Árið 2019

Kæru lesendur.

Hvursu lengi má segja gleðilegt ár? Fram að Þorra? Öskudegi? Jafnvel Góu? Talandi um Þorra og Góu, ég missi af Þorrablótinu sem haldið verður síðasta daginn í Þorra í ár eða daginn fyrir konudag sem er fyrsti dagurinn í Góumánuði. Ég ætla að vera á Tenerife um mánaðarmót Þorra og Góu. Það verður mitt annað ferðalag á þessu ári, það fyrsta verður Íslandsferð um miðjan Þorra. Þó ekki á þorrablót, heldur í stórafmæli systur minnar sem er eldri en hún heldur (hennar eigin speki.) 

Hvernig var veðrið annars á árinu sem leið? Þarf ekki alltaf að ræða veðrið? 2019 var víst votasta haust og votasta ár síðan mælingar hófust í Danmörku árið 1874. Mér fannst allir vera tala um rigningu á haustmánuðunum en hún fór alveg framhjá mér. Samt var ég mikið úti með hundinn. Ég hlýt að hafa farið úr í hvert skipti sem það stytti upp eða kannski er ég bara vatnsheld. 

Árið í ár virðist ætla að byrja ágætlega. Árið í fyrra byrjaði líka vel. Einkunnarorð ársins 2019 voru; undirbúningur, þolinmæði, ferðalög og samvera með fjölskyldunni og síðast og ekki síst; lærdómur.
Árið ’18 var ár pokans. Árið ’19 var ár lærdómsins.
Ég nefndi undirbúning og þolinmæði vegna þess að mér fannst undirbúningurinn fyrir aðgerðina í júní og starfsþjálfunina í nóvember, fylla mikið, mér finnst hlutirnir hafa gerst hægt og ég hef þurft að beita þolinmæðinni til hins ýtrasta.
Í apríl var þolinmæðin þó við það að bresta og mér fannst biðin í aðgerðina óyfirstíganleg. Ég fór til heimilislæknisins míns og bað hana um tímavél í töfluformi svo að ég gæti ferðast fram í tímann því að biðtíminn væri óþolandi. Hún sagði: „prófaðu að hætta nota orðið bið og notaðu í staðinn orðið undirbúningstími, það er mikið jákvæðara hugtak.“ Ég fór að ráði hennar og viti menn, afstaða mín til næstu 10 vikna (sem voru í aðgerðina) snarbreyttust. Við máluðum húsið að innan, ég fór í ræktina, til sálfræðings og borðaði enn hollar en ég er vön að gera, til að vera sem best undirbúin áður en hnífnum yrði stungið í mig í fimmta sinn.
Þarna gerði mér eiginlega fyrst grein fyrir, hvaða þýðingu það getur haft fyrir alvöru, að skipta neikvæðum orðum út fyrir jákvæð í daglegu tali og hugsunum. Það getur breytt svo miklu til hins betra.
Þess vegna endurtók ég meðvitað leikinn áður en ég byrjaði í starfsþjálfuninni á Gjörinu. Ég undirbjó mig andlega og líkamlega.  

Ég ætla að halda uppteknum hætti og gera eins og undanfarin ár; hafa upprifjunarannálinn í yfirskriftum og í stafrófsröð.

Afrek
Mitt mesta afrek var að hafa haldið sönsum. Þetta er víst það sama og ég skrifaði árið 2018. Þó svo að það hafi verið fleiri „fellibyljir“ í lífi mínu árið ’18, var ’19 ekki beinlínis auðveldara, það var bara öðruvísi, jafnara en samt erfitt.

Bækur

Ég ætla að gefa bókunum stjörnur, eina til þrjár. Ef bók hlýtur þrjár stjörnur, mæli ég með henni vegna þess að hún var mjög góð eða góð og gagnleg. Tvær stjörnur, þá er hefur mér fundist bókin góð en kannski ekki frábær. Ein stjarna þýðir að ég get ekki beinlínis mælt með bókinni, en minni jafnframt á að bókasmekkur hvers og eins er misjafn og enginn er betri en annars.

Hið heilaga orð e. Sigríði Hagalín **
Ungfrú Ísland e. Auði Övu ***
Feigð e. Stefán Mána ***
Árbók FÍ 2018 – Upphérað og öræfin suður af.  e. Hjörleif Guttormsson *** (Já ég las nánast hvert einasta orð!)
Kapitóla e. E.D.E.N. Southworth *** (las hana þegar ég var ung og hlustaði á hana núna. )
Hinir réttlátu e. Sólveigu Pálsdóttur * (Man ekki um hvað hún var)
Tunu e. Kim Leine ***
Sextíu kíló af sólskini e. Hallgrím Helgason *** (Vildi að ég mætti gefa 30 stjörnur)
Papmaché reglen e. Hella Joof. ***
Et glas mælk tak e. Herbjørg Wasmo ***
Kambsmálið e. Jón Hjartarson *
Anna á heiðinni e. Dagfinn Grönoset ***
Ljósa e. Kristínu Steinsdóttur ***
Húsið e. Stefán Mána ***
Hyldýpi e. Stefán Mána * (Man ekki eftir henni)
Pelle Erobreren e. Martin Nexø ** (kláraði hana þó ekki, því miður)
Lazarus e. Lars Kapler **
Aukaverkanir e. Ólaf Hauk Símonarson **
Aðeins ein nótt e. Simone Ahrnstedt **
Madame Hemingway e. Paula McLain **
Vinterland e. Jannie Pedersen og Kim Faber **
Sölvasaga unglings e. Arnar Már Arnarson ***
Psycho e. Robert Bloch **
Fra Libanon til Lærkevej e. Abdel Aziz Mahmoud ***
Helle Erobreren e. Anders Morgenthaler og Marie Louise Tuxen ***
Ægisgata e. John Steinbeck **
Babettes gæstebud e. Karen Blixen ***
Feit og móðursjúk e. Kolbrúnu Halldórsdóttur *
Tvísaga e. Ásdísi Höllu Bragadóttur ***
Morgen i Jenin e. Susan Abulhawa *** (Má ég plís gefa 30 stjörnur?)
Morder-Anders e. Jonas Jonasson 0 stjarna (Hræðileg bók)
Kastaniemanden e. Søren Sveistrup **
Raddir í garðinum e. Thor Vilhjálmsson **
Bréf til Láru e. Þórberg Þórðarson ** (Hann var frændi minn)
Det gyldne bur e. Camilla Läckberg
Snaren e. Lilju Sigurðardóttur **
Lýtalaus e. Tobbu Marinós *
Hornauga e. Ásdísi Höllu Bragadóttur **
Parísarhjól e. Sigurð Pálsson *
HHV; FRSHVN – dødsknaldet i Amazonas e. Hanne Højgaard Viemose *** (Frábær, gerist að miklu leyti allan hringinn á Íslandi)
Gift e. Tove Ditlevsen **

Fælden e. Lilju Sigurðardóttur **
Búrið e. Lilju Sigurðardóttur *
Positiv psykologi e. Hans Henrik Knoop *
At lykkes (Positiv psykologi) e. Martin Seligman **
Pigen der legede med ilden e. Stieg Larsson *** (Hef lesið hana áður)
Den unge mand e. XinXu Ren Gudbjørn **
Stúlka með fingur e. Þórunni Valdimarsdóttur ***
Stå fast e. Svend Brinkman ***
Geðveikt með köflum . Sigurstein Másson ***
Millionæren fra Singerpore e. Kevin Kwan *
Morðið í Austurlandahraðlestinni e. Agatha Christie *** (Örn Árnason les hana meiriháttar vel.)

Það voru margar bækur góðar en þær sem standa algjörlega upp úr eru Sextíu kíló af sólskini og Morgen i Jenin.
Fyrsta bók ársins 2020 var Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason. Þessi bók veitti mér svo mikla ánægju vegna þess að mér finnst hún vera falleg, fræðandi og full af von og trú. Það er akkúrat það sem við þurfum á að halda á þessum tímum þar sem framtíð Jarðarinnar virðist ekki björt. Við mannkynið höfum einstaka aðlögunarhæfni og með breyttum og bættum lifnaðarháttum, ættum við að geta búið komandi kynslóðum viðunandi jarðvist. En við þurfum að opna augun, vakna og breyta svo miklu. Og við getum það. 

Ferðalög

Við Fúsi fórum til Tenerife í febrúar. Við bjuggum í fallegum bæ, vorum á bíl og skoðuðum okkur um. Það er hægt að lesa um ferðina hérna. 
Við fórum öll fjögur til Íslands í mars. Ég fór á undan Fúsa og fór austur. Svala kom þangað frá Brasilíu. Við keyrðum síðan suður með mömmu og Fúsi og Aldís komu til landsins. Á dagskránni voru þrjár fermingar sitthvora helgina. Dögunum á milli ferminga vörðum við í bústað í Vatnsdalnum. Hér á Facebook má sjá myndir úr ferðinni. 
Við hittumst öll í Svíþjóð (Skåne) um páskana. Aldís kom þangað frá Stokkhólmi og við tókum Svölu með frá Kaupmannahöfn. 
Í Berlín í júlí hittum við Sessu og Magga og fórum á tónleika með PINK. Um ferðina má lesa hérna. 
Ég kíkti til Kaupmannahafnar til Svölu í júlí. Um það bloggaði ég líka og er færslan hérna
Íslandferð í ágúst. Við fórum til að halda upp á afmælið hennar mömmu. Þetta var mikil náttúruperluferð þar sem við sáum margt og mikið. Aldís kom frá Stokkhólmi og Svala kom frá Kaupmannahöfn og stoppaði aðeins í þrjá daga á landinu. Á þessum örstutta tíma náði hún að sjá Reynisfjöru og drangana, Jökulsárlónið, Kárahnjúkavirkjun, Laugavalladal, Sænautasel, Stuðlagil ásamt öllu því sem sést þegar keyrt er suðurleiðina og um heiðarnar fyrir austan. Á Facebook eru myndir frá afmælisdegi mömmu og eins og er, er albúmið opið öllum. Það fá finna hér. 
Í oktober fórum við til Stokkhólms til Aldísar og Svala kom þangað frá Kaupmannahöfn. Þetta var níu daga ferð, þar sem við stoppuðum eina nótt í Gautaborg hjá vinum, fimm daga í Stokkhólmi eða í Älvsjö, eina nótt á Skáni og tvær nætur í Kaupmannahöfn. Ferðin var hvorki meira né minna en meiriháttar. Á bakvið staðarnöfnin má finna bloggfærslurnar um þessa ferð. Þær urðu víst nokkrar. 
Ég fór Kaupmannahafnar til Svölu í desember. Aldís kom frá Stokkhólmi en Fúsi varð eftir heima. Þetta var því mæðgnaferð á aðventunni. Um ferðina má lesa hérna

Fjölskyldan

Fúsi er alltaf samur við sig – vinnur hjá sama fyrirtæki og hann hefur gert í rúman áratug, ásamt því að halda námskeið öðru hvoru út um allt land. Hann er reyndar byrjaður  að haltra aftur (var hættur því) eftir að hann fór í hnéaðgerð haustið ’18. Hans helsta afrek er líklega það sama og mitt, að hafa haldið sönsum sem aðstandandi.

Aldís vann hjá Johnson & Johnson allt síðasta ár og gerir enn. Einnig vann hún á kvöldin og um helgar á Bishops Army sem er „bjór eftir vinnu“ bar en hún hætti þar í desember. Hún og Greg una sér vel í Stokkhólmi. Stundum finnst mér hún langt í burtu en þrátt fyrir vegalengdina hittumst við sex sinnum á árinu.

Svala hóf árið í Kólumbíu og síðasta landið sem hún heimsótti á ferðalaginu var Brasilía. Í lok mars flaug hún til Íslands og kom svo með okkur heim til Sönderborgar. Í apríl flutti hún til Kaupmannahafnar og í ágúst hóf hún nám í dönsku við Kaupmannahafnarháskóla. Hún vinnur sem afþreying á dvalarheimili með skólanum. 

GISTANDI GESTIR.

Þetta ár var talsvert minna um gestagang en árið á undan. Mögulega fældum við einhverja frá þegar skellt var í lás og slá í september ’18 eftir gríðalegan gestagang á stuttum tíma, en svoleiðis varð það að vera til að fyrirbyggja innlögn inni á lokaðri geðdeild. En allt er í góðu núna. Enda löngu búin að jafna mig. Allir eru velkomnir 2020.
Mamma kom í júní.
Manja kom í júlí. 

Sessa og Maggi komu í júlí. 
Aldís kom í ágúst. 
Ásdís og Ragnar kíktu við í september.
Mamma kom í desember. 
Svala hefur komið reglulega „heim“ en hún flutti til Kaupmannahafnar í apríl.
Ég geri mér grein fyrir að stelpurnar mínar eru ekki gestir en í þessu tilviki hef ég þær með til að gestirnir sýnist fleiri. 

Lærdómurinn

Ég fór á 8 vikna mjög gagnlegt núvitundarnámskeið í janúar á vegum Krabbameinsfélagsins.
Ég kynntist yoga svolítið í gegnum Krabbameinsfélagið.
Ég fór fjórum sinnum til sálfræðings.
Ég fór í vikudvöl á REHPA í Nyborg á vegum háskólasjúkrahússins í Óðinsvéum, Suður danska háskólans, krabbameinsfélagins og fleiri samtaka, i september. Þarna var mjög svo þróunnar- og rannsóknarmiðuð skipulögð dagskrá, þar sem heildarhyggjan (holisminn) er ríkjandi með því að nálgast sem flesta þætti hvers og eins. Þ.e.a.s. líkamlega, andlega, félagslega, atvinnulega o.s.frv. Þetta var mjög svo gagnleg dvöl.
Í september byrjaði ég á 8 vikna viðnámsþróttsnámskeiði (resilience) sem gæti á íslensku útlagst sem „Styrktu þína hugarfarslegu seiglu“ (styrk din mentale robusthed). Þetta var líka í boði Krabbameinsfélagsins.
Ekki veit ég hvar ég væri í dag ef Krabbameinsfélagið hefði ekki gripið mig svona vel í nánast frjálsu falli, að mér fannst.
Fyrir utan þetta, gluggaði ég í bækur m.a. um Jákvæða sálfræði, las bók eftir sálfræðinginn Svend Brinkmann sem eiginlega í gríni, mætti tala um sem neikvæðan sálfræðing og opnaði bók sem búddistinn Pema Chödrön skrifaði.  

Tónleikar, viðburðir og bíó.

Tónleikar / gospel í Maríukirkjunni í Sønderborg
Tónleikar / Sinfónía; Requiem Mozart í dómkirkjunni í Ribe. 
Tónleikar / PINK á Ólympíuleikvanginum í Berlín
Ballett / Svanavatnið í Herning
Ballett / Snædrottningin í tónleikasalnum í Tivolíinu í Kaupmannahöfn.

Bíó:
Før frosten
Dronningen
Kona fer í stríð
Ser du månen Daniel
Zulu sommerbio (útibíó) / The Florida Project

Á Íslandi í gamla daga, voru vörður mestmegnis notaðar sem vegvísar. Í öðrum löndum gátu þær þjónað öðrum tilgangi. Þessar litlu vörður á ströndinni í Sønderborg, hafa engan tilgang nema þann að vera til skrauts. Ég hef gaman að þeim og finnst þær skemmtileg tilbreyting á ströndinni. Ég tek þátt í að viðhalda þeim með að lagfæra þær ef þær fjúka um koll. Þær minna mig líka á kostina við að hafa nokkuð skýra vegvísa í lífi mínu. Hvað skiptir mig máli, hver eru mikilvægustu gildin mín, hvernig tryggi ég lífsgæði í mínu daglega lífi? Hvernig vil ég lifa og hvernig vil ég að mér líði á meðan ég lifi?
Þessar vörður svara ekki þessum spurningum en á göngutúrunum mínum með Vaski um ströndina, minna þær mig á að spyrja sjálfa mig að þessu.
2020 er flott tala, ég stefni á að það verði flott ár.

–Ykkar 

4 Responses to “Árið 2019

 • Ólafía Herborg Johannsdóttir
  4 ár ago

  Ef þú hefur ekki horft á myndina um Babettes gæstebud e. Karen Blixen áttu mikið eftir.
  Við Jón lentum einu sinni inn í bíósal á ranga mynd og það var hún.
  Hún er okkur ógleymanleg.
  Hafðu það sem best og bið að heilsa í kotið með þökkum fyrir liðin ár.
  Er að taka aftur upp skrifin um Stakkahlíð og allt tengt því eftir flutning, úlnliðsbrot og fl

 • þórdís Þórhallsdóttir
  4 ár ago

  Gaman að lesa pistilinn þinn um þetta síðasta ár .Vonandi verður nýja árið ykkur gott og gangi ykkur sem best. Hér er bara suðvestan rok og svellin eru farin að minnka voru hræðileg. Hafið það sem best kveðja úr sveitinni.Dísa

 • Asdis Johannsdottir
  4 ár ago

  flott hjá þér, gaman að sjá umfjöllun bóka, takk fyrir allt,

 • Asdis Johannsdottir
  4 ár ago

  gleymdi að benda á að þetta eru ekki vörður, heldur er þetta kallað túristavörtur ha, ha..

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *