Anímónurnar

Ég fór í göngutúr áðan á stað sem ég hef aldrei farið á áður. Sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað, ég hef aldrei á mínum 44 árum, séð jafn margar anímónur. Þær breiddu úr sér yfir skógarbotninn eins og nýfallinn snjór. Sumar voru með fjólubláu ívafi og sumar voru gular.
Sólin var lágt á lofti og í þeirri birtu er skógurinn fallegastur að mínu mati. Það er töfrum líkast þegar geislar sólarinnar brjóta sér leið lárétt inn í skóginn.

Við vorum bara tvö á ferð, við Vaskur. Fúsi valdi að verða eftir heima til að klára að hreinsa stéttina. Vorverkin eru ríkjandi á heimilinu þessa dagana. Í dag þreif ég grindverkið með háþrýstisbursta. Það gengur ekki að hafa eitthvað sem á að vera hvítt, grænt.

Í göngutúrnum gengum við meðfram túni og með skógarjaðrinn á hægri hönd. Skyndilega sá ég glitta í byggingar inni í skógarþykkninu og fannst skrítið að það væri sveitabær akkúrat þarna. Því að þó að það hafi verið tún þarna, var ég viss um að það tilheyrði ekki þessum stað. Þegar við komum nær, sá ég að þetta var íbúðarhús og stór bygging, mögulega hlaða eða skemma. Húsin voru gömul, frekar skökk og máluð í dökkgrænum lit, alveg eins og dekkstu laufin á trjánum. Ég hvorki sá né heyrði í mönnum eða dýrum en ég heyrði í tónlist sem hljómaði eins og úr gömlu útvarpstæki.
Vegna trjánna, sá ég bara glitta í byggingarnar og allt í kringum okkur ríkti þögnin. Fyrir utan lága tónlistina í útvarpstækinu. Skyndilega fannst mér þögnin þrúgandi og útvarpstækið óhugnalegt. Mér fannst ég allt í einu rosalega ein. Ég hafði náttúrulega Vask hjá mér en mig grunar að þegar á reynir, þá er hann ekki eins mikill varðhundur og hann sjálfur vill vera láta. Ég einhvern veginn efast um að hann færi í barkann á nokkrum manni. En hávaða getur hann skapað, sem gagnast bara ósköp lítið þegar enginn heyrir neitt vegna fjarlægðarinnar.
Ég sá fyrir mér íbúa hússins sitjandi á tröppunum í kvöldsólinni, með sígarettu í munnvikinu og í grútskítugum hlýrabol sem einu sinni fyrir langa löngu var hvítur. Hlustandi á nostalgíska upptöku af vinsældarlista vikunnar. Hann var með skítuga tusku og hreinsaði hlaupið á byssunni.
Ég hraðaði mér fram hjá þessum óhugnalega stað áður en ég yrði gripin og endaði inni í skemmu eins og hvert annað fórnarlamp glæpasagnanna. Mér varð sérstaklega hugsað til Lisbethar Salander (Flickan som lekte med elden), þegar hún fer að eltast við risann og Zala og fylgist með eyðibýlinu eða afskekkta sveitabænum úr fjarlægð. Var ekki útvarp í gangi þar? Eða er ég að ruglast á atriði úr Lars Kepler bók? Allavega fannst mér þessi staður og þessar aðstæður minna einum of mikið á eitthvað úr blóðugum skandinavískum krimma.

Við komum síðan fyrir hornið á skóginum og beygðum til hægri. Eftir aðeins nokkra metra sá ég afleggjara sem lá inni í skóginn og var það að sjálfsögðu afleggjarinn að húsinu. Á tréskilti á horni afleggjarans, hafði verið málað stórum stöfum „EINKAVEGUR“. Uppi í tré rétt hjá, hékk eitthvað sem minnti á nærbol bónda frá miðöldum. Eitthvað gróft, grátt og götótt. Þvert yfir veginn var strengd þykk keðja sem engin virtist komast yfir nema fuglinn fljúgandi eða snákurinn skríðandi. Við hliðina á keðjuhliðinu, var póstkassi þar sem aftur stóð með stórum stöfum að þetta væri einkalóð ásamt mynd af stórum varðhundi. Ég taldi í mig kjark, læddist ofurhljótt nær póstkassanum til að sjá betur nafnið og ef að ég hefði ekki verið svona meðvituð um gæjann sem var pottþétt að hreinsa byssuhlaupið í 100 metra fjarlægð, hefði ég skellt upp úr. Ég greip með báðum höndum fyrir munninn til að ekkert fliss slippi út því að nafnið smellpassaði svona svakalega vel við ímyndina. Á póstkassanum stóð Sonny en Sonny, Johnny, Ronny, Bonny, Conny og Lonny eru ein vinsælustu nöfnin á þeim frá níunda áratugnum sem að gista fangageymslurnar í Danmörku (ásamt Brian). Sum af þeim eru karlmannsnöfn, eins og t.d. Sonny en önnur eru kvenmansnöfn og minnst eitt nafnið er bæði. Flest, ef ekki öll er hægt að skrifa með y-endinu og ie-endingu. Ég veit um 5 systkini sem heita þessum nöfnum. Svo er til Svíi, samkvæmt sænsku símaskráinni, sem heitir Mikael Conny Ronny Sonny Nilsson. Ég get svo svarið það.

En allt fór vel og töltum við Vaskur áfram án þess að skotið væri á eftir okkur.

 

 

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *