Þegar veskið leggst inn á sjúkrahús…

Fyrir nokkrum mánuðum sagði ég ykkur frá hversvegna ég reyni að halda leggjunum nokkurnvegin hárlausum. Það er vegna þess að ég gæti lent í því að fötin verði klippt af mér fyrir framan hóp af fólki. Það er hægt að lesa nánar um það hér.

Aðfaranótt mánudags var ég stödd í vinnunni og tók á móti konu sem kom ásamt veskinu sínu til okkar. Þegar fólk kemur til okkar á gjörgæslunar er það aldrei planlagt og því engin tími til undirbúnings né að pakka. Eftir að allt var fallið í ljúfa löð og komin rólegheit á stofuna mína, tók ég veskið hennar til að skrásetja allt verðmætt í því. Það gerum við alltaf 2 saman til að tryggja okkur í bak og fyrir og hafa stjórn á hvaða eigur koma inn og hvað fer út.

Þarna sem ég stóð með veskið hennar hugsaði ég með mér að ég vildi að þetta væri mitt… ekki það að mig langaði að eiga veskið né innihaldið… heldur hvernig hún raðaði í það. Mig langaði semsagt að eiga uppröðunina hennar. Þetta var aðdáunarverð uppröðun.

Og skyndilega sló það mig að þetta hef ég aldrei hugsað útí. Ég passa upp á líkamshárin og að vera í hreinum nærfötum ef slys ber að garði… en hef aldrei spáð neitt í veskið mitt. Og Guð Minn Góður Holy Moly Marmelaðe ef einhver þarf að gramsa og skrásetja upp úr veskinu mínu. Ekki að það sé neitt merkilegt í því sem er vandræðalegt heldur áttaði ég mig á því að það gæti allt eins verið ruslapoki eins og veski. 2014-06-19 20.33.57

Það eru 3 stór hólf og oní einu þeirra eru 2 aðeins minni hólf. Veit ekki hvað hefur gerst því síðasta veskjablogg (sept ´13) var ekki svona slæmt… þá birti ég þessa mynd:

photo1

…og skrifaði undir hana að þetta væri stórt brot af innihaldi veskisins. Veit ekki hvaða veski ég gekk með þann daginn?

Í veskinu mínu í dag myndi grey starfsmaður sjúkrahússins finna svartar buxur á botninum síðan á Íslandi í vor (það hefur verið svo gott veður í DK síðan ég kom heim að þær hafa gleymst), dömubindisinnlegg (ónotað) sem hefur velkst um svo lengi að það er orðið brúngrátt, nylonsokkabuxur (hef ekki hugmynd um síðan hvenær), óteljandi A4 blöð sem má ekki henda, óteljandi kvittanir sem má ekki henda, dýraspjöld úr Fötex, límmiða úr Fötex, lítin H&M poka sem inniheldur rúgbrauðssneið með roastbeef, remolaði og steiktum (sem átti að vera nesti í gær en ég fann annað betra í vinnunni) og 2 hálffullir vatnsbrúsar til að skola þessu niður ásamt buxunum. Og til að krydda þetta ásamt öðru smáu og stóru í veskinu, þá opnaðist púðurstaukurinn (púður í hár) fyrir nokkrum dögum… og það er verra en að missa Risa Ópal úr pakkanum. RisaÓpal fer bara beint niður í botn og er síðan staðbundin þar.

Annars er mitt veski hátíð miðað við veski Eskfirðings eins… upp úr því fljúga nærbuxur og beint í andlitið á heitum verkamönnum! Tjekkið á því hérna.

Þetta er því áminning og gott ráð til ykkar veskjafólk… það getur verið að einhver gramsi skyndilega í veskinu ykkar og þið getið ekkert gert í því!

P.s. ég henti roastbeefrúgbrauðinu strax eftir að ég tók myndina… En gott ég bloggaði í kvöld því annars hefði roastbeefrúgbrauðið ekki fundist í nánustu framtíð!

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *