7 lönd sem mig langar til að heimsækja.
Er ekki kominn tími á sjölistafærslu? Sjö atriði um eitthvað. Sjálfri finnst mér skemmtilegt að lesa um lista í dagblöðum, tímaritum eða bloggum.
Ég ætla að gera lista yfir þau sjö lönd sem mig langar mest til að heimsækja akkúrat núna í kvöld. Ég ímynda mér að ég sé í eins löngu fríi og ég þarf/vil og standi með flugmiða í höndunum. Já eða bílinn tilbúinn. Ég get farið hvert sem ég vil. Allt er ókeypis. Danmörk er ekki með.
Ég byrja á landi númer sjö. Og enda á landinu sem mig langar allra mest til akkúrat núna.
SJÖ
Chile: Ég veit ekki afhverju, ég gæti svo sem líka getað skrifað Kólombía, Mexíkó, Argentína … Í hvert skipti sem ég les bók eftir Isabel Allende langar mig til Chile. Ég ímynda mér að fjöllin séu af öðrum heimi og freyðandi Kyrrahafið frussar í hrjóstugum fjörunum.
SEX
Kenýa: Þegar ég sá nýju Lion King myndina, fann ég í fyrsta sinn fyrir sterkri löngun til að fara til Kenýa. Ég hef líka verið að lesa Blixen. Mig langar í loftbelg yfir grassléttuna við sólarupprás. Mjög uppfinningarsamt, ég veit. Og mig langar til að borða afríkanskan mat.
FIMM
Frakkland: Við ætluðum í roadtrip um vesturströnd Frakklands haustið 2018. Við erum ekki enn farin. Mig langar ennþá. Reyndar langar mig til að skoða allt Frakkland. Og mig langar líka til Parísar strax í kvöld (það væri þá í fimmta skiptið).
FJÖGUR
Bandaríkin: Mig hefur lengi langað til að fara í roadtrip um Bandaríkin. Ég vil fara til ríkjanna Colorado, New Mexico, Utah, Arizona, Washington og Louisiana. Ég væri til í að keyra um á húsbíl með tilheyrandi útihúsgögnum. Allavega um fyrstu fjögur nefndu ríkin. Washington og Louisiana eru ekki beinlínis í nágrenninu. Ef ég færi til Washington þá myndi ég vilja hafa þoku, jafnvel súld og ganga um í skógi ímyndandi mér varúlfa og vampírur fylgjast með mér úr leyni.
Ég sagði að á meðan Trump var forseti færi ég ekki til Bandaríkjanna. Nú er kominn nýr forseti og leiðin vestur að greiðast. Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég sé of mikil princip manneskja.
ÞRJÚ
Noregur: Ég sakna Noregs mjög oft. Mig langar til alls Noregs (er hægt að segja það?). Mig langar til austurs og vesturs, suðurs og norðurs. Heyriði, ég ætla aðeins að breyta. Ég ætla að hafa slá Noregi og Svíþjóð saman. Ég myndi pakka í bílinn og keyra yfir til Skánar. Stoppa í Linderöd í þrjár nætur. Keyra síðan upp með vesturströndinni og stoppa í Gautaborg og heimsækja vini. Halda áfram norðureftir og yfir til Elverum í Noregi og stoppa þar líka. Ég hugsa að ég myndi vera viku í Elverum. Frá Elverum myndi ég keyra í einum rykk í gegnum sænska skóginn yfir til Umeå sem liggur austan megin á norðurlandi Svíþjóðar. Það er löng keyrsla og ég væri búin að fá nóg, þannig að þar myndi ég setja bílinn upp í hraðlest og skjóta mér yfir Finnland á ógnarhraða og til Murmansk í Rússlandi. Ég myndi held ég ekki stoppa lengi þar. Kannski tvær nætur eða svo og síðan halda áfram yfir til Noregs aftur. Ég kæmi til Kirkenes, borðaði þar ásamt því að rétta úr mér. Áfram lægi leið mín til Vadsø en ég er nýbúin að lesa bók þar sem aðalpersónan fer þangað.
Noregur er langur og seinfarinn og því tæki þetta ferðalag um það bil nokkra mánuði ef mér misreiknast ekki. Ég myndi þræða nyrsta hluta Noregs og niður vesturströndina. Ég færi í gegnum Hammerfest, Alta og Tromsø. Ég myndi fara út á Lofoten og vera þar í nokkrar vikur. Fá mér vinnu við að verka skreið. Ég myndi koma við í Bodø og rifja upp sumrin þrjú þegar ég var þar.
Ég myndi stoppa lengi í Bergen – ég elska Bergen.
Ég myndi vera tvær vikur í Stavanger hjá frænkunum mínum fimm og Herra Akureyri.
Ég myndi liggja í sólbaði á ávölu klettunum á suðurströndinni. Ég myndi enda í Osló. Þar væri ég orðin ferðaþreytt og myndi ekki meika meiri keyrslu, þannig að ég tæki ferjuna heim til Danemrkur
Ég sakna Noregs.
Skandínavía er stór, þess vegna varð þetta svona langt.
TVÖ
Ísland: Ég væri svoooo til í að fara til Íslands. Ég fer að fá magabólgur af söknuði! Þið vitið hvað ég myndi gera á Íslandi. Ég myndi vera lengi á Íslandi.
EITT
Svíþjóð: Ef ég gæti farið í ferðalag hvert sem er strax í kvöld, myndi ég fara beinustu leið til Svíþjóðar (það má hafa Svíþjóð tvisvar á listanum), nánar tiltekið til Stokkhólms. Ég myndi taka flugið frá Sönderborg til Kastrup og þaðan til Arlanda. Þar myndi ég leigja bíl og bruna beint til Tullinge sem er úthverfisbær við Stokkhólm. Ég þrái að komast þangað. Ég er farin að fá hjartsláttartruflanir af söknuði!
Hvert myndir þú vilja fara ef þér stæði til boða að fara strax og eins lengi og þú vilt? Endilega segðu mér það í athugasemdum.