Afmælin í ágúst…

Föstudagur og þriðji dagur í fríi… hef ekkert betra að gera en að skipuleggja afmælið mitt. Nú er u.þ.b. ár í það. Hvorki meira né minna. Ég þarf að huga að eftirfarandi:

  • Gestalista /
  • veitingar í föstu formi /
  • veitingar í fljótandi formi /
  • óskalista (ég fæ allavega 500 kall frá gjörgæslunni (ef ég skulda ekki of mikið í gjafakassanum)) /
  • litaþema á dúkum, servítettum, kertum og borðskreytingum (get ekki beðið) /
  • tónlist X
  • byggingarefni; spítur, naglar og skjólefni /
  • og alveg hellingur meira… /

Athugulir lesendur tóku kannski eftir að ég merkti við tónlistina… done! Já, ég er búin að harðákveða tónlist. Það verða þessir tveir… og það verður bannað að tala saman… Verður að vera algjör þögn í lókalinu.

Ef einhvern er með símanúmerin hjá þessum tveimur, sendið mér þau þá tafarlaust. Nema þeir séu í símaskránni, þá redda ég þessu sjálf.

Og talandi um afmæli þá eiga allir afmæli í ágúst… Því allir voru undir sæng í nóvemberkuldanum hérna um árið.

IMG_8956

Flestar búðir pakka inn…

IMG_8970

Og það fylgdi innkaupalisti frá Egilsstöðum… „Mamma, viltu fara í H&M og kaupa basic stöff“… Það er af sem áður var þegar allt fékkst í KHB, skeifur, sokkar, dekk og spennur.

En ekki allar búðir pakka inn. Ég er hálfvonlaus í föndrinu og passa ekki alltaf upp á að eiga pappír. T.d. átti ég ekki gjafapappír núna en fann eina rúllu af tveggja ára gömlum bókapappír. Mamma fær pakka með skeggtott af Jens Sigurðssyni.

IMG_8960

Andskotans bókapappírinn…! Frá því að dæturnar voru 6 ára þurfti að pakka skólabókunum, sem eru sveitafélagseign, inn í bókapappír. Ég þurfti að gera þetta í 12 ár! Ég hataði það (þótt ég sæi svosem tilganginn með því). Við mæðgur, allar saman með tölu, erum vonlausar í föndrinu! Sigfús er bestur en taldi þetta algjört kvennmannsverk og harðneitaði að taka þátt. Zappaði bara áfram með fjarstýringunni og horfði þessvegna á barnatímann (Gurlí grís) ef ekkert annað betra var í boði.

Stelpurnar stungu af og ég sat ein eftir með pappírinn, skæri og límband, þótt það mætti helst ekki nota límband, því það var hægt að nota góð brot!?! En ég límdi og límdi eins og það væri það skemmtilegasta sem ég gerði en í rauninni var það það leiðinlegasta. Oft myndaðist heljarinnar loft undir pappírnum og líktust bækurnar útlímdum blöðrum.

Svona gekk þetta, ár eftir ár. Alltaf voru dætur mínar með verst innpökkuðum bækurnar af öllum í bekknum. Í menntaskólanum þarf ekki að pakka inn… Guði sé lof!

Í dag nýtti ég bút af pappírnum utan um pakkann til mömmu… Gaf svo Vaski annan bút. Honum finnst svo gaman að tæta niður pappír.

IMG_8984

Hann fær bara að gera þetta þegar Fúsi er ekki heima. Húsbóndinn þolir nefnilega ekki tættan pappír útum allt hús… „afhverju í andskotanum ertu að láta hann hafa þetta kona??!??“

IMG_9003

En ég sé ekki vandamálið… ég er 10 sekúndur að fjarlægja öll spor eftir trylltan tæting!

IMG_9019

Og fæ hamingjusaman hund… og í gegnum hann, útrás á bókapappírnum… verð lengi að jafna mig á þessari 12 ára bókainnpökkunaránauð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *