Jól á síðustu stundu í Tønder

Daginn fyrir gamlárskvöld fór Svala heim til Kaupmannahafnar. Heim til Kaupmannahafnar, tókuði eftir þessu? Nú eigum við fjögur öll fleiri en eitt heimili. Heim til Íslands, heim til Stokkhólms, heim til Sönderborgar. Svölu fannst gott að komast heim til Kaupmannahafnar og mér fannst gott að henni fyndist það gott því að það er svo mikilvægt að fólkinu manns líði vel þar sem það er, sama hvar það er.

Við Fúsi og mamma ákváðum að bregða okkur af bæ og heimsækja annan bæ sem heitir Tønder og er vestanmeginn á Suður Jótlandi. Sá bær er þekktur fyrir jólastemmingu og huggulegheit með fallegum skreytingum og litlum jólakofum í miðbænum. Jólakofunum er lokað eftir Þorláksmessu en skreytingarnar fá að hanga fram yfir áramót.

Við löbbuðum eftir göngugötunni og dáðumst að því hvað jólaljósin komu vel út með sólsetrinu í bakgrunninum. Við kíktum inn í eina og eina búð þar sem við vorum nær undantekningarlaust ávörpuð á þýsku en Þjóðverjar eru ríkjandi í túrismanum í Tønder. Við urðum svöng um miðjan dag sem var í lagi því að við vorum búin að ákveða að borða kvöldmatinn í Tønder.

Eftir kvöldmat um miðjan dag, fórum við í Det Gamle Apotek (Gamla apótekið) sem var apótek frá árinu 1671 til 1989. Frá árinu 1595 til 1671 var þetta bara virðulegt íbúðarhús. Árið 1989 varð þetta að 1200fm jólabúð allan árssins hring með 46 herbergjum! Einhversstaðar las ég að þetta væri stærsta jólabúð á öllum Norðurlöndunum. Ég myndi víst seint flokkast sem mikið jólabarn, en samt sem áður hafði ég gaman af að labba um þessa búð og skoða því að þetta er náttúrulega ákveðin geggjun. Í einu herberginu niður í fjögurhundruð ára gömlum kjallaranum voru bara jólatréskúlur í öllum stærðum og gerðum. Það er líka hægt að kaupa skemmtilega gjafavöru þarna sem tengist ekki jólum á neinn hátt. Ég keypti mér einn ísbjörn til að hengja á jólatréð svona korteri áður en ég tek það niður. Jú og tvö kerti því að það hafði gleymst að kaupa kerti fyrir jólin, en ég hafði átt tvo hálfa stubba sem höfðu þó enst frá 24. – 29. desember. Það var mjög rólegt yfir bænum og greinilegt að við vorum að rétt að ná í skottið á jólunum, en það kom ekki að sök, það getur verið kostur að hafa staðina út af fyrir sig.

Ég hafði ekki komið til Tønder í háa herrans tíð og aldrei á jólunum. Eitt af markmiðunum mínum fyrir 2020 er að fara til Tønder eftir hrekkjavökuna og fyrir jól og upplifa jólastemminguna á meðan hún stendur sem hæst yfir.

-Ykkar einlæg

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *