Fyrir vestan á aðventunni.

Nú sit ég í sumarbústað og blogga um aðra sumarbústaðaferð. Sumarbústaðaferð sem var farin á aðventunni. Það kallast að vera ekki í núinu.
Við höfum oftast farið í helgarferð eða dagsferð á aðventunni undanfarin ár. Kaupmannahöfn, París, Hamburg, Tönder … bara eitthvað því það er svo gott að kúpla sig út úr jólastússinu þó ekki nema sé yfir helgi.
Í ár leit út fyrir að ekki yrði farið neitt né gert neitt. Engin jólahlaðborð, engir tónleikar eða sýningar. Ekkert nema dumbungurinn framundan þar sem enn meiri lokanir voru að bresta á.
Þess vegna ákváðum við að reyna gera gott úr málunum og fara í bústað. Vesturströndin varð fyrir valinu.


Við lögðum af stað á miðvikudegi og keyrðum inn í kolsvart skammtímamyrkrið í hellirigningu. Þetta var í lok nóvember. Stutt var eftir af ferðinni í þungri seinnipartsumferðinni þegar dádýr hljóp í veg fyrir bílinn og lenti á vinstra framljósinu. Æðisleg byrjun á helgarfríinu okkar eða hitt þó heldur! Dádýrinu var sem betur fer lógað stuttu seinna og bíllinn fór á verkstæði þegar við komum aftur heim.

Sumarhúsið sem við vorum í, er á Hvidbjerg strand, vestan megin við Fanø og Esbjerg. Það var eitt af fáum húsum á þessum bletti, aðeins 75 metra frá sjónum. Hópur kinda hélt til fyrir utan eldhúsgluggann. Ljósin frá Esbjerg sáust þegar myrkva tók. Húsið var notalegt, búið öllu sem til þurfti til að slaka á.

Þegar við fórum í bústaðinn á Sjállandi í lok sumars, gerði ég matarplan og hafði hugsað fyrir öllum máltíðum áður en við lögðum af stað, sem gerði það að verkum að, ef ég man rétt, það var farið einu sinni í búð á heilli viku. Þetta reyndist okkur mjög vel og minnkaði allt álag sem getur fylgt matarstússi. Kannist þið kannski við eftirfarandi spurningar úr hversdagsleikanum?

  • Hvað á að hafa í matinn?
  • Hvað vantar?
  • Hver nennir að versla?
  • Hver nennir að elda?
  • Hvað gleymdist svo að kaupa?
  • Hver nennir aftur út í búð?

Þegar við fórum á Vesturströndina, hafði ég líka gert matarplan sem hljómaði svona:
-Miðvikudagskvöld: Heilhveitipasta Pomodoro með grófu ciabatta og rauðvíni.
-Fimmtudagshádegi: Afgangur af pastanu.
-Fimmtudagskvöld: Hokkaidosúpa toppuð með ofnsteiktu grænkáli, ristuðum graskærfræjum, krydduðum kjúklingabaunum, kóríander og rjóma.
-Föstudagshádegi: Afgangur af súpunni.
-Föstudagskvöld: Karrýkryddaðar kjúklingabaunir með teriyakimaríneruðum tófúbuffum.
-Laugardagshádegi: Afgangur frá kvöldinu áður.
-Laugardagskvöld: Pöntuðum mat frá veitingarstað í nágrannabænum.
-Sunnudagur: Út úr húsi fyrir kl. 10.00 og heim.

Þetta fyrirkomulag fyrirbyggir eldamennskustreitu hjá mér. 

Vesturströndin er sér kapítúli útaf fyrir sig. Þegar fólk sér ströndina, langar það held ég til að hlaupa bara eitthvað út í bláinn. Hvort sem það hefur gaman af að hlaupa eða ei. Birtan er líka svo spes. Hún er skær. Loftið er svo ferskt og hljóðið svo hreint. Það er bara eitthvað við þennan landshluta og það er erfitt er að lýsa því.

Við ætluðum að slappa af, helst bara liggja og lesa næstum allan tímann, fyrir utan að pakka inn nokkrum jólagjöfum og skrifa á jólakort, en náttúran dró okkur út. Við eyddum mikið fleiri klukkustundum úti við en meiningin var. 
Við byrjuðum daginn á að ganga þessi örfáu skref niður á strönd til að sjá sólina rísa úr hafi, smala mávunum og tína ruslið sem skolað hafði á land í síðasta flóði. 
Við vörðum miklum tíma á Blåvands ströndinni. Meðal annars jarðsungum við dauðan sel, skoðuðum byrgin sem Þjóðverjar byggðu til að verjast mögulegri innrás Englendinga inn í Danmörk í seinni heimstyrjöldinni, smöluðum mávum (að venju), létum freiðandi sjóinn elta okkur, hlupum upp og niður hólanna og þreyttumst ekki á að horfa á sólina súnka í hafið.

 

 

 

Við fórum líka til Ho plantekrunnar þar sem háar sandöldur hafa myndast með tímanum og stöðvast með náttúrulegri sáningu. Mjög skemmtilegt svæði með fjölbreyttum og öðruvísi gróðri en við eigum að venjast heima á eyjunni Als. Einnig er mikil saga á þessum stað sem er mjög vel skiltuð og auðfinnanleg.

 


Þarna er sólin að koma upp á bak við sandölduna í Ho. 

Það sem mér þykir skemmtilegt að gera þegar ég er í bústað er að skoða umhverfið og borða góðan mat.
Kær kveðja 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *