Vani eða óvani?

Ég er alin upp við að horfa á fréttirnar, ég hef lagt það í vana minn að horfa á fréttirnar og ég verð að horfa á fréttirnar á hverju kvöldi, annars veit ég ekki hvað er að gerast í heiminum. Eða hvað? Hvað fæ ég út úr einum fréttatíma? Nú eða tveimur þar sem ég þarf auðvitað bæði að horfa á dönsku fréttirnar og þær íslensku á RÚV?
Stundum er sagt frá rútuslysi í Pakistan. Eða falli úr stillansa á Snæfellsnesi. Oft er sagt hversu margir séu smitaðir af Covid-19 á Íslandi, hvar þessir tveir smituðust og hverra manna þeir eru. Já eða frá smittölum í Ástralíu? Ég hef lítið við þær upplýsingar að gera. Síðan er það fréttin um hið gullfallega eldgos á Reykjanesskaganum – sama fréttin og var í gær.  Kvöldið eftir endurtekur þetta sig allt saman og nánast orðrétt.

Dönsku fréttirnar ættu að vera meira viðeigandi fyrir mig þar sem ég bý í Danmörku. En þar er sama sagan;  AstraZeneca eða ekki AstraZeneca, stjórnmálamaður hefur verið ákærður fyrir fjársvik og Rússar hökkuðu Bandaríkinn og Bandaríkinn kölluðu 10 diplómata heim frá Rússlandi. Eða var það öfugt? Er þetta eitthvað sem gagnast mér að horfa á sjö sinnum í viku? Auk þess hlusta ég mikið á útvarp og í raun búin að heyra þetta alltsaman þegar fréttatíminn byrjar. Er þá vaninn að horfa á fréttirnar orðinn að óvana þegar fréttirnar veita mér litla ánægju?

En hvað er vani? Margir fræðimenn hafa grúskað í vananum og gróft sagt segja þeir  að vaninn geti verið tvennskonar. Annarsvegar að vaninn sé einn af kjörnum lífsins. Aristóteles ásamt fleirum sögðu að manneskjan sé manneskja vegna vanans því vaninn styður ávallt við bakið á okkur. Vaninn býr í vöðvunum og við gerum hluti ómeðvitað af vana. T.d. klæðum við okkur eins í sokkana á hverjum morgni eða skiptum ómeðvitað um gír án þess að hugsa mikið út í að skipta um gír. Við höfum lært þessa hluti og gert þá svo oft að við þurfum ekki að velta fyrir okkur afhverju né hvernig.

Hinn danski Kierkegaard og þjóðverjinn Heidegger sáu hinsvegar vanann sem stærra vandamál og sögðu að vaninn væri eins og rándýr sem yfirbugar okkur og hámar okkur í sig sem gerir það að verkum að við eigum í erfiðleikum með að taka meðvitaðar ákvarðanir. Við lifum lífinu á sjálfsstýringu og bregðumst við án þess að velta fyrir okkur afhverju, hvort, hvernig osfrv.

Fyrir mér hljóma báðar kenningarnar rökréttar. Ef við þyrftum að velta fyrir okkur öllu því sem við gerum, líka því að klæða okkur í sokka, yrðum við ansi þreytt í lok dags. Á sama tíma getur verið varhugavert að lifa lífinu á sjálfstýringu og aldrei að stokka upp í venjunum. Það eru ekki allir vanar ákjósanlegir eða hentugir. Og til að losa sig við gamlan vana og forðast tómarúm verður nýr vani að koma í staðinn – einhver sem veitir ánægju. Oft er mælt með að við horfum í kringum okkur og leyfum okkur að verða fyrir innblæstri frá umhverfinu og samferðarfólki okkar. Ég þekki t.d. konu sem á ekki sjónvarp. Nú er okkar sjónvarp komið á sölu og ef það selst er lítið mál að hætta að horfa á fréttirnar.

-Birtist í Austurglugganum í apríl 2021. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *