég sagði frá því hér á blogginu að ég hefði keypt mér sykurhúðað epli eftir að hafa langað í svoleiðis í margar vikur. Eftir þá ferð, hætti mig alveg að langa í sykurhúðað epli en fór að langa í churros (spænsk rör) í staðinn. Ég fékk churros á heilann og var ákveðin í að fá mér svoleiðis í jólatívolí. Ég fann staðinn, keypti mér churros með ís og súkkulaðisósu og ekki liður margar mínútur þangað til andlitið á mér leit út eins og á barni sem er að borða sjálft í fyrsta skipti. (Sjá mynd í neðstu röðinni.)

Eftir ballettsýninguna og Tivoli, hjóluðum við niður á Kongens Nytorv og Nyhavn. Við enduðum á að borða á Boltens food court þar sem auðvelt er fyrir flesta að finna eitthvað við sitt hæfi.
Á leiðinni heim á hótel rétt fyrir miðnætti, komum við við á bar sem Svala sagði að væri rosalega huggulegur og vinsæll. Þar sá ég fólk í hörkusleik. Það er orðið langt síðan ég sá svoleiðis „live“ sem sýnir hvað ég djamma aaalltof lítið.

Hótelherbergið var það minnsta sem ég hef séð og verið á. Það var koja fyrir ofan höfðagaflinn á hjónarúminu og á því litla gólfplassi sem var, var tæplega hægt að mætast án þess að draga maga og rass vel inn. En við höfðum gaman af og tókst að sofa vel og greiða okkur og mála, án vandræða. Við skiptum líka á jólagjöfum, Aldís hafði komið með til okkar og við til hennar. Því fórum við alveg jafn klyfjaðar til baka og við komum.

Daginn eftir tókum við metróinn og fengum okkur góðan morgun/hádegismat á Souls sem býður upp á mjög góða brunchdiska. Veðrið hafði breyst úr svölu desemberveðri daginn áður, í lágrétta rigningu eða ekta íslenskt slagveður. Við héngum því lengi yfir hádegismatnum vegna þess að við nenntum ekki út og svo var bara svo gott að sitja yfir kaffibolla og spjalla inni í hitanum. En að endingu urðum við að fara halda í átt að aðalbrautarstöðinni/hovenbananum því að lestarnar okkar Aldísar fóru að nálgast brottfarartíma.
Veðrið lagaðist reyndar á leiðinni og þegar við gengum framhjá Rundetårn ákváðum við að fara upp í hann og sjá borgina baðaða í vetrarsólinni. Það var kallt í turninum en alveg þess virði því útsýnið var svo fallegt.

Síðasta kaffistoppið var svo á Next Door Café sem að er huggulegt kjallarakaffihús sem að Svala fór mikið á þegar hún vann í Veras.

Á hovedbananum kvöddumst við, eftir mjög svo velheppnaða helgi þar sem ófáum klukkustundum var eytt yfir mat og kaffibollum, ásamt því að upplifa Snædrottninguna saman.

Ykkar

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *