Sjö ákveðnir hlutir …

… sem Danir hafa keypt meira af á tímum Kóróna. 

  1. Púsluspil. Síðasta vor jókst salan á púsluspilum um 800 %. Já þið lásuð rétt. Ég keypti ekki púsluspil en í hvert skipti sem ég hugsa um púsluspil, dettur mér Sigrún vinkona í hug. Hún er kreisí púslari – þekki enga né engan sem er svona hrifin af púslum. 
  2. Máltíðarkassar (eins og Eldum rétt á Íslandi). Við prófuðum svoleiðis haustið 2018 þegar við vorum orðin örmagna á tilverunni og það reyndist okkur vel. Við prófuðum bæði frá Simple Feast og Aarstiderne. Við erum að fara í sumarbústað á fimmtudaginn og mér datt í hug að panta fyrir þrjá daga en finn ekkert fyrirtæki sem afgreiðir rétt fyrir helgi. Það hefði annars verið snilld – losna við að gera matarplan og að versla … hljómar eins og fallegt lag eftir Cohen í mín eyru. 
  3. Verðbréf. Svoleiðis brask er ekki lengur bara fyrir fólk með bindi um hálsinn. Verðbréf eru orðin fyrir alla – konur og kalla, feita og mjóa, í ullarpeysu og með bindi. Þegar peningum hefur ekki verið eitt í ferðalög, veitingarstaði og almenna verslun – þá hafa þeir safnast upp og ef ekkert er að gert, þá étur verðbólgan þá  innanfrá.
  4. Íþróttaarmbandsúr. Fólk fer í lengri göngutúra og vill sjá hvað það tekur mörg skref, á hvaða hraða og  á hvaða gangtegund það gengur og hversu langt það gengur. Ég á ekki svona úr því ég hef ekki enn fundið íþróttaarmbandsúr sem er fallegra en mitt venjulega úr sem er bara með tveimur vísum. 
  5. Gæludýr. Fólk sem hafði verið að spá í að fá sér hund, fékk sér hund. Í dag er bið eftir hundum. Á sama tíma er að óttast að það verði óvenju margir hundar sem vantar ný heimili á næstu misserum. Hundar eru ekki dauðir hlutir. Hundar er gríðarlegar tilfinngaverur sem krefjast kærleiks, tíma, þolinmæði og virðingar. 
  6. Málning. Öll heimaveran olli því að fólk fór að reka augun í vanrækta veggi. Auk þess hafði það meiri tíma. Og meiri peninga í viðgerðir. Sum fyrirtæki upplifðu 120 % aukningu í málningasölu. Við urðum hluti af þessari söluaukningu því að við fengum okkur nýtt eldhús og máluðum það. 
  7. Brauð og bakkelsi hjá bakaranum. Raðarnar geta auðveldlega orðið hundruð metra langar. Fólk hefur dekrað við sig. Huggað sig sjálft. Í morgun hjólaði ég yfir brúna til Jótlands og sótti rúnstykki í 100 ára gamalt bakarí. Ég tvísteig í forstofunni áður en ég fór af stað; átti ég að taka með vettlinga eða ekki? Ég ákvað að vera með vettlinga sem var gott því brúin var uppi (opin fyrir bátaumferð) og svo nístíngskalt svona tiltölulega snemma morguns. En svo undurfallegt að horfa yfir sundið og á bæinn. Eiginlega í hvert skipti sem ég hjóla yfir brúna, vona ég að hún opnist því þá get ég stoppað og horft yfir. 

Færslan er lauslega þýdd og stílfærð upp úr frétt á TV2. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *