Úr fyrsta gír í hærri gír.
Eftir fjögurra mánaða lokun í Danmörku er verið að opna mest allt aftur. Það er gert í þrepum á tímabilinu 6. apríl til 21. maí. Þessi opnun er heilmikið batterí sem krefst mikillar skipulagningar og þolinmæði. T.d. þarf að vera með gilt coronavegabréf til að fá aðgang að hárgreiðslustofum, veitingastöðum og söfnum.
Ég hef verið alveg róleg og eiginlega svolítið gleymt eða spáð lítið í hvað er nú opið eða hvað verður opnað næst. Á þriðjudaginn ákváðum við Fúsa að fara út að borða heima hjá okkur (eins og við höfum gert ótal oft undanfarna mánuði) og pöntuðum okkur góðan mat frá veitingarstað niður við höfn. Algjörlega stolið úr mér að daginn eftir átti að leyfa veitingastöðum að opna fyrir afgreiðslu á mat á útisvæðum. Og þó að innisvæðin hefðu verið opnuð, þá hefði ég ekki fattað það. Við vorum bara í sama gírnum – um það bil í fyrsta gír og í þeim gír er heimurinn heima.
Á miðvikudaginn var ég að virða fyrir mér sundurbitin og tætt naglböndin og hugsaði með mér að þetta væri alveg hrikalega ósmekklegt. Sérstaklega þar sem hendurnar á mér eru svo ótrúlega nálægt augum foreldra barnanna sem ég er að handfjatla. Já eða þegar ég handfjatla mjólkurfull brjóstin á mæðrunum. Þá eru bara nokkrir sentimetrar á milli augnanna þeirra og handanna minna. Og á miðvikudaginn þarna sem ég var að virða fyrir mér naglböndinn mundi ég allt í einu eftir að það er búið að opna snyrtistofurnar líka. Ég fékk tíma daginn eftir (í gær).
Ég var eini viðskiptavinurinn inni á stofunni. Yfirleitt er fullt þegar ég kem þarna. Þetta þýddi að allir starfskraftarnir þrír voru lagðir í mig eina. Ég fékk bæði hand- og fótsnyrtingu og ég get svo svarið það – þvílíkt dekur. Konurnar sem eiga staðinn og vinna þarna eru annað hvort frá Víetnam eða Filipseyjum, ég man aldrei hvort. Þess vegna verð ég aldrei móðguð þegar Danirnir muna ekki hvort ég komi frá Íslandi eða Færeyjum. En ég elska að sitja þarna og hlusta á þær tala. Þær tala mjög lágt og viðstöðulaust á sínu móðurmáli. Og þó að einhver þeirra fari á bakvið heldur hún áfram að tala og sú sem er með mig heldur áfram að segja já og nei þótt það heyrist ekkert í þeirri sem er á bakvið. Ég dáist að heyrn þeirra allra. Mér líður eins og ég sé í ferðalagi þegar ég er hjá þeim – annað hvort í Víetnam eða á Filipseyjum, ég er ekki viss.
Ég spurði þær hvort það væri með rólegra móti á stofunni og þær sögðust halda að fólk vissi ekki að það væri búið að opna.
Ég held það einmitt. Fólk er bara í hægum ham, fyrsta gír, jafnvel með handbremsuna á. Við erum orðin vön að vera í þessum gír – löngu búin, þvert á geð, að aðlagast að geta ekkert farið, ekkert gert. Panta bara mat og naga naglböndin heima. Við erum orðin vön að vera með úr sér vaxið hár, búin að gleyma að það sé til eitthvað sem heitir bíó og tónleikar, söfn eru í sömu órafjarlægð og tunglið og þegar fyrsta myndin af Aperol birtist á Instagramminu mínu í gær, brosti ég og hugsaði: Ó já, good times, good times. Því mér fannst þessi mynd vera frá því í fyrra. Úr fortíðinni. En við nánari skoðun var þetta vinkona mín mætt á Kiesling – uppáhalds kaffihúsið okkar í Sönderborg og ég fattaði ekki strax að þetta var nútíminn.
Ég þarf virkilega að fara taka mig á, stíga á kúplinguna og skipta um gír. Skríða út úr hýðinu og uppgötva að það er til líf fyrir utan heimili og vinnu. Upplifa fallega bæinn minn lifna við í takt við vorið, kirsuberjatrén og anímónurnar.
??
Mikið hlakka ég til vorsins og vonadi getum við farið að sjá fyrir endan á þessum skrýtnu tímum sem við lifum í núna! Bestu kveðjur frá Gautaborg
Mikið er ég sammála þér Ellen <3