Í bústað á Fjóni

Við fórum í þriðju sumarbústaðaferðina (kórónasumarbústaðaferðina) upp úr miðjum mars. Sú tilfinning um að ég yrði að breyta til, helltist yfir mig og þar sem ég var að vinna um páskana og ekki fyrirséð að verja þeim með Svölu, þá var ágætis lausn að stemma saman fríhelgunum okkar og hittast miðja vegu í bústað. 

Í ágúst vorum við á Sjálandi, í nóvember á Vesturströndinni og nú varð norður Fjónn fyrir valinu. Við vorum aðeins í þrjár nætur og nýttum tímann vel í að gera sem minnst. Nema náttúrlega elda eitthvað gott og hollt og að vera úti.

Á föstudagskvöldinu vorum við með uppáhalds og besta „fyrsta kvölds“ sumarbústaðakvöldmatinn okkar: Pasta Pomodoro. En það er bara eitthvað gott heilhveiti pasta, passata (tómatsósa en þó ekki ketchup …), hvítlaukur, laukur, chili, salt og pipar. Og gott brauð með, með góðri ólífuolíu og salti. Vissuði að í vetur lét ég búð niður í bæ panta fyrir mig 10 lítra dúnk af góðri olíu? Þessi pastaréttur er svo bragðgóður, fljótlegur og lúmskt hollurþegar pastað er „gróft“. Og svo liggur við yfirliði þegar þessu er skolað niður með með góðu rauðvíni. 

Á laugardeginum bjuggum við til Polentapizzu með ristuðu smjörhnetugraskeri, graskersfræjum, skalottulauk, spínati, basil og næringargerflögum. Í pizzusósuna nýttum við skvettu af passatasósunni frá því kvöldinu áður.

Svala fór heim til Kaupmannahafnar á sunnudeginum þannig að við Fúsi höfðum bara afganga það kvöldið. Planið var að hafa Portobellosveppi með falafelfyllingu, grænkáls- og quinoatabouleh og kókos- og myntudressingu. Þeir voru í staðinn hafðir í kvöldmat heima í Sönderborg á mánudagskvöldinu.

Við bökuðum graut í morgunmat, bjuggum til tofuhræru, bökuðum skonsur og einfalda og góða bananaköku.
Ég gerði það sama og í fyrrnefndum bústaðarferðum; gerði matarplan, verslaði allt heima í Sönderborg og tók allt með. Það sparar mér svo mikinn tíma og minnkar heilabrot um hvað skuli elda og hvað vanti. Tala nú ekki um að sleppa við búðarferðir.

Það tók okkur um 7 mín að ganga á ströndina. Rétt hjá bústaðarhverfinu er Enebærodde sem er langur og mjór tangi út í Odensefjörðinn. Við gengum hann hálfann – ekki vegna þess að hann var of langur, heldur nenntum við ekki að labba meira. Veðrið var frábært en við vorum þreytt og mig langaði meira til að vera í eldhúsinu í bústaðnum.

Mánudagurinn var heimferðardagur og þar sem við vorum bæði í fríi lá okkur ekkert á. Við skiluðum bústaðnum kl. 10 og keyrðum í vesturátt til að skoða Flyvesandet og Súlnaskóginn. Þaðan sést yfir til eyjunnar Samsø sem er mest fræg fyrir kartöflur. Rétt hjá þessum stöðum er Eplaeyja en út í hana er aðeins hægt að ganga á lágflóði og þarf að vaða um 1,5km. Það langar mig til að gera einn daginn.

 

Stundum langar okkur í okkar eigin bústað, stundum ekki. 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *