Ég er tröll…

Í vinnunni minni er ég eilíft aðhlátursefni vinnufélagana. Þau fá aldrei nóg af að stríða mér á íslenska framburðinum í dönskunni. Ef ég segi: „ég þarf meira propophol“, þá endurtaka þau…“þú færð meira prrropophol“. Eða ef ég bið um adrenalín á stundinni þá segja þau „ADDDRRRENALIN heyrt“. Þau átta sig ekki sjálf á að það eru þau sem segja þetta vitlaust, ekki ég. Maður segir allavega ekki popophol og aðrenalin… það er kolrangt. Eins og að segja „böð“ í staðin fyrir „bröð“ (brauð). Einn daginn um daginn var ég að hampa gulrótarrúgbrauðinu úr Lagkagehúsinu, sagði að það væri geggjað. Vinnufélaga mín greip það og endurtók: „hvað segirðu, finnst þér gulerrroðsrrrúgbrrröðet best?“ Á dönsku myndi maður bera þetta fram svona: „gúloðsúgböð“. Ég benti henni á að það væru 3 R í orðinu… hún sagði einmitt, 3 en ekki 30. Þetta var eftir hádegi, komin vinnulokagalsi í liðið og þau skemmtu sér konunglega yfir gulrótarrúgbrauðinu mínu. Báðu mig um að endurtaka í sífellu og hnigu saman úr hlátri. Mér var alveg sama, svo lengi ég fæ athyglina, þá er þetta í lagi.

Ég er líka orðin lúnkin í pólsku… eða pólskum framburði. Reyndar er uppáhalds læknirinn minn ekki sammála (en hann er pólskur) og segir að ég þurfi að bæta fleirum s´um inní, annars sé þetta of mikil rússneska. Ég þykist skilja allt þegar hann talar við konuna sína í símann og þýði gjarnan jafnóðum yfir á dönsku fyrir vinnufélagana. Þeim pólska finnst ég of gróf, segist ekki stynja, en það er ekkert að marka, hann er kaþólikki.

Á föstudagskvöldið síðasta var ég að vinna og það var rólegt. Beta (stytting á alvöru nafni svo engin þekkist) kom til mín og spurði mig hvort ég vissi afhverju online vaktarplanið á appinu í símanum hennar vildi ekki samþykkja kennitöluna hennar. Hún væri búin að reyna og reyna en ekkert gengi.

Ég spurði hana hvort engin hefði talað við hana? Um hvað? Okay, það átti fyrir löngu að vera búið að láta þig vita, ég geri það þá, sagði ég. Setti upp alvarlega andlitið með hluttekningarsvipnum og sagði: „Beta, þú ert ekki til. Þú ert löngu dáinn“. Beta greyið starði á mig og fór svo að hlægja. Ég sagði að þetta væri ekkert til að hlægja af. Hvort hún héldi að það væri tilviljun að hún væri með ískalda putta og tær sama hvernig viðraði? Ha! sagði Beta (hún notar einmitt alltaf puttana til að mæla mænudeyfingu á meðan aðrir nota ísmola.) Og hvort hún hefði aldrei tekið eftir að fólk færi í vattjakka þegar það væri lengi í návist hennar. Að hiti hennar sjúklingana félli alltaf um nokkrar kommur, þessvegna fengi hún alltaf sjúklinga með háan hita. Hvort hún hefði aldrei orðið vör við matarhrúguna sem lægi fyrir aftan stólinn hennar eftir hverja matarpásu og að það lenti á okkur að þrífa upp eftir hana?

Beta spurði mig hvort hún gæti ekki bara gengið í gegnum veggi og allt? Jú vinan, þú getur það. Afhverju geri ég það þá ekki? Afþví að þú hefur ekki vitað að þú gætir. Þú hagar þér eins og þú sért sprelllifandi þótt þú hafir verið jarðsett frá Ribe dómkirkju árið 1767. Ribe! kváði Beta, afhverju er ég þá í Sönderborg. Það er vegna þess að nú ertu á veiðitímabilinu, þú heillast af þýskum skútukörlum og hangir á höfninni þegar þú ert ekki í vinnunni, sagði ég og fór í vattjakkann þrátt fyrir 28 stiga hitamollu á gjörgæslunni.

Síðan bætti ég við að kvikmyndin The sixth sense (sjötta skilningarvitið) væri byggð á fólki eins og henni, semsagt byggð á sannleikanum.

Beta fékk gæsahúð og spurði mig hvort ég gerði mér grein fyrir að hún byggi ein? Að nú væri hún orðin hálf myrkfælin við sjálfa sig. Að hún ætti eftir að hjóla um myrkar göturnar (danir slökkva á öðrum hverjum ljósstaur eftir kl. 21.00) og ganga upp myrkran stigaganginn í stóra dimma fjölsbýlishúsinu sem hún býr í. Ég sagði henni bara að sætta sig við hlutskipti sitt, skríða ofan í kistuna sína og loka. Ég skildi fara með faðir vorið.

Síðan skildust leiðir okkar, Beta fór inn á stofuna sína og ég sem var sjúklingalaus fór í símann og tók prófið; Hvernig goðsagnardýr ertu? Sá að hinir vinir mínir á facebook höfðu fengið einhyrning, norn, fuglinn Fönix osfrv.

Ekki það að ég sé sú manngerð sem tekur svona tilgangslaus próf í tíma og ótíma, hvað þá opinberi það… finnst það fyrir neðan allar hellur.

Eftir að hafa svarað spurningum eins og hvaða litur róaði mig mest, hvað ég hugsaði þegar ég horfi upp í himininn, hvernig æskan mín hefði verið, hvort ég muni draumana mína og svo fram eftir götunum fékk ég svar: 2014-07-27 21.45.38

Ég fékk meiri gæsahúð en Beta…

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *