11. mars. Merkisdagur.

Í dag, 11. mars, er akkúrat ár síðan Danmörk lokaði niður. Það var þennan dag fyrir ári síðan sem Mette Frederiksen steig í pontu og sagði alvarleg í bragði: „Det, jeg vil sige i aften, det kommer til at få store konsekvenser for alle danskere“ (Það sem ég kem til með að segja hér í kvöld, mun hafa miklar afleiðingar fyrir alla Dani). Og síðan skellti hún í lás. Þessi blaðamannafundur líður líklega seint úr minni. Mette sagði margt á þessum fundi og flestir hlýddu agndofa á. Hún kom með ný orð og ný hugtök. Það frægasta var líklega samfundssind sem google translate þýðir sem samfélagsandi. At stå sammen hver for sig var líka vinsælt en það þýðir að standa saman hvert fyrir sig. Hún varaði þjóðina við því að yfirvöld kæmu til með að gera mistök, að hún sjálf kæmi til að gera mistök. Hún sagði að þau stæðu á ótroðnu landi. 
Ég fékk gæsahúð og mér vöknaði um augu. Þetta var svo súrrealískt. Eitthvað sem mun seint gleymast. Ræðan var líka góð og úthugsuð. Enda hefur hún verið greind fram og til baka og verið til umræðu á meðal ótal ræðusérfræðinga. 

Stuttu eftir að Danmörk lokaði niður, kom Svala heim og var hjá okkur í um tvær vikur. Kaupmannahöfn varð skyndilega of þröng enda ástandið slæmt og erfitt búa í litlu herbergi þegar allt lokast. Það var gott að fá hana heim. 

Það hefði aldrei hvarflað að mér að aðstæðurnar í dag, ári seinna, væru lítið skárri. Fúsi ætlaði á víkinga fyrirlestur í mars, honum hefur verið frestað til oktober. Við ætluðum á Cohen fyrirlestur í mars, honum hefur verið frestað til nóvember. Svala ætlaði í skiptinám til Mexiko í haust. Því hefur hún aflýst. Enn, ári seinna, er allt óöruggt og óvíst. Við komumst ekki í klippingu og brjótum reglur ef sex manna hópur hittist. Fúsi hefur ekki komið inn á vinnustaðinn sinn síðan fyrir jól. Ég dáist að stelpunum okkar fyrir að halda sönsum í háskólanámunum sínum. Svala hefur verið meira og minna heima í eitt ár og Aldís mætti aðeins í byrjun haustannarinnar og síðan ekki sögunni meir. Hún þekkir ekki bekkjafélaga sína og staðnar í sænskunni. Ég finn svo ótrúlega mikið til með unga fólkinu okkar og sérstaklega þeim sem eru í skóla. Það er ekki að ástæðulausu að þessi kynslóð kallar sig „generation aflyst“ (canceled) eða kynslóðin sem var frestað. 
Það var gott að ég vissi ekki fyrir ári síðan, að ástandið yrði svipað, ári seinna. 

Fyrir ári síðan hefði heldur ekki hvarflað að mér að það yrði byrjað að bólusetja á milli jóla og nýárs. Það var stór stund og um leið, óraunveruleg, að fá stunguna þann 29. desember. 

Ég er orðin kórónaþreytt. Ég er orðin það þreytt á ástandinu að ég var ein af þeim sem renndi mér á ísilögðu tjörnunum (Søerne) í Kaupmannahöfn um miðjan febrúar án samviskubits og samfundssinds. Sá gjörningur var mjög svo gagnrýndur í samfélaginu. Ekki ég persónulega, heldur allt fólkið sem fór út á ísinn (ísinn var traustur). Þegar ég stóð við enda Nørrebrogade og horfði yfir Søerne, hugsaði ég með mér: „Það er harla ólíklegt að ég eigi eftir að upplifa Søerne ísilagða aftur vegna: A. Loftslagsbreytinga og hlýnun jarðar (tjarnir frjósa sjaldnar). B. Ég bý ekki í Kaupmannahöfn. Það var margt fólk á Søerne og ég hugsaði líka að það væri rangt að fara út á ísinn. Það væri hætta á að tveggja metra reglan yrði brotin. En ég var kórónaþreytt og meikaði ekki fleiri reglur í því augnabliki og því tók ég meðvitaða ákvörðun og við nutum þess að vera á þessum stað á þessari stundu. Sólin skein svo hlýlega, Kaupmannahöfn var svo falleg, fólkið var glatt og ég var með Svölu og Fúsa. Það vantaði bara Aldísi til að fullkomna stundina. 

Ég er orðin þreytt á að hitta ekki Aldísi. Og fjölskylduna mína. Það eru sjö mánuðir síðan við sáum Aldísi síðast. Það eru 13 mánuðir síðan ég sá mömmu, pabba, og Magga bróðir. 9 mánuðir síðan ég sá Rakel systir síðast. Það eru 19 mánuðir síðan ég sá tengdapabba og vinkonur mínar, Sessu og Sigrúnu. Það eru 19 mánuðir síðan ég fór síðast austur. 13 mánuðir síðan ég fór síðast til Íslands í mýfluguhelgarferð. 
Svala hefur bjargað okkur. Hún er búin að koma svo oft heim til Sönderborgar og vera mikið hjá okkur síðastliðið ár.

Þjóðin hefur staðið sig ótrúlega vel í að sætta sig við ástandið og gerir sitt besta. Stundum fæ ég samt á tilfinninguna að við bara líðum áfram í „svona eretta bara“ ástandi. Apatísk og sjálfum okkur nóg. 

Fúsi fór að tala um í dag að ef hann yrði ekki bólusettur í maí eða júní, hvað þá með fyrirhugaða Íslandsferð í sumar? Jesús minn. Það eru margir mánuðir þangað til. Maggi bróðir spurði líka hvenær í sumar við kæmum. Ég svaraði í ágúst. En samt innst inni er ég ekki viss. Munum við komast? Verður flogið? 
Mun birta til? 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *